„Jeg var altaf með hausinn uppi í bílþakinu“ -– Ferðasaga frá 1929

Brot úr stórskemmtilegri ferðasögu Englendings nokkurs birtist í Morgunblaðinu fyrir rétt rúmum 95 árum síðan. Það gekk á ýmsu og hér er sagan eða sá útdráttur sem birtur var í blaðinu þann 13. október árið 1929.

image

„Englendingur, sem hjer var í sumar, R. Herring að nafni, hefir skrifað í enskt blað grein um bílferð til Þingvalla, og birtist hjer útdráttur úr henni.“

image

Mynd frá svipuðum tíma en tengist þó sögunni ekki beint. Myndir úr safni.

En svo fór að rigna og vegurinn versnaði stöðugt. Hann var ósljettur, grýttur og holóttur. Bílstjórinn reyndi að krækja fram hjá holunum, en svo sprakk einn hjólhringurinn. Í hálfa klukkustund var bílstjórinn að gera við hann, og kom aftur rennvotur upp í bílinn. Þetta var miðja vegu milli Þingvalla og Reykjavíkur.

Einu sinni þegar hann opnaði hurðina, fór annar bíll framhjá og hann reif hurðina af bílnum okkar, en það breytti engu öðru en því, að nú gat bílstjórinn altaf litið út án þess að þurfa að opna hurðina.

Á öðrum stað riðum við niður mann á bílunga. Hann vildi ekki víkja, svo að við ókum bara á hann — hispurslaust, hægt en ákveðið. En þá höfðum við setið í bílnum í sex stundir og vorum svo aðsettir, að við höfðum engan áhuga fyrir þessu og urðum ekki einu sinni hissa.

Einn glugginn á bílnum brotnaði af hristingnum. Jeg var altaf með hausinn uppi í bílþakinu og var sem jeg kæmi varla við bílinn annars staðar og einu sinni, er jeg rak mig hastarlega uppundir, hljóðaði jeg, en bílstjórinn sagði: „Þetta fer í vana hjer á Íslandi.“

Ekki var betra á heimleiðinni, því að þá var ekið ofan í móti og bílstjórinn hraðaði ferðum, vegna þess, að hann var orðinn of seinn. Á einum stað hljóp fjárhundur fyrir bílinn og við ókum yfir hann. Mjer varð litið aftur og sá að bíllinn hafði farið yfir hundinn, en hann stökk á fætur og sá ekki að neitt gengi að honum. Hundurinn var líka íslenskur.

Fleiri ferðasögur úr fortíðinni:

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is