„Mér finnst óhugguleg tilhugsunin um að einhver vitfirringur gæti skotið mig niður,“ skrifaði stofnandi og forstjóri Tesla, Elon Musk í skilaboðum til ungs manns. Ungi maðurinn, sem er nemandi á fyrsta ári í háskóla, er nú í essinu sínu eftir að hafa gert opinber samskipti sín við Musk.

Í fáum orðum snýst þetta um að Sweeney notar „botta“ til að halda utan um allar þær flugferðir sem Musk fer með einkaþotu sinni. Bottinn er forritaður til að birta upplýsingarnar á Twitter og þannig geta þeir sem vilja, fylgst nákvæmlega með ferðum forstjóra Tesla.

image

Skjáskot af síðunni umdeildu á Twitter.

Auk þess er fylgst með þeim flugvélum sem tengjast Musk og þannig má sjá með hvar lykilmenn Tesla gætu verið á ferðinni. Þetta líkar Musk ekki. Hver kærir sig svo sem um að upplýsingar – sem þó eru aðgengilegar, sé grafið eftir þeim – um nánast hvert ferðalag birtist út um allt?

Skráir ferðir forsetans og líbanskra stjórnmálamanna

Sweeney hefur, sem fram kom í fyrri grein, gríðarlegan áhuga á öllu því sem tengist Musk og Tesla. Hann virðist gjörsamlega gagntekinn af þessu, eða eins og sagt var hér áður fyrr; hann er  „með þetta á heilanum“.

image

Sweeney er hugsanlega kominn á býsna hættulega braut, einkum eftir að hann komst í sviðsljósið út af samskiptunum við Elon Musk. En nú er undirrituð komin fram úr sjálfri sér.

Elon Musk hefur samband

Í síðasta mánuði voru þeir Sweeney og Musk í samskiptum. Musk hafði samband við stráksa eftir að hann áttaði sig á kortlagningu allra sinna ferða og í upplýsingum um ferðirnar í rauntíma. Þá skrifaði hann þau orð sem greinin hófst á: „Mér finnst óhugguleg tilhugsunin um að einhver vitfirringur gæti skotið mig niður,“ skrifaði Musk í skilaboðum til Sweeney.

Því næst bauð Musk þessum nítján ára pilti 5.000 dollara (um 660.000 kr.) fyrir að taka þetta bottadrasl niður sem skráði upplýsingar um hann og fyrirtækið.

image

Skjáskot/Twitter@fox35orlando

Í sjónvarpsviðtali, sem sjá má fyrir neðan greinina og birtist fyrir um sólarhring síðan, sagði Sweeney um þetta: „Þetta var bara sturlað allt saman. Ég átti bágt með að trúa þessu. Hann spurði mig hvort ég gæti ekki bara hætt þessu [...]. Hann sagði að kerfið mitt væri frumstætt og ég veit ekki hvað. Því næst bauð hann mér fimm þúsund dollara gegn því að ég hætti með kerfið og tæki það niður,“ sagði Sweeney sem ekki var nú aldeilis á því að henda öllu frá sér fyrir skitna fimm þúsund dollara.

image

Ein af athugasemdunum undir myndbandinu sem er hér neðst í greininni. Skjáskot/YouTube.

Sweeney færir sig upp á skaftið

Samskiptin sýndi hann fréttamanni, eins og sjá má í myndbandinu og þar með (ef rétt reynist en ekki tilbúningur eins og auðvitað gæti verið) gerði hann samskiptin við Musk opinber.

image

Nokkuð hróðugur sagði Sweeney svo: „ Ég er búinn að leggja mikla vinnu og tíma í að búa þetta kerfi til og ég hef líka notið þess. Þess vegna finnst mér fimm þúsund dollarar ekki sérlega mikill peningur í samanburði við þá ánægju og annað sem ég fæ út úr þessu.“

Þess vegna stakk stráksi upp á 50.000 dollurum (tæpar sjö milljónir króna) í stað 5.000 og Sweeney stakk líka upp á að hann fengi að koma í starfsnám hjá Musk.

Samningaviðræðurnar fjöruðu út og nú virðist Sweeney til í að gera eitt og annað til að viðhalda þeirri litlu glóð sem hann var farinn að hlýja sér við. Þetta er sérstakt en áfram fylgist drengurinn með ferðum fólksins gegnum bottana sína og það gera fjölmargir aðrir sömuleiðis.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is