Draumabíllinn að fjallabaki - Mercedes G63 AMG 6x6

536 hestafla Mercedes G63 AMG 6x6 væri góður kostur á grófum óbrúuðum hálendisslóðum, eða í það minnsta í huganum, eftir nýlega ferðum vegaslóða og óbrúaðar ár að fjallabaki og um Mælifellssand á dögunum. Við vorum á 35 tommu og vel búnum LandCruiser, en þá kom upp hugsunin hjá þeim sem þetta skrifar hver væri hugsanlega „óskabíllinn“ á svona ferðalagi.

Eftir smá umhugsun var svarið einfalt: Mercedes G63 AMG 6x6.

Allt frá því að við sáum þennan bíl fyrst á vefnum er hann í þeim flokki sem gæti talist „óskabíll“ að fjallabaki.

image

Það er mjög lítið sem réttlætir svona bíl á venjulegum vegum, en G63 6x6 er svo vel hannaður að það er ómögulegt annað en dást að honum. Hann er nánast óstöðvandi og hraður í grófu landslagi, auðveldur í akstri og er furðu vel búinn að innan. Bíll sem vekur óneitanlega athygli.

image

Með 536 hestöfl frá tveggja forþjöppu V8 AMG, næstum fjögur tonn að þyngd og hvorki meira né minna en afl á sex hjólum, er Mercedes G63 AMG 6x6 einn öflugasti fjallabíllinn í dag.

image

Upphaflega framleiddur fyrir herinn í Ástralíu

Hann var upphaflega framleiddur fyrir ástralska herinn árið 2008 og síðan tók AMG bílinn í endurgerð fyrir almenna markaðinn.

image

Þrátt fyrir að vera í grunninn herbíll er fjögurra sæta innréttingin í G63 eins mikill lúxus og Mercedes er með í sínum bílum. Það eina sem vantar er stigi til að klifra upp í stórt farþegarýmið, en bíllinn er upphækkaður og á 37 tommu dekkjum.

image

Þrátt fyrir mikla stærð bílsins dugar V8 vélin vel á torfæruslóðum. Mercedes segir að bíllinn komist úr 0-100 km/klst á innan við sex sekúndum.

Þeir sem hafa fjallað um þennan bíl á vefnum eru sammála um að það sem kemur á óvart sé hvernig þessi bíll keyrir - hann er virkilega lipur en samt þægilegur og það þarf verulega slæma slóða til að hamla akstrinum.

image

Niðurstaðan í huganum er að þetta gæti verið „draumabíllinn“ til að takast á við grófa slóða og djúpar óbrúaðar ár á hálendinu.

(vefur Mercedes Benz og fleiri vefsíður – Myndir Mercedes)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is