Bíltúr með Sigurði Inga Jóhannssyni

Virka akstursaðstoðarkerfi á götum Reykjavíkur og nágrennis?

Undanfarna mánuði höfum við hjá Bílabloggi verið að fjalla um rafbílavæðinguna frá hinum ýmsu hliðum. Við höfum verið í góðu samstarfi við Heklu, bílaumboð varðandi rafmagnaða upplifun sem gengur út á að lýsa því hvernig er að eiga og reka rafmagnsbíl dags daglega á Íslandi.

image

Við buðum Sigurði Inga, innviðaráðherra að prófa nýjan VW ID.4 sem notaður hefur verið hjá Bílabloggi til að fjalla um upplifun af því að nota rafmagnsbíl.

Nýjasta nálgun okkar tengd rafbílavæðingunni er hlutur stjórnvalda. Okkur langaði að skyggnast inn í framtíðarsýn stjórnvalda og fengum því Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra til að skjótast með okkur í bíltúr og sýna honum hvernig skynvæddur búnaður bílsins virkar á götum borgarinnar.

Markmið bíltúrs með ráðherra

Við spurðum Sigurð Inga meðal annars hver stefna stjórnvalda í þróun og uppbyggingu vegakerfisins væri háttað tengd nýrri tækni nútíma rafmagnsbíla. Sjálfvirkni ryður sér nú til rúms á miklum hraða í bílahönnun og hægt er að fá bíla sem geta þess vegna ekið sjálfir (að hluta).

Nákvæm tækni

Til að sjálfkeyrandi akstur gangi upp má ekki vera meira en 15 sm. frávik við hliðar bíls og staðsetningarkerfis og 50 sm. fyrir framan og aftan bílinn. Einnig, til að sjálfkeyrandi kerfi virki þarf mjög nákvæm stafræn kort í þrívíðu formi.

Að endingu kallar sjálfkeyrandi á mjög öflugt fjarskiptakerfi sem er með stöðugan uppitíma.

Er Vegagerðin búin að kynna sér þarfir bíla sem lesa umferðarskilti, veglínur eða sem hafa aðra skynjun á búnaði vegarins? Til að umferðaskiltalesarar virki þarf að merkja akvegi þannig að bíllinn „ruglist” ekki. Vegmerkingar spila stórt hlutverk í akstursaðstoð t.d. akreinastýringu og akreinaaðstoð.

Létum bílinn lesa umferðarskiltin

Við hittum Sigurð Inga fyrir skömmu og buðum honum í bíltúr og að ræða málin. Hér má sjá bíltúrinn sem er um 30 mínútur.

image

Mælaborð hins nýja og fullkomna ID.BUZZ. Sá bíll verður kynntur hjá Heklu í haust.

Bæta þarf tækni vega

Til að mynda ef ekið er vestur eftir Reykjanesbraut áleiðis til Keflavíkur verða á vegi okkar allnokkur mislæg gatnamót. Við stillum bílinn á 90 km/klst. og notum skynvæddan hraðastilli.

Hann heldur ávallt jöfnu bili milli bílsins fyrir framan upp að 90 km. hraða á klukkustund.

Tökum sem dæmi gatnamótin eru við Hvassahraun.

image

Eins og staðan er í dag á bíll með hefðbundin akstursaðstoðarkerfi ekki gott með að skynja mislæg gatnamót - allavega ekki á Reykjanesbrautinni. Mynd: Efla, verkfræðistofa.

Getur skapað hættu

Þar hægir bíllinn skyndilega á sér vegna hraðamerkinga á aðrein, en þar er leyfður hámarkshraði við bestu aðstæður 50 km/klst. Þetta er miðað við að við stillum skynvædda hraðastillinn þannig að hann lesi umferðaskilti og stilli hraðann eftir því sem skiltið sýnir

Bíllinn skynjar ekki að hringtorgið er á „fyrstu hæð“ (undir veginum).

Það skapar því stórhættu að nota þennan búnað til dæmis á Reykjanesbrautinni vegna ofangreindra þátta.

image

Nettengdum ökutækjum fjölgar hratt.

Fjölbreytt  nálgun

Við höfum reynt að fjalla um málefnið varðandi upplifun á notkun rafmagnsbíls á fjölbreyttan máta og skoðað sem flesta snertifleti. Hér má til dæmis sjá grein um hleðslulausnir.

Myndband og klipping: Dagur Jóhannsson.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is