Verbúðarbílarnir settir í samhengi I. hluti

Nú, þegar engin hætta er á því að einhverju verði ljóstrað upp um framvindu Verbúðarþáttanna, er kjörið að sýna fleiri myndir frá því tökur stóðu yfir á Suðureyri.

image

Einn bíll í fjarska en annars voru allir bæjarbúar með í því að fjarlægja nútímahluti á meðan atriði þáttanna voru tekin upp.

Undirrituð birti greinina Verbúðarbílarnir á Suðureyri í febrúar á síðasta ári. Þá stóðu tökur yfir og eins og er ljúft að vera í kyrrðinni í Súgandafirði var líka ótrúlega gaman að vera í stuðinu í kringum tökurnar. Bókstaflega allur bærinn varð hluti af Verbúðinni í nokkrar vikur. Eða öllu heldur varð Suðureyri að Verbúðinni á tímabilinu janúar - mars 2021 (þó ekki í heila þrjá mánuði heldur nokkrar vikur).

image

Kvöld- og næturtökur voru nokkrar og var sett filma á hvern ljósastaur til að birtan væri rétt - eins og í gamla daga.

Allir bæjarbúar tóku þátt með einum eða öðrum hætti. Margir voru í aukahlutverkum (létu samt  fagfólkið um að missa útlimi, detta í sjóinn og svoleiðis) en hver einn og einasti var með í þeim skilningi að taka tillit til tökuliðsins og „spila með“. Passa upp á að vera með dregið fyrir eða slökkt þegar verið var að taka upp atriði í myrkri, leggja bílunum ekki nákvæmlega þar sem næsta atriði yrði tekið upp, o.s. frv.

image

Skjáskot/RÚV

Símaklefi, sjoppa, banki og kjörbúð

Það var skemmtilegt að fá allt þetta í bæinn: símaklefa, sjoppu, banka og kjörbúð. Reyndar er lítil og krúttleg kjörbúð á Suðureyri: Nýlenduvöruverzlun Súgandafjarðar. Hún opnaði árið 2018 og er opin ca. tvo tíma á dag yfir vetrartímann eða bara eins og hentar, en lengur á sumrin.

image

Þarna er þrennt sem annars er ekki á Suðureyri: Símaklefi, búðin (hægra megin) og bankinn (í miðjunni).

image

Símaklefi er nú reyndar í „næsta nágrenni“ eða í Súðavík. Í honum eru bækur. Og tíkallasími! Síminn virkar ekki en bækurnar virka fínt – hugmyndin er að maður taki sér bók og skilji aðra eftir í staðinn.

image

Skjáskot/RÚV

Annars var enginn að vasast neitt í símaklefanum sem settur var upp á Suðureyri. Göngum út frá því að hann hafi ekki verið tengdur. En vissulega var hægt að hringja úr honum, bara úr farsíma. Þetta kallast að fara úr tíkallasíma í fimmaurabrandara….

image

Bjallan rann af stað: Sjálfrennireið

En nú er ekki seinna vænna að fjalla um bílana, eins og til stóð. Sá bíll sem er mjög áberandi í áttunda og síðasta þætti Verbúðarinnar er fagurrauð Volkswagen bjalla sem ég veit hvorki af hvaða árgerð er né heldur hvaða vélarstærð er í.

image

Einhver prakkarinn hefur laumast til að færa aðra „steinbremsuna“ frá en hin hélt bílnum greinilega.

Hitt veit ég aftur á móti að bjallan var vinsælust allra bílanna sem bættust við bílaflota bæjarins sl. vetur. Vinsælust hjá börnunum á Suðureyri á ég við.

image

Hilmir Snær í hlutverki blaðamanns í Verbúðinni. Skjáskot/RÚV

Gríp ég nú niður í fyrri grein mína um Verbúðarbílana:

„Börnin hreinlega dá þennan bíl. Þeim finnst hann vera eins og eitthvert dót og þau langar hreinlega að klappa honum og brosa þegar þau sjá hann.

image

Enda þótti þeim yngstu ákaflega freistandi að færa þessa steina til en ekki leið á löngu þar til búið var að brýna fyrir þeim að ekki mætti færa steinana. Bjallan var því ekki sjálfkeyrandi en óviljandi var hún hlutgerving orðsins „sjálfrennireið“.

image

Bíllinn sem oftast var í mynd en sást lítið

Á stöðum eins og Suðureyri við Súgandafjörð er eiginlega ekki annað hægt en að eiga bryggjubíl. Þá á ég við að þeir sem gera út verða helst að eiga einn slíkan þó að sú sé alls ekki raunin. Annars væru þeir mun fleiri.

image

Þarna eru þeir þrír sem oftast sjást: Lada Sport, hin Lada Sport og svo er það Mazda E-2200.

Hann hefur nokkra sérstöðu innan um alla bílana með X-númerunum. X-númer voru á bílum sem tilheyrðu Árnessýslu og svo undarlega vill til að fyrsti bíllinn minn var einmitt með númerið X-944 og bíll foreldra minna var þá líka með X-númeri. Þó var engin tenging við Árnessýslu.

image

Bryggjubíllinn á bryggjunni. Skjáskot/RÚV

Bílarnir eru nefnilega flestir ef ekki allir með plat númeraplötur, þ.e. X-númeraplöturnar, en Mazdan, hvíti pallbíllinn, er með „orginal“ X-númeraplötu. Fyrst var bíllinn í eigu Vegagerðarinnar en Ísafjarðarbær hefur átt hann síðan 1994.

image

Einn slurkur. Sussu suss! Skjáskot/RÚV

Það er greinilega „gott í þessu“ því kílómetramælirinn er kominn yfir 300.000 kílómetrana og enn er verið að nota þann gamla. 35 ára bíll í eigu bæjarins! Það er bara töff, ekki satt? Forn og enn í fullu starfi.  

image

Þetta er komið gott í bili, enda er þetta nú bara fyrsti hluti af tuttugu greinum. Nei, þetta var nú bara lítið grín. Ætli þetta sé ekki bara fyrri hluti og sá seinni kemur á næstunni. Ef ekki fyrir sunnudag þá er rétt að nefna eitt að lokum.

Tengt efni: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is