Rallökumaðurinn Gunnar Karl Jóhannesson er sjaldnast kyrr lengi. Enda væri ómögulegt að ná árangri í ralli með mikilli kyrrstöðu! Gunnar Karl er nú í Wales þar sem hann keppir á morgun í Rallynuts rallinu.

Í þetta skiptið er hann þó án Ísaks Guðjónssonar aðstoðarökumanns því Ísak og frú voru að eignast barn fyrir skemmstu og óskum við þeim innilega til hamingju með barnið.

image

Þeir Gunnar Karl og George Gwynn í morgun.

Við hlið Gunnars Karls verður þó enginn nýgræðingur, heldur er það aðstoðarökumaður að nafni George Gwynn og þeir félagar hafa keppt saman áður.

image

Hjálmurinn hans Gwynn er vel merktur.

„Hann er mjög góður og reynslumikill. Hann þekkir aðstæður í Bretlandi mjög vel,“ sagði Gunnar Karl um hinn þrautreynda breska akstursíþróttamann, George Gwynn, sem hann hefur þekkt í fjölda ára.

image

George Gwynn við bílinn. Ljósmyndir/Jóhannes Gunnarsson

Undirrituð fjallaði raunar um áhöfnina fyrst árið 2015 á öðrum fjölmiðli og í viðtali í febrúar 2015 sagði Gunnar Karl frá því að Gwynn hefði áður keppt með föður hans, Jóhannesi Gunnarsyni, í Bretlandi fyrir allnokkrum árum.

„Þokkalega kunnungur staðháttum“

Það er ekki verra að þekkja vel þann sem keppir með manni í rallinu. Þvert á móti er það oft mikill og góður kostur. Svo ekki sé minnst á að þekkja aðeins til landslagsins sem ekið er um.

image

„Við prófuðum bílinn í gær og hann var góður en tían [MMC EVO X] er nýkomin úr uppgerð. Það var skipt um kúplingu, það eru nýjar driflæsingar í aftirdrifinu, nýbúið að hjólastilla bílinn og svo eru nýjar spyrnur að aftan. Þannig að bíllinn er klár í slaginn og þetta var í rauninni upptekt fyrir Íslandsmótið þannig að þessi keppni er svona til að hrista mig í gang fyrir Íslandsmótið. Planið er að skila bílnum heim en auðvitað ætla ég að reyna að komast á pall líka,“ sagði Gunnar Karl í morgun en þeir Ísak voru býsna nálægt því að komast á pall í keppninni í nóvember síðastliðnum. Vonandi tekst það á morgun.

image

Ný KM6 dekk sem eru opin og mjúk, plús extra sterkar hliðar

„Í þetta skiptið er ég þokkalega kunnugur staðháttum þannig að ég ætla að fara á nokkuð góða ferð og reyna að klóra eitthvað í þessa toppgæja og það ætti bara að vera gaman,“ segir hann.

image

Það er ekki bara á Íslandi sem getur snjóað skyndilega en það snjóaði aðeins í dag. Og svo skein sólin.

Leiðirnar aldrei keyrðar eins

„Það er keyrt aðeins öðruvísi núna. Fyrsta leiðin er sú sama en næsta er keyrð í öfuga átt miðað við í fyrra og þriðja leiðin verður öðruvísi. Þær eru keyrðar tvisvar en aldrei eins. Á fyrstu leið keyrum við langan aukahring inni á miðri leiðinni og förum síðan aftur inn á leiðina og í seinna skiptið förum við styttri útgáfu af leiðinni,“ segir Gunnar Karl um muninn á þessu ralli og því síðasta. „Það sama á við um hinar leiðirnar. Þær eru aldrei keyrðar eins en alltaf svipaðar.“

image

Allt að verða klárt fyrir stóra daginn.

Sjöttu af stað og með gott plan

Í morgun var rallýbíllinn settur á kerru og ekið með allt heila gillið frá Birmingham til Wales þar sem Rallynuts rallið fer fram á morgun. Tuttugu og þrír bílar keppa flokknum og eru okkar menn á bíl númer 23 og þeir sjöttu sem ræsa.

image

Skipt um keppnisnúmer og jú, nöfnin á ökumönnunum þurfa að vera rétt.

Ian Joel hefur oft verið í 3. - 4. sæti og það gæti því vel komið okkar mönnum á pall ef þeir fram úr Escortinum og fylgja planinu góða.

Fyrsti bíll ræsir klukkan 09:03 (08:03 að íslenskum tíma) í fyrramálið og þeir Gunnar Karl og Gwynn ræsa sem fyrr segir, sjöttu í röðinni. Hér er síða þar sem hægt er að fylgjast með stöðu mála.

image

Tengdar greinar: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is