image

Saga jeppans í fimmtíu ár - annar hluti:

1946-1950:

Yfir til siðmenningar og í eigu almennings

Þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk hélt Willys-Overland fast í kjörorð framleiðslunnar á stríðsárunum, „sólin sest aldrei á jeppa, smíðaðan hjá Willys", með því að gera bílinn nothæfan á friðartímum.

Þótt einhver áhöld séu um það hvort hönnun og nafn Jeep hafi í upphafi verið alfarið frá Willys-Overland runnin er það óumdeilanlegt að þangað má rekja áhrifin sem slík ökutæki hafa í dag á iðnaðinn, landbúnaðinn og almenna notendur.

„Jeppi framtíðarinnar er í sífelldri þróun og mun verða þróaður áfram svo lengi sem not eru fyrir hann. Jeppinn er síbreytilegt fjölnota farartæki. Þróun hans er frábrugðin þróun annarra flutningatækja á þann veg að hún nær ekki bara yfir flutningatæknina“.

Framleiðsla á jeppanum fyrir almennan markað var hafin nokkru áður en endanlegur sigur vannst í Þýskalandi og Japan. Þegar á árinu 1944 var farið að huga að þróun jeppans fyrir landbúnaðarnot. Á því ári framleiddi Willys-Overland 22 tilraunabíla undir nafninu CJ-IA, eða „Civilian Jeep“, byggða á grunni herjeppans.

image

Áður en stríðinu lauk var hafin framleiðsla á „landbúnaðarjeppanum“ svokallaða. Þessi bíll bar heitið CJ-2A og kom á markað í ágúst 1945.

Þessar frumgerðir leiddu til fjöldaframleiðslu á fyrsta jeppanum til almennra nota, CJ2A, sem kynntur var í fyrsta sinn í ágúst 1945 og kostaði þá 1.090 dollara. CJ2A var að mestu leyti byggður á herjeppanum MB en bauð upp á ýmsar breytingar. Nú var til dæmis kominn á bílinn opnanlegur afturhleri, rúðuþurrkur og bensínlokið komið utan á bílinn í stað þess að vera undir bílstjórasætinu.

image

Deilur um nafn

Þessir bílar áttu að fá nafnið Jeep stansað í afturhlerann, gluggarammann og vélarlokið. En á þessum tíma átti Willys-Overland enn í deilum við American Bantam Car Co. og Minneapolis Moline Power Implement Co. um hver ætti Jeep-nafnið.

Því var það að þegar fyrstu bílarnir fóru á færibandið í Toledo var Willys-nafnið stansað á þá. Jafnvel þótt Willys-Overland ynni fljótlega sigur og þar með rétt á Jeep var haldið áfram að framleiða jeppana undir nafni Willys langt fram yfir 1950.

Ekki var fyrri framleiðsla Willys-Overland frá því fyrir stríðið lögð á hilluna með tilkomu jeppans þótt greinilega hefði hann sín áhrif á það sem á eftir kom. Á árinu 1946 kynnti Willys-Overland fyrsta stationbílinn að öllu leyti byggðan úr stáli. Fram að því höfðu station-yfirbyggingar að hluta til verið gerðar úr tré.

image

Þessir bílar - Jeep All Steel Wagon, eða „steisjónjeppinn" eins og hann kallaðist- voru algengir hér á árum áður og enn má sjá einn og einn, þó mikið breyttan frá upphaflegri gerð, í umferð. Þegar þessi bíll kom á markað á sínum tíma, 11. Júlí 1946, var þetta bylting í gerð stationbíla því fram að seinni heimsstyrjöldinni voru yfirbyggingar slíkra bíla að miklu leyti úr tré.

image

Þessir nýju stationbílar, sem voru aðeins afturhjóladrifnir, höfðu pláss fyrir allt að sjö farþega og hámarkshraðinn var 107 km/klst.

Þegar fjórhjóladrifi og sex strokka vél var bætt við árið 1949 má með sanni segja að Jeep All-Steel Station Wagon hafi orðið fyrirrennari Jeep Cherokee eins og við þekkjum hann í dag.

image

Á árinu 1947 kom þessi pallútgáfa af „stærri" jeppanum á markað og þessi bíll er í raun fyrirrennari stóru jeppanna eins og við þekkjum þá í dag.

Ýmsar aðrar breytingar litu dagsins ljós hjá Willys-Overland á þessum árum. 1947 var bætt við eins og tveggja drifa pallbílum og ári seinna kom tveggja dyra Jeepster til sögunnar.

image

Margir muna eftir Jeepster sem var algengur hér á landi á árunum í kringum 1970. Hitt vita kannski færri að þessi sportlega gerð kom á markað á árinu 1948 og var framleidd fram yfir 1950.

Upp úr 1950 kom Jeep á markað með nýju grilli með þverstæðum röndum, tveim nýjum vélum og tveim nýjum pallbílum, einum ½ tonns og öðrum fjórhjóladrifnum sem bar eitt tonn. V-laga grillið varð sérkenni þessara bíla.

Vélin í þessum nýju pickup-bílum var ný háþrýst „Hurricane"vél sem var aflmest og sparneytnust þeirra véla sem voru þá á markaði og notuðu það bensín sem algengast var.

Hurricane-vélin var þróuð undir yfirstjórn Delmar Roos, föður fyrsta herjeppans, og þessi vél, sem gaf 72 hestöfl, varð að staðalvél í allri framleiðslu bíla frá Willys-Overland á þessum árum. Hin vélin, sem kynnt var á árinu 1950, var „Lightning", ný sex strokka vél sem boðin var sem viðbót bæði í Jeepster og eins drifs Willys Station Wagon. Lightning var bæði með meira rúmtak, meiri þjöppun og meira afl (75 hö. við 4.000 sn. á mín.).

image

Barney Roos – aðalhönnuður Willys-jeppans og hönnuður Hurrycane-vélarinnar sem þótti virka vel í jeppunum.

image

Saga jeppans í fimmtíu ár - þriðji og síðasti hluti:

Nýir eigendur, ný nöfn og nýjar línur

Nafnið Willys-Overland hafði verið vel þekkt um allan heim í nær hálfa öld en á árinu 1953 fékk það nýjan eiganda, nýtt nafn og nýja stjórnendur. Fyrir, að því að talið er, 60 milljónir dollara keypti Henry J. Kaiser allar eignir Willys-Overland, jafnt verksmiðjur og bíla, sem viðbót við fólksbílaframleiðslu Kaiser. Nýja nafnið varð Willys Motor Co. og stjómendur komu hvaðanæva úr heiminum. Samt sem áður lét Kaiser Willys eiga sig hvað varðaði áframhaldandi þróun jeppans.

image

Jeep CJ3A – 1949-1953.

Í beinu framhaldi af þessu gerðust góðir hlutir: Á árinu 1954 var nýr jeppi, CJ5, kynntur og hann féll svo vel í kramið að hann hélst nánast óbreyttur allt fram til ársins 1983. Minni háttar breytingar urðu á þessum tíma á drifrás og innréttingum.

Þótt CJ5 væri um margt líkur upphaflega jeppanum CJ2A var hann þó með mun mýkri línur.

image

Herjeppinn M38A1 sem kom á markað 1951.

CJ5 var byggður að mestu á herjeppanum M38A1 sem kom á markað 1951 og þjónaði hernum vel, fyrst í Kóreu og síðar í Víetnam, þar til hann var leystur af hólmi af nýjum herjeppa, M151, á árinu 1983.

Kaiser hélt áfram þróun fjölnotabíla frá Willys og eins fólksbíla. Þar á meðal má nefna frambyggðan jeppa, FC-150, sem byggður var á 205 sentímetra grind CJ5, og FC-170 sem byggður var á grind stærri pallbíla Willys. Þessir bílar komu á markað á árinu 1956 og voru framleiddir allt fram á árið 1964. Margir muna eftir þessum frambyggðu jeppum vegna þess að þeir voru alveg flatir að framan sem var nýlunda á þessum árum.

image

CJ-5 var kynntur til sögunnar 11. október 1954.

image

CJ-6 – 1955-1981 – var fyrst og fremst hugsaður sem „fólksbíll“.

image

Jeep FC „Forward Control“ var framleiddur frá 1957 til 1965.

Með nokkrum sanni má segja að þessir frambyggðu jeppar hafi verið fyrirrennarar frambyggðra bíla á borð við L-300 frá Mitsubishi, svo ekki sé talað um allan þann aragrúa „van-bíla" sem ruddust inn á markaðinn fyrir um 30 árum eða svo.

Áfram hélt Kaiser þróun jeppans og sem dæmi um það hve mikla áherslu hann lagði á þá þróun má nefna aukningu í sölu á erlendum mörkuðum. Á 16 ára tímabili kom Kaiser á fót framleiðslu í meira en 30 löndum og Jeep var seldur í fleiri en 150 löndum um allan heim.

image

1960-1970: Sportlega hliðin

Árin upp úr 1960 eru án efa það tímabil sem hafði mest áhrif á frekari þróun jeppans því þá má segja að sportlega hliðin á notum jeppans hafi orðið til.

image

Wagoner árgerð 1962.

image

Gladiator árgerð 1962.

Það var í raun þegar árið 1955 sem Kaiser setti stefnuna á víðtækara notagildi jeppanna. Þetta varð að raunveruleika árið 1962 þegar alveg ný lína, svokölluð „J-lína", birtist í nýjum Wagoneer stationbílum og Jeep Gladiator pallbílum.

Þessir bílar voru í raun endurhönnun 14 ára gamalla stationbíla og pallbila sem komu á markað eftir stríðið.

Þessir bílar lögðu grunninn að framtíð Jeep á sportmarkaðnum og voru í raun fyrstu bílarnir sem voru hannaðir frá grunni með þessi not í huga. Allir aðrir bílar, sem voru byggðir á svipuðum grunni, höfðu hernaðarlegan bakgrunn.

Það að setja saman fjórhjóladrif og sjáifskiptingu var nokkuð sem bílaiðnaðurinn hafði ekki séð áður.

Til viðbótar má nefna að vélin í Wagoneer, Jeep Tornado OHC, var fyrsta bandaríska bílvélin sem nýtti sér yfirliggjandi knastás.

Willys hverfur

Sex mánuðum eftir að J-bílarnir komu á markað hvarf nafnið Willys af bílunum. Í mars 1963 tilkynnti einn af stjórnendum Willys Motors, Inc, S.A. Girard, að hér eftir yrði nafn verksmiðjanna Kaiser Jeep Corporation til þess að gefa betur til kynna að það væri hluti af Kaiser-samsteypunni og eins til að sameina betur Jeep-nafnið og aðra framleiðslu hennar um allan heim.

image

J-sería Gladiator 1965-1971.

Samhliða því að venjulegi jeppinn fékk V-6 vél haustið 1965 var vélaraflið einnig aukið í Wagoneer og Gladiator. Í þessa bíla varð nú fáanleg ný V-8 vél sem kölluð var „Vigilante".

Þessi vél var 327 kúbiktommur að rúmtaki og gaf 250 hestöfl. Bæði V-8 vélin og eins V-6 vélin voru fáanlegar með svokallaðri Turbo Hydra-Matic sjálfskiptingu.

image

„Super-Custom“ Wagoneer 1965.

Allir fjórhjóladrifnu bílarnir voru nú einnig með nýjum tveggja hraða millikassa með „einfaldri" skiptingu.

Þótt þessir millikassar byðu ekki upp á það að skipta á milli drifa á ferð, eins og nú er hægt, var hægt að skipta yfir í fjórhjóladrif með einfaldri handarhreyfingu í stað þess að hreyfa margar stangir eins og eldri skiptingar yfir í fjórhjóladrif þörfnuðust.

1970-1980

Enn nýir eigendur og meiri aukning

Þegar Bandaríkin horfðu nú fram á nýjan áratug var greinilegt að það lá fyrir Jeep að vaxa en það kom ekki í hlut Kaiser Industries að fylgja þeirri aukningu eftir. 5. febrúar 1970 keypti American Motors-samsteypan Kaiser Jeep Corporation fyrir 10 milljónir dollara í reiðufé, 9,5 milljónir í skuldabréfum og 5,5 milljónirí hlutabréfum, alls 70 milljónir dollara.

Þegar AMC keypti fyrirtækið nam framleiðslan á Jeep-bílum 175 bílum á dag, bæði fyrir almennan markaö og herinn. Við lok þess áratugar var framleiðslan komin upp í 660 á dag.

image

M-175 herbíllinn sem var framleiddur frá 1967-1969.

image

Póstbíllinn Jeep DJ sem var framleiddur frá 1970 til 1984.

Ein af fyrstu breytingum AMC var að skilja að framleiðslu fyrir almennan markað og hernaðarframleiðslu með því að stofna á árinu 1971 tvær undirdeildir: Jeep Corporation fyrir framleiðslu á bílum fyrir almennan markað í Toledo og AM General Corporation fyrir framleiðslu á herbílum, fólksflutningavögnum og póstbílum í fyrrum verksmiðjum Studebaker í South Bend í Indiana, en bandaríski pósturinn notaði sérbúna Willys-jeppa í póstdreifingu um árabil um öll Bandaríkin.

Þetta reyndist hárrétt ákvörðun því skömmu eftir aðskilnaðinn varð „sprenging" á bandaríska fjórhjóladrifsmarkaðnum.

Eitt af því fyrsta sem nýja fyrirtækið, Jeep Corporation, bauð upp á var 1971 árgerð af Renegade II, endurbætt gerð af CJ5 með mörgum nýjungum sem gerði CJ5 að einstökum fjórhjóladrifsbíl sem skapaði sér fljótt sérstööu í óbyggðakappakstri og ýmiss konar þolakstri.

Þá kom einnig á sama ári sérsmíðuð gerð af Hurst/Jeepster með sérstökum gírkassa frá Hurst.

Nú voru allir bílar Jeep komnir með vélar frá AMC og einnig voru bæði CJ5 og CJ6 búnir sterkari öxlum, öflugri hemlum og meiri sporvídd, ásamt því að miðstöðvar í bílunum voru mun öflugri en áður.

Slagorð AMC fyrir jeppana var á þessum tíma: „Ef bíll frá Jeep getur ekki komið þér þangað sem þú ætlar þá ættir þú að hugsa þig tvisvar um að fara".

image

CJ-5 Renegade var framleiddur í þesari mynd árin 1972 til 1983.

Enn urðu nokkrar breytingar á framleiðslu Jeep. Val varð um tvær enn stærri V-8 vélar í Wagoneer og nýr Renegade kom fram í dagsljósið 1973, nú með aflmeiri vél.

Quadra-Trac

Það var á árinu 1973 sem Jeep kynnti nýjung sem átti eftir að valda byltingu í heimi fjórhjóladrifsins. Þessi nýjung var „Quadra-Trac" sem með einstakri driflæsingu varð fyrsta sídrifstengingin á fjórhjóladrifi.

image

Jeep J 20 og J30 pallbílarnir voru smíðaðir á árunum 1974 til 1987.

Strax á næsta ári þar á eftir „fæddust" tvö ný nöfn hjá Jeep: Cherokee og Cherokee Chief. Þótt Cherokee væri svipaður lúxusbílnum Wagoneer urðu þessar tvær gerðir grunnurinn að þeim bílum sem þykja hvað best heppnaðir í framleiðslu Jeep. Þá fékk Jeep Renegade fastan sess í framleiðslulínu Jeep.

Þegar Bandaríkin héldu upp á 200 ára afmæli sitt 1976 setti Jeep á markað nýjan jeppa, CJ7. í fyrsta skipti bauð Jeep upp á lausan formsteyptan plasttopp og heilar hurðir úr stáli.

Bæði CJ7, sem var með 237,5 cm á milli öxla, og eldri gerðin, CJ5, voru framleiddir fram á árið 1983 en þá var eftirspurnin eftir CJ7 orðin slík að leggja varð framleiðslu á CJ5 á hilluna.

image

Wagoneer Limited – 1978-79 þótti með allra mestu lúxusjeppum á sínum tíma.

Þegar Jeep kynnti síðan toppbílinn í Wagoneer-línunni, Wagoneer Limited, var bætt við nýjum og áður óþekktum þægindum í fjórhjóladrifnum bíl. Meðal þess sem boðið var upp á í þessum lúxusbíl var leðuráklæði á sætum, loftkæling og sambyggt stereóútvarpstæki og CB-talstöð.

image

Cherokee XJ sló algerlega í gegn þegar hann kom á markað, þótti sameina á fullkominn hátt alla kosti fólksbíls og jeppa.

1980-1990: Velgengni Cherokee XJ

Þegar bandaríski bílaiðnaðurinn staulaðist inn í nýjan áratug mitt í miklum samdrætti voru þeir hjá Jeep á fullri ferð við að teikna og prófa nýjan sportlegan jeppa sem, þegar fram liðu stundir, átti eftir að verða sá bíll sem mestri velgengni átti að fagna og að færa mestar tekjur i bú. Þetta var ný lína sem þeir hjá Jeep kölluðu XJ.

XJ-jepparnir, einkum Cherokee, urðu svo vinsælir nánast á einni nóttu að þeir náðu því að vera valdir „4x4 of the Year“, eða fjórhjóladrifsbílar ársins, samtímis af þremur tímaritum sem fjalla um torfærubíla.

image

CJ-7 kveður

Hætt var að framleiða CJ5, beinan arftaka gamla herjeppans, árið 1984 til þess að beina framleiðslunni að CJ7 og eins Scrambler, litlum fjórhjóladrifnum pallbíl sem á alþjóðamarkaði gekk undir nafninu CJ8.

En það var skammt stórra högga á milli. Á árinu 1986 var hætt að framleiða CJ7. Margir sögðu að nú væri tími hinna raunverulegu „jeppa“ liðinn. Markaðurinn var farinn að kalla eftir meiri þægindum í bílum á borð við gamla, góða jeppann.

Svar Jeep við þessu var að setja Wrangler á markaðinn í stað CJ7.

image

Jeep TJ-Wrangler.

image

Jeep Wrangler Rubicon 2003.

Að mörgu leyti hélt Wrangler útlitinu frá CJ-jeppunum en tæknilega séð átti hann mun meira sameiginlegt með XJ-jeppunum, Cherokee og Wagoneer. Það sem Wrangler var ætlað að gera var að bæta aksturseiginleika, þægindi og útlit um leið og honum var ætlað að varðveita styrkleikann og einstaka torfærueiginleika CJ7. Hvort þetta tókst að öllu leyti eru menn ekki sammála um en tíminn einn leiðir hið sanna í ljós.

Enn einu sinni skipt um eigendur

Innan eins árs eftir að Wrangler kom á markað skipti fyrirtækið enn einu sinni um eigendur. Chrysler Corporation keypti 5. ágúst 1987 American Motors. Þeir hjá Chrysler drógu enga dul á það að þeirra mati væri Jeep helsta hnossið í þessum kaupum.

Chrysler breytti engu um framleiðslu Jeep og voru þeir framleiddir undir nafni Jeep hluta af Jeep/Eagle Division hjá Chrysler Corporation.

Fyrr á árum voru CJ-jeppar sigursælir í ýmiss konar aksturskeppni en eftir nokkurra ára hlé tóku bílar frá Jeep aftur fullan þátt í aksturskeppni á árinu 1987. í byrjun tóku sex jeppar þátt í þremur mismunandi keppnisflokkum og urðu strax sigursælir. Á árunum 1988 og 1989 unnu bílar Jeep enn fjóra sæta sigra í keppni framleiðenda.

1991 eftir fimmtíu ár: Hvað var fram undan?

Eftir fimmtíu ára sögu Jeep var ekki furða að menn stöldruðu við - hvað er fram undan?

Með 1990 árgerðunum var staða Jeep sú sterkasta frá upphafi.

22. mars 1990 kom milljónasti XJ-jeppinn, rauður Cherokee Limited, af færibandinu í Toledo. Á þeim sjö árum, sem liðin voru frá því að Jeep Cherokee kom á markað, hafði sá bíll ekki aðeins náð því að verða leiðandi bíll á sínu sviði heldur einnig söluhæsti bíll Chrysler í Evrópu.

1991 árgerð Jeep Renegade var þá toppurinn á Wrangler-línu Jeep. Sá bíll var með 180 hestafla I-6 vél sem var örugglega sú kraftmesta í þessum flokki bíla á þessum tíma.

Þegar menn stöldruðu við eftir fimmtíu ára söguna koma það ekki á óvart að horft yrði fram á veginn, næstu fimmtíu árin, myndu nýjungar halda nafni Jeep á lofti í heimi harðnandi samkeppni.

image

Jeep Grand Cherokee ZJ árgerð 1993

Í janúar, 1992, kom nýr sportlegur jeppi, sem þeir kölluðu ZJ, fram á sjónarsviðið úr nýjum verksmiðjum Chrysler Corporation, Jefferson North Assembly Plant í Detroit.

Umhverfisvernd í fyrirrúmi

Þegar hér var komið sögu á tímum aukinnar náttúruverndar, höfðu margir horn í síðu bíla á borð við jeppana. En þeir hjá Jeep lögðu sín lóð á vogarskálarnar til að stuðla að aukinni umhverfisvernd. Fyrir mörgum áratugum eða um 1950, var í verksmiðjum Jeep sett í gang umhverfisverndunaráætlun og samkvæmt henni voru meira en 500 starfsmenn verksmiðjanna verðlaunaðir fyrir tillögur í átt að betri nýtingu hráefna og notkun efna sem væru ekki umhverfisspillandi. Í dag köllum við þetta endurvinnslu.

„Við hvetjum alla eigendur fjórhjóladrifinna bíla til að nota þetta ökutæki í anda þeirra laga og reglugerða sem gilda um akstur um landið og sýna landinu tilhlýðilega virðingu“.

Jafnframt var eintak af bæklingi, sem innihélt „reglur jeppaeigenda varðandi umhverfisumgengni", sett í hanskahólfið á hverjum jeppa og á öllum sölustöðum Jeep voru stór plaköt sem hvöttu til góðrar umgengni um landið. Þá varð Jeep þátttakandi í miklu átaki á vegum bandarísku skógræktarstofnunarinnar sem nefndist „TREAD LIGHTLY!", átaki sem gekk út á það að ganga varlega um landið.

Þetta allt hefur verið gert með það í huga að þrátt fyrir að hluti af því að eiga jeppa sé að komast þangað sem mann langar sé það gert með því hugarfari að misbjóða aldrei landinu okkar.

Staðan í dag – 80 árum síðar

Hér með látum við staðar numið í bili um þróun Jeep frá upphafinu 1941. Enn eru nýjar gerðir að bætast í hópinn og enn er verið að þróa nýjar útgáfur af hinum eina og sanna jeppa. Það hefur einnig átt sér breyting á eignarhaldi sem hefur haft áhrif á þróunina hin síðustu árin:

Og svona í lokin:

Samkvæmt því sem best er vitað nú fékk „Jeep" nafn sitt eftir persónu í teiknimyndasögunni um Stjána bláa sem í upprunalegu útgáfunni heitir Eugene the Jeep, eða Jeppi í íslensku þýðingunni. Eugene the Jeep var lítið, sérkennilegt dýr sem gat flutt sig fram og aftur á milli vídda og leyst alls kyns vandamál.

image
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is