Háleitar voru þær, hugmyndir manns um fyrsta bílinn. Svo eignaðist ég nú bara Fiat Uno 60 ´87 árgerð en það var ágæt byrjun. Byrja á einhverju mjög lélegu. En af þeim bílum sem mig langaði að eignast sem 17 ára gemlingur þá hef ég nú eignast nokkra þeirra eftir að ég varð stór.

Ég ætlaði að setja saman nettan lista yfir bílana sem mig langaði að eignast árið sem ég fékk bílprófið, 1998. Svo var þetta orðin skrá, ekki listi, og það gengur auðvitað ekki. Ekki svona á sunnudagsmorgni.

Ég henti nokkrum út og eftir stendur tíu bíla listi. Athugið að ekki fann ég alltaf myndir af nákvæmlega réttum árgerðum þannig að í öllum bænum haldið ró ykkar þó að myndin af Subaru Impreza sé af 2000 árgerðinni en ekki 1998. Það verður bara að hafa það.

Tíu bílar sem mig langaði ógurlega í þegar ég fékk bílprófið 1998

Dodge Ram 1500

image

Þegar önnur kynslóð af Dodge Ram pallbílnum kom á markað 1994 hafði ég fátt fegurra séð. Safnaði blaðagreinum og myndum af þessum bíl; bílnum sem fékk hjarta mitt til að slá örar.

Svona var hann; gat ekki hugsað sér að þykjast eitt eða neitt og hvers vegna að prófa bíl sem maður hafði ekki efni á? Enda tók það mig nokkrar vikur að fá hann til að samþykkja að fara og skoða bílinn og „kannski að prófa ef sölumaðurinn byði upp á það“.

image

Auglýsing frá árinu 1996

Sölumaðurinn var indæll. Pabbi náttúrulega varð að segja honum sannleikann þegar hann bauð okkur að „taka smá rúnt“ á bílnum: „En ég ætla ekki að kaupa bílinn. Á ég þá nokkuð að prófa hann?“ Sölumaðurinn hló bara og rétti okkur lyklana. Ó hvað þetta var gaman! Bíltúrinn var svakalega stuttur, Einar heitinn Oddgeirsson var ekki maður sem sóaði annarra manna bensíni. En við skemmtum okkur konunglega!

Það liðu allmörg ár þar til ég eignaðist Dodge Ram. En ég eignaðist minn eigin Ram og það var nú mál málanna. Átti hann í nokkur ár og það var algjör snilld!

Daf

image

Aldrei prófaði ég nú Daf en heillaðist af honum þegar ég var á flakki um Kaplahraunið í Hafnarfirðinum. Þangað fór ég stundum 14 ára gömul á reiðhjóli og tók myndir af bílum. Ég fann því miður ekki ljósmyndina sem ég tók árið 1995 af Daf en hins vegar fann ég auglýsingu frá 1964:

image
image

Auglýsing frá 1964

Renault 5 GT Turbo

image

Ég hef skrifað söguna af okkur Renault 5 GT Turbo en þann bíl langaði mig að eignast frá því ég sá hann fyrst nokkurra ára gömul. Bílinn eignaðist ég um ári eftir að ég fékk bílprófið. Söguna má lesa hér en neðst í greininni er líka hlekkur.

Volvo Amazon ´66

image

Mynd/Volvo

Amma átti Volvo Amazon, árgerð 1966. Það var sko glæsilegur bíll. Þau afi og amma keyptu hann nýjan og var sá bíll alla tíð hreinni en nýþvegið handklæði.

image

Mynd/Volvo

Maður átti að ganga um bílinn eins og um húsakynni drottningar en það var afi sem setti reglurnar. Ekki amma.

Einu sinni skutlaði afi mér á Amazoninum í tónlistarskólann og ég var eitthvað að flýta mér, þakkaði fyrir farið og rauk út. Afi lá á flautunni þar til ég kom aftur og opnaði bíldyrnar. Þá sagði afi: „Þetta er bíll, ekki fjós. Lokaðu nú aftur og ekki skella eins og þú sért í fjósi.“

Unimog 1945-1962

image

Myndir/Wikipedia

Það eru sko bílar sem komast allt. Hægt og rólega éta þeir sig í gegnum nánast hvað sem er. Hef ekið slíkum bílum en á vonandi eftir að eignast gott eintak einhvern daginn. Kannski daginn sem ég eignast bensínstöð…

image

VW Super Beetle ´72

image

Skjáskot/YouTube

Ég man ekkert af hverju ég vildi eignast Super Beetle en ekki bara einhverja VW bjöllu. Eflaust  var einhver ástæða fyrir því en ég get ómögulega munað hver hún var.

Þegar ég reyndi að rifja það upp rakst ég á þetta myndband og leyfi því að fylgja:

Subaru Impreza WRX

image

Jú, mikið rétt – árgerð 2000 en ekki hin rétta. Myndir/Unsplash

Subaru Impreza WRX bræddi hjarta mitt þegar ég sá bílinn fyrst.  Mér skilst að bíllinn hafi brætt ýmislegt fleira en hjörtu á þessum árum. Til dæmis ökuskírteini, veski, greiðslukort og dekk.

En þetta var einn af fyrstu bílunum sem ég fór og prófaði á bílasölu þegar ég var komin með bílpróf.

image

Sama á við um þessa mynd. Bíllinn er af árgerð 2000. Í myndböndunum hér fyrir neðan er hárrétt árgerð. Mynd/Unsplash

Ég eignaðist Imprezu WRX ekki fyrr en löngu seinna, eða árið 2014. Því miður var það ljótu-ljósa-gerðin, þ.e. bíllinn sem kom og fór af markaði snögglega; árgerð 2002. Þessi með kringlóttu framljósin.

Ljótur var hann „í framan“ en ferlega skemmtilegur. Ljótur og fljótur!

Peugeot 205, 1,9  GTI

image

Það var eitthvað rosalega heillandi við þennan bíl. Prófaði einn þegar ég var 17 ára en svo eignaðist ég Renaultinn og hætti þá að hugsa um þennan.

Volvo Laplander

image

Það var eitthvað ævintýralegt við Volvo Laplander. Mig langaði að ferðast um landið á svona bíl. Svo varð ég eitthvað skeptísk þegar maður nokkur sagði mér að Volvo Laplander gengi undir nafninu „Hvolfó“ því menn væru alltaf að velta þeim.

Annars er til býsna góð bók eftir Huldar Breiðfjörð, Góðir Íslendingar, sem fjallar einmitt um ferðalag að vetrarlagi á slíkri bifreið. Verulega skemmtileg bók sem kom einmitt út árið sem ég fékk bílpróf eða það minnir mig.

image

Auglýsing frá 1966

BMW 2002 tii

image

Mynd/BMW

Ég var alltaf spennt fyrir „nasabílnum“ eins og ég kallaði hann. Þessa gerð, sem framleidd var frá 1968-1976, hef ég aldrei prófað og læt mér nægja minn að verða þrítuga „nasabíl“ en saman höfum við margan kílómetrann ekið síðastliðin átján ár.

image

Mynd/BMW

image

Úr Vikunni 1972

Annað þessu tengt: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is