Á miðvikudagskvöldi í aprílmánuði árið 1946 var bíl stolið í Reykjavík. Bíllinn hafði reyndar verið  í viðgerð fyrr um daginn og var hann því í nokkuð góðu standi þegar 18 ára amerískur sjóliði gerði sér lítið fyrir, stal bílnum og ók honum fram af Loftsbryggju.

Amerískur sjóliði ekur stolnum bíl í sjóinn

image

Skjáskot úr Morgunblaðinu frá 25. apríl 1946. Engin ljósmynd fylgdi fréttinni.

„Síðastliðið miðvikudagskvöld var bifreiðinni R-2995, eign Þorgríms Jóhannssonar bifreiðarstjóra, Litlu bílastöðinni, stolið og ekið í sjóinn fram af Loftsbryggju. Var það amerískur sjóliði, 18 ára gamall af veðurathugunarskipinu Dearborn, sem stal bifreiðinni og setti hana í sjóinn.

Á meðan hann skrapp inn til sín í 2—3 mínútur var bifreiðinni stolið og sá hann henni ekið eftir Barónsstíg með miklum hraða.

Skömmu síðar tilkyntu tveir menn er staddir voru niður við höfn að bifreið hefði runnið í sjóinn og var fenginn kafari til að kafa til að athuga bifreiðina og vita hvort nokkur maður væri í bílnum. Ekki gat kafarinn sjeð það sökum myrkurs, en það kom í ljós er búið var að ná bifreiðinni upp, að hún var mannlaus og var þá kafari sendur niður aftur til þess að leita eftir líki þess, sem hefði verið í bifreiðinni.

Þannig fór um bíl- og sjóferð þá.

*Raunar má nefna í þessu sambandi að skipstjóri veðurathugunarskipsins Dearborn hefur að öllum líkindum verið kominn með nóg af óvæntum uppákomum á þessum tímapunkti. Fáeinum dögum áður en sjóliðinn óstýriláti stal bílnum var skipinu bjargað úr sjávarháska um 160 mílum suðvestur af Reykjanesi. Það hefur ekki verið auðvelt að halda sönsum á leku skipi með 140 manna áhöfn í trylltu veðri. Og svo þessi vitleysa sjóliðans ofan á allt annað!

Loftsbryggja gaf eftir

Í apríl 1958, 12 árum síðar, húrraði vörubíll fram af Loftsbryggju eða öllu heldur féll hann niður í gegnum bryggjuna þegar verið var að ferma hann af fiski úr Hilmi RE213. Fimm tonn af þorski voru komin á vörubílspallinn þegar bryggjan hreinlega gaf eftir en bíllinn sat fastur og fiskurinn fór aftur í sjóinn. Ekki alveg sú hringrás sem æskileg er en engu að síður var þetta nú raunin þann daginn.

image

Var þá tóg fest í bílinn og tilraun gerð til að draga hann upp. Vildi ekki betur til en svo að hásing brotnaði þá undan vörubílnum. Þá var komið það mikið flóð að sjórinn náði upp yfir afturhjól bílsins og upp að stuðara að framan, eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan sem birtist í Þjóðviljanum.

image

Morgunblaðið fjallaði líka um málið en ljóst þótti að bryggjan væri ónothæf og hnýttu sjómenn í hafnarnefnd og sögðu að hún mætti nú alveg endilega rumska og huga að bryggjunni.

Það liðu nú ein fimmtán ár til viðbótar þar til Loftsbryggja var endanlega úr leik en hér má lesa um örlög hennar.

Fleira íslenskt og bílatengt frá því ljósmyndirnar voru svarthvítar og ekkert sjónvarp á fimmtudögum:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is