Saga jeppans í áttatíu ár-1. hluti:

Herjeppinn verður til

image

Fáir bílar hafa sennilega breytt eins miklu fyrir eins marga og hinn eini sanni „Jeppi“ þegar hann kom fram á sjónarsviðið í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar.

Hér á Íslandi voru menn fljótir að sjá notagildi þessa knáa fjórhjóladrifna bíls og þeir voru margir, herjepparnir, sem öðluðust „nýtt líf“ hér á landi að stríðinu loknu.

Tákn frelsis

Þegar jeppinn varð fimmtíu ára árið 1991 heiðruðu margir þennan sérstæða bíl með ýmsum hætti. Á meðal þeirra var Lee A. Iacocca, þáverandi stjórnarformaður Chrysler Corporation, en Jeep hafði þá verið í eigu þess fyrirtækis í rúm þrjú ár. Á þessum tímamótum sendi hann frá sér eftirfarandi ávarp:

Þetta voru skilaboð Lees A. Iacocca, stjórnarformanns Chrysler, á þessum merku tímamótum þegar 50 ár voru liðin frá upphafinu, en lítum nánar á upphafið.

1940-1946:

Herjeppinn verður til

Þegar á árinu 1938, þegar ófriðarblikur voru á lofti í Evrópu, lét bandaríski herinn þau boð út ganga að hann vantaði nýtt ökutæki til að leysa af hólmi mótorhjólin með hliðarkassanum, sem fram að því höfðu verið notuð til könnunarferða og til að bera skilaboð á milli staða hjá hernum.

Fyrstur til að svara þessu kalli var C.H. Payne hjá American Bantam Car Co. í Butler í Pennsylvaniu.

Hvert þessara ökutækja var um 1.275 pund að þyngd og eftir nokkrar tilraunir hjá hernum var þeim hafnað þar eð þau myndu ekki koma honum að gagni.

Á sama tíma og herinn var að reyna bílana frá Bantam var Ward M. Canaday, stjórnarformaður Willys-Overland, í viðræðum við aðra aðila hjá hernum um „.mosquito", hugmynd þeirra hjá Willys-Overland um ökutæki sem gæti hentað hernum í fyrrgreindu augnamiði. Eftir nokkrar viðræður, þar sem talsmenn hersins sýndu áhuga, var haldið áfram og Canaday fékk Delmar „Barney" Roos, aðstoðarforstjóra tæknideildar Willys-Overland, málið til frekari vinnslu. Fyrstu teikningarnar að þessum nýja bíl voru afhentar yfirmanni áætlunardeildar bandaríska herráðsins 22. desember 1939.

Það var úr þessum teikningum sem upphaflegi jeppinn frá Willys-Overland varð til. Þessi létti, fjölhæfi bíll þótti lipur í akstri og til margvíslegra nota, þar á meðal til flutnings á vopnum. Þessi „vopnaflutningsþáttur" var nokkuð sem Bantam hafði sleppt í sínum hugmyndum fyrr á árinu 1939.

Í febrúar 1940 fékk Barney Roos bréf frá A.W. Herrington, yfirforingja í hernum, um „Howie Belly-flopper", lítinn fjórhjólabíl sem var þannig hannaður að ökumaðurinn varð að liggja á maganum til að aka honum, en það var gert til að bíllinn yrði minna áberandi í akstri. Nokkru síðar, eða 15. mars 1940, skoðuðu þeir Roos og J.W. Frazier, stjórnarformaður Willys-Overland, þennan bíl í Camp Benning-herstöðinni í Georgíu. Þetta var fyrsta tákn þess að bandaríski herinn væri að leita að vopnaflutningatæki jafnframt ökutæki til skoðunarferða. Þá varð þeim félögum ljóst að þetta var nákvæmlega það sama og Barney Roos hafði verið að vinna að frá haustinu 1939.

Í framhaldi af því ræddu Frazier og Roos við Walter C. Short hershöfðingja um þá undirbúningsvinnu sem Willys-Overland hafði lagt í alveg nýja gerð hernaðarökutækis.

Slagur um smíðina

Enn harðnaði samkeppnin um smíðina fyrir herinn. 20. júní 1940 fóru menn frá hernum til verksmiðju Bantam í Butler til að skoða aðra útgáfu Bantam af könnunarbíl fyrir herinn. Þessum bíl var einnig hafnað af því að hann var of léttur og nú var Bantam í þeirri stöðu að hafa verið hafnað tvisvar.

En nú jók herinn pressuna á framleiðendur með því að senda, þann 11. júlí 1940, útboð til 135 framleiðenda þar sem farið var fram á afgreiðslu á 70 ökutækjum. Ökutækið, sem herinn var að leita að, átti að vera 590 kíló að þyngd, geta borið 385 kíló og vélin átti að hafa togkraftinn 85 pund/fet. Bil á milli öxla mátti ekki vera meira en 203 sentímetrar og sporvíddin 119 cm. Útboðið gekk út á að afhenda tilraunabíl eftir 49 daga og bílana 70 innan 75 daga.

Willys-Overland var með lægsta tilboðið. Hins vegar var Bantam eina fyrirtækið sem sagðist geta afhent tilraunabíl eftir 49 daga og alla bílana á 75 dögum. Willys sagðist geta afhent tilraunabíl eftir 75 daga og allt magnið eftir 120 daga. Úrslitin urðu að Bantam fékk verkið.

Barney Roos hjá Willys hafði kannski tapað stríðinu um útboðið en samt hafði hann ekki lagt hugsanir sínar um bíl fyrir herinn á hilluna. Roos hafði einnig bætt því við, þegar Willys skilaði inn tilboði sínu, að það væri ekki hægt að smíða „raunverulegt ökutæki" með þau þyngdarmörk (590 kíló) sem herinn setti upp.

Þegar Roos útskýrði hvers vegna ekki væri hægt að skila bílum á þeim tíma, sem útboðið gengi út á fyrir H.J. Lawes, majór í innkaupadeild hersins, þá lagði Lawes til að Willys-Overland smíðaði tilraunabíl á eigin vegum og sendi hernum til prufu.

Sama var uppi á teningnum gagnvart Ford Motor Co. sem einnig hafði tapað orrustunni um útboðið. Það var greinilegt að ríkisstjórnin hafði áhuga á því að fá fram sem flestar tillögur að ökutæki sem þessu því hvort sem menn ræddu um stríð á milli útboðsaðila þá var raunverulegt stríð í fullum gangi í Evrópu.

Fyrstu tilraunabílarnir

Það var síðan 23. september 1940 sem vinnuhópur frá Bantam, undir stjórn aðalhönnuðar þeirra, Karls Probst, afhenti tilraunabíl til reynsluaksturs. Þennan tilraunabíl kölluðu þeir „Blitz Buggy" og hann var sendur til Camp Holabird til reynsluaksturs.

image

Þetta er eitt af örfáum eintökum af fyrstu Bantam-jeppunum. Þetta er bíll sem var sá 7. í röðinni í framleiðslunni af 62 eintökum og er í dag á National Musem of American History.

Meðal þeirra sem voru viðstaddir þennan fyrsta reynsluakstur Blitz Buggy frá Bantam voru Roos og Gene Rice frá tæknideild Willys-Overland.

image

Þessi mynd er frá því að Blitz Buggi frá Bantam var prófaður í fyrsta sinn.

Rice var forviða yfir þeirri lipurð, krafti og litlu fyrirferð sem Bantam-bíllinn bjó yfir. Hann sneri aftur til Toledo til að koma nýjum hugmyndum, byggðum á því sem hann sá, til samstarfsmanna sinna í tæknideildinni. Vinnuhópurinn hafði þegar hafið vinnu við frumgerð bíls frá Willys-Overland og það sem hann sá í Camp Holabird hafði sett nýjar hugmyndir í gang.

image

Fyrstu frumdrög Willys-Overland að herjeppanum sem seinna varð birtust fyrst í Quad-jeppanum.

Quad-bíllinn vakti mikla athygl hjá hernum en mikla reiði hjá Bantam. Hjá Willys-Overland var ásökun Bantam um að tæknimenn Willys hefðu stolið hugmyndum Bantams sögð fáránleg. Til að gæta réttlætis gagnvart Bobst, hönnuði „Blitz Buggy", voru frumgerðir Willys samt sem áður mjög líkar frumgerðunum frá Bantam. Það hve bílarnir voru líkir var heldur engin tilviljun því bæði höfðu tæknimenn frá Willys og Ford verið viðstaddir tilraunirnar á Bantam-bílnum í Holabird og haft nægan tíma til að skoða bílinn vel.

Staðreyndin var einnig sú að herinn hafði látið bæði Ford og Willys fá afrit af teikningum Bantam til að flýta framleiðslu hjá þeim.

Frumgerðirnar frá Bantam, Willys og Ford voru nokkuð mismunandi. Þótt Bantam-bíllinn, sem var 920 kíló, væri langt yfir þyngdarmörkum hersins, sem voru 590 kíló, var hann samt mun léttari en 1.088 kílóa bíll Willys. Hins vegar var styrkleiki Willys-bílsins sá eini sem uppfyllti kröfur hersins. Í reynd var 105 punda togafl Willys vel fyrir ofan kröfur hersins og skyggði vel á 83 punda togafl vélar Bantam og 85 punda afl Ford.

„Go Devil“-vélin hjá Willys var bæði með meira rúmtak og fleiri hestöfl. Bæði vélin og eins 65 af hundraði hlutanna til smíðinnar höfðu komið frá „Americar"-bíl Willys en sá bíll hafði verið í akstri um árabil. Á móti kom að bílar bæði Bantam og Ford voru nýsmíði frá grunni og verulega frábrugðnir þeim bílum sem verksmiðjurnar höfðu framleitt fram að þessu.

Nú þegar herinn var kominn með frumgerðir frá þremur framleiðendum voru pantaðir 4.500 bílar, 1.500 frá hverjum, til að reyna við raunverulegar aðstæður. Þessi pöntun staðfesti að fyrri þyngdarmörk voru óraunhæf. Fyrri athugasemdir Barney Roos voru þar með staðfestar.

Ef Quad-bílinn frá Willys átti að eiga möguleika varð hann að fara í „megrun".

„Vandamálið, sem við mér blasti," sagði Barney Roos, „var að endurhanna frumgerðina til að mæta þyngdarmörkunum og halda okkar vél í bílnum eða fara út á markaðinn og kaupa vél eins og Bantam hafði gert og breyta bílnum í samræmi við það. Við vissum hins vegar eftir reynsluaksturinn í Holabird að vélaraflið og krafturinn var meðal þess sem hernum líkaði best við bílinn."

Hver einasti bolti og skrúfa var metinn, hver styrkleikinn þyrfti að vera og hvort hægt væri að nota léttari efni í staðinn. Boltar, sem voru lengri en þörf var á, voru styttir, efni var minnkað hér og þar og þegar lokið var við að setja bílinn saman var hann 198 grömmum undir þyngdarmörkum.

Jeppinn verður til

Byrjað var að afgreiða fyrstu bílana af 4.500 bíla pöntun hersins í júní 1941. Þegar herinn hafði skoðað fyrstu bílana var ákveðið af hans hálfu að staðla framleiðsluna á grunni einnar gerðar. Þegar gerðirnar þrjár voru bornar saman varð úr að bíll Willys-Overland var valinn sem grunnur en bætt var við nokkrum atriðum úr bílum Bantam og Ford sem þóttu skara fram úr.

image

Þessi mynd er frá fyrstu „alvöru“ prófununum á jeppanum frá Willys-Overland þann 29. mars 1941.

Í júlí 1941 undirbauð Willys bæði Bantam og Ford í útboði um smíði á 16.000 bílum fyrir herinn og skyldi smíða 125 bíla á dag. Lítil framleiðslugeta Bantam var fyrirtækinu þröskuldur. Seinna á árinu 1941 þrýsti birgðadeild hersins á að Willys-Overland léti Ford í té teikningar að bílnum svo að Ford gæti smíðað 15.000 bíla fyrir herinn líka.

image

Willys MB í sinni endalegu gerð sem MB-herjeppinn sem var framleiddur frá 1941 til 1945.

Hvaðan kom nafnið?

Þegar Willys-Overland byrjaði framleiðslu á bílnum var hann fyrst kallaður MA og síðar MB en fljótlega festist nafnið „Jeep" við bílinn og varð tamt í munni allra sem um hann fjölluðu.

En á sama hátt og menn voru ekki sammála um hver hefði lagt mest til málanna við upphaflega hönnun bílsins voru menn heldur ekki sammála hvaðan nafnið á bílnum væri runnið.

Margir halda því fram að það sé runnið frá skammstöfuninni G.P. á General Purpose, sem í framburði hljómar líkt og „jeep", en þetta nafn setti herinn á framhjóladrifinn könnunarbíl sem hann notaði. Aðrir innan hersins bentu á að „G.P."-nafnið hefði verið notað á sérbyggða bíla fyrir olíuboranir í Oklahoma þegar á árinu 1934.

Önnur skýring er til á nafninu og þykir öllu sennilegri. Á miðju ári 1940 vann liðþjálfi að nafni James T. O'Brian við reynsluakstur á 4 eða 6 hjóla ökutæki frá Minneapolis-Moline Power Implement Co. Hann er sagður hafa kallað þetta ökutæki „Jeep" eftir persónu í teiknimyndasögunni um Stjána bláa sem í upprunalegu útgáfunni heitir Eugene the Jeep, eða Jeppi í íslensku þýðingunni. Eugene the Jeep var lítið, sérkennilegt dýr sem gat flutt sig fram og aftur á milli vídda og leyst alls kyns vandamál.

Einn tilraunaökumanna Willys-Overland, sem ók fyrsta tilraunabílnum til Camp Holabird, rifjaði upp tilurð nafnsins: „Eitthvert nafn varð bíllinn að fá. Ég var óhemju stoltur yfir bílnum sem við höfðum þróað og vildi ekki að honum væri ruglað saman við „Blitz Buggy" frá Bantam eða „GP" frá Ford svo ég tók upp nafnið sem hermennirnir í Camp Holabird höfðu notað á bílinn."

Þótt Red þessi hafi ekki fundið upp nafnið „Jeep" á bílnum á hann samt sinn þátt í því að nafnið komst á prent. Hann var að sýna ýmsum fyrirmönnum í Washington bílinn og meðal áhorfenda var Katherine Hillyer, blaðamaður Washington Daily News. Meðan á reynsluakstrinum stóð kallaði hann bílinn „Jeep". Grein Hillyer kom í blaðinu 20. febrúar 1941 og þar stóð í myndatexta: „Jeep Creeps up Capitol Steps" eða Jeep klifrar upp þinghúströppurnar.

image

Myndin sem festi „Jeep-nafnið“ á nýja herbílnum birtist í Washington Daily News þann 20. Febrúar 1941 og þar stóð í myndatexta: „Jeep Creeps up Capitol Steps" eða Jeep klifrar upp þinghúströppurnar.

Það er hins vegar óumdeilanlegt að jeppinn lagði sín lóð á vogarskálarnar í heimsstyrjöldinni síðari.

Bandaríski hershöfðinginn George C. Marshall sagði um jeppann: „Mesta framlag Bandaríkjanna til nútíma hernaðar."

Fjölhæft notagildi

Jeppinn var notaður á öllum vígstöðvum í heimsstyrjöldinni síðari. Hann var notaður til sjúkraflutninga, sem vélbyssubíll, könnunarfarartæki, til flutnings á vörum, fólki og skotfærum og einnig til lagningar á símavírum.

image

Jepparnir voru útbúnir með loftvarnabyssum, notaðir sem sjúkrabílar og til margra annarra hluta og notagildi þeirra var nánast óendanlegt á meðan á styrjöldinni stóð.

Í Saharaeyðimörkinni, í fenjum Nýju-Gíneu og á snjóbreiðum Íslands vann jeppinn sitt verk með prýði. í Egyptalandi notuðu breskar hersveitir jeppasveitir til að ráðast á og eyða flota eldsneytistankbíla sem voru á leið til hersveita Rommels í upphafi orrustunnar um El Alamein. Í orrustunni um Guadalcanal tóku sérsveitir sjóhersins, U.S. Marines, jeppana með sér í slaginn.

Nafnið Jeep varð svo mikið séreinkenni að 13. júní 1950 skráði Willys-Overland það sem vörumerki, bæði innan Bandaríkjanna og á alþjóðamarkaði. í dag er Jeep skrásett vörumerki innan Chrysler-samsteypunnar, sem er síðan hluti af alþjóðlega fyrirtækinu Fiat Chrysler Automobiles eða FCA.

image

1940 WILLYS QUAD

Í júní 1940, með síðari heimsstyrjöldina við sjóndeildarhringinn, óskaði bandaríski herinn eftir tilboðum frá 135 bifreiðaframleiðendum í 1/4 tonna „léttar könnunarbifreiðar“ sniðnar að forskriftum hersins. Aðeins þrjú fyrirtæki svöruðu - Bantam, Willys og Ford - en innan árs voru þeir framleiddir saman í sniðmáti fyrir bifreiðina sem þekkt er um allan heim sem „jeppinn“.

image

1941 WILLYS MA

Willys MA var með gírskiptingu á stýrissúlunni, lága hliðaropnun, tvo hringlaga mæla á mælaborðinu og handbremsu vinstra megin. Willys átti í erfiðleikum með að draga úr þyngdinni í nýju forskrift hersins, 2.160 pund. Rær og boltar voru styttir ásamt léttari plötum í yfirbyggingu til að framleiða léttari útgáfu af Quad. Atriði sem fjarlægð voru til að MA næði því marki sem var sett, komu aftur í bílinn í næstu kynslóð MB sem leiddi til lokaþyngdar um það bil 400 pundum yfir forskriftinni..

Endurbætur á Willys MA frá Quad voru: handbremsa, heilar felgur, rúnnuð hurðarop, tvær hringlaga mælasamstæður á mælaborðinu og gírskipting á stýrissúlu.

image

1941-1945 WILLYS MB

Þessi gerð varð að goðsögninni; bandaríski herinn óskaði eftir ökutæki - og fékk ofurbíl. Willys MB, andi hans sem er smíðaður af eldi í bardaga og slípaður í hita orustu, náði að feta leið sína inn í hjörtu hermanna sem berjast fyrir frelsi.

Sterk tilfinningabönd þróuðust oft milli hermanns og „jeppans“ hans, 4x4. Hinn tryggi MB vann sér sess í hjarta hvers GI, á öllum sviðum bardaga, í öllum hugsanlegum hlutverkum. Hinn sterki, einfaldi Jeep® 4x4 varð besti vinur hermannsins – næst á eftir rifflinum. Einum MB-jeppa var meira að segja veitt Purple Heart heiðursmerkið og hann sendur heim.

George C. Marshall hershöfðingi, yfirmaður herráðs Bandaríkjahers í síðari heimsstyrjöldinni, og síðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti Jeep® 4x4 sem „mesta framlagi Ameríku til nútíma hernaðar“. Ernie Pyle, fréttaritari Scripps Howard í seinni heimsstyrjöldinni, sagði einu sinni: „Hann gerði allt. Hann komst alls staðar. Var trúr eins og hundur, eins sterkur eins og múldýr og eins lipur og geit. Hann flutti ávallt tvöfalt það sem hann var hannaður fyrir og hélt samt áfram að komast.“

image

MB bar með sér byltingu í notkun á litlum vélknúnum ökutækjum í bandaríska hernum. Hestar ásamt mótorhjólum, jafnt ein og með hliðarvagni voru úreltir nánast samstundis. Allur tilgangur MB var ótrúlega fjölhæfur. Þeir gátu verið með .30 eða .50 vélbyssur í bardaga. Þeim var einnig breytt víða fyrir langdrægar eftirlitsferðir um eyðimerkur, snjóruðninga, lagningu símalagna, til að saga tré, sem slökkvibílar, til sjúkraflutninga á vígvelli, sem dráttarvélar og jafnvel með viðeigandi útbúnaði til að keyra á járnbrautarteinunum.

image

Þrátt fyrir að Willys MB hafi ekki verið fyrsta fjórhjóladrifið farartæki, þá náði jeppinn að hafa áhrif á alla 4x4 sem smíðaðir voru í kjölfar þess. Nútímalistasafnið í New York er með einn herjeppa á sýningu sinni af samtals átta bílum og þar er litið á hann sem „ósvikna tjáningu á list véla“.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is