ZZ Top: Tónleikaferðalag og trylltur vísundur

Það er eitt að ferðast mörg þúsund kílómetra í tónleikarútu en svo er það allt annað að ferðast mörg þúsund kílómetra í tónleikarútu með hluta af dýragarði með í för. Það gerði hljómsveitin ZZ Top árið 1976.

image

ZZ Top árið 1976. Þeir voru búnir að raka sig.

Það er góðra gjalda vert að leggja mikið upp úr því að tónleikaferðalög verði sem eftirminnilegust. ZZ Top á eflaust einhvers konar met þar því hljómsveitin fór í tónleikaferðalag árið 1976 og hafði með sér eitt og annað sem þeim þótti einkenna Texas sérstaklega.

image

Hugmynd hljómsveitarmeðlima var að „fara með Texas“ út um öll Bandaríkin og þó svo að tónleikaferðalagið væri innan Bandaríkjanna þá kallaðist það samt „Worldwide Tour“. Tónleikarnir voru um 100 talsins og tók ferðalagið 18 mánuði.

image

Flóran og fánan

Ýmiss konar plöntur sem vaxa í Texas voru með í för og hafðar uppi á sviði. Má þar nefna kaktusa, eyðmerkurliljur og pálmaliljur (yucca). Og svo voru það stærri lífverurnar sem einnig voru með í för: Tamdir vísundar (buffalo), stórhyrnd texasnaut, beltisdýr, pekkarísvín, skröltormar og hrægammar.

image

Dýrin höfðu öll verið þjálfuð og tamin til að vera uppi á sviði meðan á tónleikum stóð. Furðulegt uppátæki en jú, þetta gerðu þeir í ZZ Top.

image
image

Myndir/Ralph Fisher/Facebook

Um 50 manns voru með í för til að sjá um dýrin og þar á meðal voru dýralæknar og sérlegur dýrahirðir að nafni Ralph Fisher sem einnig var líffræðingur.

image

Skjáskot af Facebooksíðu Fishers frá 2014. Hlekkur á færsluna er neðst í greininni.

image

Bílarnir undir allt sem fylgdi voru fjölmargir og hér eru myndir úr safni Fishers.

image

Vísundur fer á flakk

Þetta gat auðvitað ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Ekki alveg. En ótrúlega vel gekk það nú samt.

image

Eftir tónleika í Pittsburgh í Pennsylvaníu, þann 12. júní 1976, voru mörg dýranna laus, af einhverjum ástæðum og gerðu nokkurn usla. Einkum var það annar vísundurinn sem gerði usla og skemmdi bæði sviðið og tónleikastaðinn frekar illa.

image

Billy Gibbons, einn hljómsveitarmeðlima, lýsti þessu svona:

image

Annars staðar rifjaði hann sama atvik upp og sagði að hann myndi seint gleyma þeirri sjón þegar dýraþjálfarinn elti trylltan vísundinn á golfbíl en eðli máls samkvæmt bar sá eltingarleikur takmarkaðan árangur.

image

Úr safni Fisher.

Þetta var ekki einsdæmi. Vísundurinn varð stjörnuvitlaus þann 28. nóvember sama ár og slapp frá þeim sem áttu að annast hann. Litlu munaði að tryllti vísundurinn eyðilegði nokkrar af þeim níu limmósínum sem hljómsveitin var með á leigu. Bílunum hafði verið lagt við tónleikastaðinn og mátti minnstu muna að þeir færu allir á einu bretti í köku þegar stór skepnan tók á sprett.

image

Eitt og annað skemmdist en ekki hefur það verið tíundað og myndir af þessu æðiskasti skepnunnar hef ég hvergi séð.

image

Sagan segir að skröltormur hafi bitið tónleikagest upp við sviðið en ZZ Top hafi bara haldið áfram að spila eins og ekkert væri. Jú, svo mun víst hafa verið dálítið „vesen“ þegar kólna tók í veðri og skröltormarnir sannfærðir um að komið væri að því að leggjast í vetrardvala…

Þetta var stutt útgáfa af 18 mánaða tónleikaferðalagi ZZ Top og dýranna frá maí 1976 til desember 1977. Hafi einhver lesandi verið á tónleikum með þeim (af þessum 98 tónleikum sem haldnir voru) þá væri gaman að fá sögu!

image

Myndir:

Frá CBS:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is