Bandarískt veggjakrot

Það er óþarfi að kynna fyrir bílaunnendum þessa frægu kvikmynd frá árinu 1973, en American Graffiti, eins og hún heitir á frummálinu, gerist á einu sumarkvöldi árið 1962 í smáborg í Kaliforníu, á þeim tíma þegar velsæld Bandaríkjamanna var mikil og bílarnir stórir, kraftmiklir og eyðslufrekir.

Hávaðinn í djúkboxinu, djúpa útvarpsröddin í Wolfman Jack, ásamt atferli og orðaforða unglinganna, gerir sitt til að byggju upp sannfærandi stemningu. Í raun má líta á kvikmyndina sem sögulega heimild frá þessum tíma.

image

Sagan segir frá fjórum unglingspiltum sem safnast saman að kvöldi við Diner og halda síðan á vit næturinnar. Þeir hafa lokið menntaskólagöngu og framtíð þeirra er sannarlega óljós, því enginn hefur hugmynd um hvernig hann ætlar að haga lífu sínu. Hins vegar getur margt gerst á einni nóttu og þegar sólin tekur að rísa á nýjum degi hafa sumir gert upp hug sinn. Þetta einfalda sögusvið birtir Lucas okkur í tveggja tíma kvikmynd.

Heyrst hefur að þessar fjórar aðal sögupersónur kvikmyndarinnar séu allar byggðar á æskuárum sjálfs leikstjórans.

image

Steve, sem leikinn er af hinum þekkta leikstjóra Ron Howard, lendir í útistöðum við unnustu sína Laurine, sem kvelur hann og pínir eftir bestu getu, af því hún vill ekki missa hann frá sér. Hann ætlar í háskóla í annarri borg og hún skynjar aðeins tómið sem hann skilur eftir sig í lífi hennar. Steve á hvítan ‘58 Chevrolet Bel Air sem hann lánar Terry á meðan hann ætlar í háskólann.

Laurine ekur hins vegar um á grænum ‘58 Edsel, sem er sennilega táknrænt.

image
image

Terry býðst í fyrsta sinn einstakt tækifæri til þess að sýnast maður með mönnum og aka um á almennilegum bíl, í stað þessa að væflast um á gamalli vespu. Hann ekur um á Lettanum hans Steve í von um að finna drauma prinsessuna. Það gengur upp því hann finnur Debbie og þau halda á vit ævintýranna, sem reyndar endar hálf asnalega.

image
image

Curt eyðir mestum hluta kvöldsins og næturinnar í að leita uppi gyðju, eða opinberun, því hann er alls ekki viss hvort hún sé raunveruleg, stúlkan sem birtist honum á T-fugli (hvítum ‘56 Ford Thunderbird).

Sjálfur á hann hins vegar ´67 Citroën bragga sem hann nennir ekki einu sinni að aka nema þá þegar nauðsyn krefur.

image
image

John Milner ekur um stoltur sem konungur götunnar. Hann er vissulega konungur kappaksturshetjanna; ósigrandi í malbikskrumpi eða réttara sagt; ósigraður. Bíllinn sem hann ekur er sennilega þekktasti Hot Rod kvikmyndasögunnar, en það er gulur ‘32 Ford Coupe með V8 sleggju undir húddinu. Hann slysast hins vegar til taka litla stelpu með sér á rúntinn og þarf að dúsa með henni allt kvöldið, eins og hálfgerð barnapía.

image
image

Bob Falfa er einn af þeim sem eltir Milner uppi til að mana í kappakstur. Hann er leikinn af engum öðrum en Harrison Ford, sem hér var að stíga sín fyrstu skref á hvíta tjaldinu.

Bíllinn sem hann rúntar á er vel tjúnaður svartur tveggja dyra ‘55 Chevrolet Bel Air.

image

image
image

The Pharaohs er gengi sem samanstendur af vandræðagemlingum götunnar, en þeir aka um á vínrauðum ‘51 Mercury Sport Coupe með lækkuðum toppi. Hlutverk þeirra er einkum að leita uppi  fórnarlömb til að kvelja eða að plata út í einhverja vitleysu, eins og þegar þeir fá Curt til að hengja keðju aftan í Ford-lögreglubíl með þeim afleiðingum að hásingin fer undan honum í heilu lagi.

image
image

Á vefnum Internet Movie Car Database (imcdb.org) hafa nokkrir duglegir kvikmynda- og bílaáhugamenn tekið saman lista yfir alla þá bíla sem birtst hafa á hvíta tjaldinu.

Þar er skemmtilegt að skoða hvaða bílar hafa farið framhjá manni í allri bílasúpunni í American Graffiti, sjá hér.

Myndin var sýnd hér á landi í Laugarásbíói við miklar vinsældir árið 1975, enda margir Íslendingar með bensín í blóðinu. Vilhjálmur Ástráðsson, dyravörður í bíóinu, átti bláan ‘55 Ford Fairlane á þessum árum og lagði honum daglega á hólinn fyrir framan miðasöluna til að hita áhorfendur vel upp fyrir og eftir sýningar. Sagt var að lögreglan hafi átt í stökustu vandræðum með að hemla hraðaþyrsta ökumenn í borginni eftir að þeir höfðu horft á myndina.

image

Lögin í myndinni eru flest frábær og lýsa tíðarandanum vel, en þegar leikstjórinn sat yfir handritinu hlustaði hann á tónlist frá sjötta áratugnum. Segja má að hann hafi skrifað mörg atriðin út frá lögunum.

Wolfman Jack hefur stóru hlutverki að gegna við að kynda undir tíðarandann og leikur sjálfan sig í myndinni af mikilli innlifun.

Segja má að tveggja platna albúmið með lögum úr kvikmyndinni hafi verið álíka vinsælt og kvikmyndin sjálf, en það seldist í þremur milljónum eintaka.

image

Gert var sjálfstætt framhald af þessari vinsælu kvikmynd sem hét einfaldlega More American Graffiti, en hún þykir ekki eins góð og sú fyrri, eins og á nú reyndar við um flestar framhaldsmyndir. Sú mynd gerist á árunum 1964 til 1967, þegar unglingarnir eru orðnir stálpaðari og byrjaðir að feta sig inn í hippatímabilið.

Það vill svo skemmtilega til að íslenska leikkonan og fegurðadrottningin Anna Björnsdóttir lék lítið hlutverk í myndinni og talar þar m.a. íslensku reiprennandi, eitthvað sem enginn skyldi nema íslenskir áhorfendur.

Reyndar má fullyrða að margar kvikmyndir hafi verið framleiddar í svipuðum dúr og American Graffiti, meðal annars Cooley High og Dazed and Confused, sem skartar þekktum leikurum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is