Á síðum á borð við Amazon og eBay er hægt að kaupa aragrúa bílaaukahluta. Sumir þeirra eiga að létta bílstjórum lífið en geta í raun stytt þeim aldur, ef svo leiðinlega má komast að orði.

Hér eru nokkrir varhugaverðir aukahlutir:

Sætisbeltaplatari:

image

Skjáskot/Amazon

Það augljósa er einmitt það að á dótinu stendur að ekki skuli nota það. Segir það ekki allt sem segja þarf? Og þetta er selt á Amazon og blessað í bak og fyrir. Umsagnir viðskiptavina fara held ég í gegnum eitthvert nálarauga og í gegn fara þær greinilega.

image

Skjáskot/Amazon

Og svo er þetta fyrir neðan nú máski grín en hvað veit maður?

image

Vonandi er þetta kaldhæðni! Skjáskot/Amazon

Hríðskotabyssuskrautsteinastýrisskraut (nýyrði):

image

Skjáskot/YouTube

Hvað gerist þegar loftpúðinn í stýrinu blæs út? Hann blæs út við mikið högg og þá detta skrautsteinarnir ekki beint niður. Nei, meiri líkur eru á að þeir skjótist framan í bílstjórann. Ef bílstjóri er með svona skraut og sætisbeltaplatarann þá eru hverfandi líkur á að hann þurfi nokkurn tíma að hugsa um eitt eða neitt framar.

image

Þessu fylgja fjölmargar umsagnir og hér er ein þeirra: 

image

Mamman fær ofbirtu í augun í sólskini en það er í lagi því hún nýtur þess að láta skrautsteinana nudda hendurnar og er kannski bara með lokuð augun… Skjáskot/Amazon

Stýrisáklæði (sjá myndina efst):

image

Skjáskot/Amazon

Þessu fylgir oft áklæði fyrir handbremsu og gírstangarhnúðinn. Þetta stýrisloðfyrirbæri er alveg kjörið til að koma í veg fyrir að bílstjóri sjái til dæmis á hraðamælinn auk þess sem það er ágæt trygging fyrir því að gripið á stýrinu er ekkert. Stórhættulegt og fullkomlega gagnslaust (fyrir utan hvað þetta er hroðalega ljótt)!

image

Úff… Þessi umsögn er ekki sérlega traustvekjandi. Ég hugsa bara um manneskjuna í kvíðakasti, gramsandi í hárugu stýrinu og vona að hún sé búin að stöðva bílinn og leggja úti í kanti. Skjáskot/Amazon

Baksýnisspegilsskraut:

image

Skjáskot/Amazon

Maður er nú svo gott sem hættur að sjá bíla með risastóra loðna teninga, ilmspjald eða annað hangandi á baksýnisspegli bílsins. Þetta er nú kannski ekki beinlínis hættulegt en varla getur það talist gáfulegt að hindra útsýnið út um framrúðuna með einhverju forljótu skrauti. Eða flottu.

image

Skjáskot/Amazon

Tilgangurinn er alla vega ekki mjög augljós. Þeir sem myndu vilja benda á að það sé bráðsniðugt að hafa ilmspjald í bílnum þá mæli ég nú frekar með því að fólk þrífi skrjóðinn að innan í stað þess að vera með klósettþrifafnykinn í nösunum meðan á ökuferð stendur.

Farsímafesting fyrir stýri:

image

Skjáskot/Amazon

Það hlýtur að vera óþægilegt að hafa eitthvert drasl á stýrinu sjálfu, eða hvað? Hef ekki prófað svona sjálf og hef ekki mikinn áhuga á því ef ég á að segja eins og er. Auk þess er næsta víst að síminn lendir á gólfinu þegar mikið liggur við og maður er að stýra á fullu.

image

Skjáskot/Amazon

Sé rétt er að loftpúði sem blæs út geti gert það af slíku afli að jafna megi við allt að 400 km/klst þá er nú full ástæða til að takmarka það sem getur mögulega fylgt loftpúðanum og ratað beinustu leið í smettið á manni.

Kannski er það ekkert þannig að síminn þvælist með og gefi manni einn varanlegan og grjótharðan á lúðurinn – en til hvers að komast að því?

Þetta er alveg einstaklega neikvætt allt saman og nóg komið af svartagallsrausi! Eftir sem áður er nauðsynlegt að fjalla um þessi hrútleiðinlegu og grábölvuðu atriði inn á milli líka.

Sé einhver gleðineisti enn eftir hjá lesendum þá er það gott. Ef ekki þá gæti eitthvað af eftirfarandi bætt þar út og jafnvel vakið kátínu:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is