Renault mun þróa og smíða næstu kynslóð Nissan Micra

image

Nissan Micra hefur verið smíðaður í verksmiðju Renault í Flins í Frakklandi síðan síðla árs 2016.

PARÍS - Renault mun þróa og smíða næstu kynslóð af Nissan Micra, að því er einn af framkvæmdastjórum japanska bílaframleiðandans segir, þar sem fyrirtækin tvö vinna að því að endurskipuleggja samstarf sitt, þar sem hvert og eitt ber ábyrgð á svæðum og framleiðslu ökutækja.

Renault hefur smíðað Micra í verksmiðju sinni í Flins, nálægt París, síðan 2016. Þar til nýlega var Micra framleiddur á sömu línu og Renault Clio og Renault Zoe EV.

Clio hefur flutt sig yfir á nýrri CMF-B grunn samstarfsins og framleiðslan er nú eingöngu í Tyrklandi og Slóveníu; á þessu ári fékk hann tvinnútgáfu með E-Tech kúplingslausri tækni.

Micra var síðast endurhönnuð árið 2016

Framtíð Flins-svæðisins er óviss þó Renault hafi tilkynnt að framleiðslu ökutækja ljúki þar um 2024 vegna breytinga.

Renault þróar Micra fyrir Nissan

„Fyrir næstu kynslóð Micra munum við fylgja Renault og við munum biðja Renault um að þróa og smíða framtíðar Micra fyrir okkur,“ sagði Ashwani Gupta einn aðalstjórnenda Nissan við franska dagblaðið Le Monde í viðtali sem birt var á mánudag. „Hvar verður bíllinn framleiddur? Hver verður stefnan? Ákvörðunin er undir Renault komið."

Gupta, fyrrum yfirmaður deildar léttra atvinnubíla Renault-Nissan bandalagsins, bætti við að Renault myndi halda áfram að þróa og smíða Nissan sendibíla fyrir Evrópu.

Halda áfram framleiðslu í Sunderland á Englandi

Hann sló einnig á vangaveltur um að verksmiðja Nissan í Sunderland á Englandi væri í hættu eftir ákvörðunina um að loka verksmiðju japanska bílaframleiðandans í Barcelona.

„Miðað við 2,5 prósenta markaðshlutdeild okkar hefðum við ekki efni á þeim munaði að reka tvær verksmiðjur í Evrópu og þess vegna tókum við ákvörðun um að loka Barcelona,“ sagði Gupta við Le Monde. „Sunderland-svæðið í Bretlandi er önnur saga. Það er að skila best af öllum Nissan-stöðum. Það svæði á sérstakan stað í sögu okkar."

(frétt frá Reuters og Automotive News Europe)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is