Bíðum nú aðeins við! Hótelbílar… Hvað er það? Jú, sum hótel bjóða gestum bíla til láns fyrir sérstök tilefni og svo geta hótelgestir einfaldlega fengið bíla lánaða án þess að tilefnið sé sérstakt. Hið síðarnefnda er algengara og eru bílarnir ekki af verri endanum!

Four Seasons Hotel Mílanó og Flórens, Ítalía

1961 Alfa Romeo Giulietta Spider

image

Ákaflega heillandi bíll, framleiddur í Mílanó af Alfa Romeo, Giulietta Spider árgerð ´61. Þessi bíll er mikilvægur hluti af Toskanapakkaferðinni sem nefnist einfaldlega „Road Trip to La Dolce Vita“. Hið ljúfa líf, ef svo má segja er ferðalag sem hefst á hóelinu Four Seasons í Mílanó, Flórens eða Cap-Ferrat og svo er ekið á milli þessara staða í bílnum fína og gist á hótelum keðjunnar. Maður þarf víst að sofa líka inn á milli.  

The Peninsula Hotels, Hong Kong og á fleiri stöðum

Rolls-Royce Phantom

image

Hótelið í Hong Kong hefur 14 bíla af gerðinni Rolls-Royce til umráða; eða öllu heldur geta gestir hótelsins notað þá bíla. Reyndar er það svo að fyrir framan hvert og eitt hótel í þessari hótelkeðju er bíll af Rolls-Royce gerð.

Baccarat Hotel, New York City

1970 Citroën DS

image

Þetta er svolítið smellið: Að bjóða upp á franska stemningu í bíltúr um Manhattan. Og það í þessum dúnmjúka dúandi DS. Þessi eðalvagn býður gestum á rúntinn ókeypis um næsta nágrenni hótelsins.

Hotel Vier Jahreszeiten Kempinski, München, Þýskaland

Mercedes-AMG GT S

image

Þeir gestir sem vija taka Autobahn með stæl og njóta þess að gefa hraustlega í geta fengið eitt svona stykki að láni. Hótelið er í námunda við A9 Autobahn og þegar þangað er komið má dúndra í 300 km/klst séu gestir þannig innstilltir þann daginn.

Carmel Valley Ranch, Carmel, Kalifornía

2015 BMW i8

image

Þetta fer skemmtilega saman: Sveitin og nútímabíllinn. Það er ekki tilviljun að i8 hafi orðið fyrir valinu á sínum tíma á þessum búgarði í Carmel Valley en þar snýst allt um sjálfbærni.

St. Regis, New York City

Bentley Mulsanne

image

Það getur varla talist annað en ljómandi gott að láta sækja sig á fínum Bentley þegar maður gefst upp á labbinu um New York í steikjandi sumarhita.

The Breakers, Palm Beach, Flórída

Tesla Model X

image

Þessi stendur gestum hótelsins til boða með bílstjóra svo framarlega sem ekki er farið mjög langt frá hótelsvæðinu.

Ocean House, Watch Hill, Rhode Island

Mercedes-Benz SL55

image

Þetta hótel er með fínasta bílaflota þar sem málin virðast ekki flækt með bílstjóra eða öðru veseni. Gestir geta einfaldlega fengið blæjubíl og notað eftir þörfum. Jú, og reyndar fleiri gerðir því ekki eru allir spenntir fyrir blæjubílum.

Undirrituð vildi síst spilla ánægjunni með því að nefna einhver verð á herlegheitunum en hægt er að smella á hlekkina og fá sjokkið með því að skoða síður hótelanna.

Þó að bílarnir kosti ekkert aukalega meðan á hóteldvöl stendur er ekki þar með sagt að gistingin sé ódýr. En maður má nú leyfa sér að fara á flakk í huganum í það minnsta!

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is