Ég hef alltaf púkalega mikla ánægju af því þegar fólk rekur trýnið upp í loft, hnussar og segir: „Iss, þetta er nú bara Kínverji,“ um bíla á borð við Polestar 2 eða MG. Eins og það sé eitthvað slæmt.

Fram til ársins 2021 var stórt hlutfall íhluta Tesla, frá… Kína. Nú hefur hlutfallið lækkað en eftir sem áður eru ofsalega margir íhlutir í Tesla og fleiri ameríska bíla framleiddir í Kína. Er eitthvað óeðlilegt við að fjölmennasta land í heimi búi yfir þekkingu, mannauði og fleira? Auðvitað ekki.

Ég nefndi MG hér að ofan. Skoðum MG aðeins:

Hafa þeir einhverja reynslu, þeir í Kína?

Hversu marga bíla ætli Kínverjar framleiði á ári. Tjah, til að einfalda þetta aðeins þá skulum við skoða fjölda framleiddra bíla á mánuði því tölurnar eru annars með svo mörgum núllum fyrir aftan. 310.000 vörubílar eru framleiddir að meðaltali í hverjum mánuði og 1.770.000 fólksbílar. 32% bílaframleiðslu alls heimsins má rekja beint til Kína og ekki get ég ímyndað mér hvert hlutfallið er þegar kemur að framleiðslu íhluta almennt, svo ekki sé minnst á rafhlöður í rafbíla.

image

Þeir kunna þetta en hvað með bílana frá Kína? Drasl? Ljósmynd/Unsplash.com

Ef þeir kunna þetta ekki þarna í Kína, hver kann þetta þá?

Beint frá býli og minna kolefnisspor

Auðvitað er frábært að leggja áherslu á að efla innviðina og styrkja með því að hvetja til þess að notað sé það sem fáanlegt er á svæðinu. Þar með þarf ekki að flytja allt heimshorna á milli og menga ofsalega mikið. Það er gott.

Hins vegar er óhjákvæmilegt í mörgum tilvikum að nota eitt og annað sem framleitt er lengst í burtu; sérstaklega þegar maður býr á eyju o.s.frv. En er ekki óþarfi að mála skrattann á vegginn, rétt eins og verið sé að versla við undirheima þegar tenging við Kína er í uppskriftinni?

image

Skjáskot/Twitter/Ray4Tesla

Sérstaklega þegar við hér í fámenninu á Íslandi erum farin að fussa þegar eitthvað er með kínverska tengingu.

image

Ljósmynd/Unsplash.com

Jæja lesendur góðir, þetta var nú meiri pistillinn! Vonandi verður hann til þess að við gætum orða okkar og ígrundum áður en við bölsótumst yfir því sem kínverskt er. Kína er nefnilega nær en margan grunar. Hvaðan er til dæmis lyklaborðið þitt?

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is