Hinn 86 ára gamli Jose Mujica var forseti Úrúgvæ frá 2010-2015. Munið þið eftir honum? Hann var af mörgum kallaður „nægjusamasti þjóðarleiðtogi í heimi“ en af öðrum „fátækasti forsetinn“. Forsetabíllinn var VW bjalla frá 1987. Forsetinn „þurfti“ ekki annan bíl.

image

Í mínum huga var hann (þ.e. sem forseti) allra síst fátækur. Hann kærði sig ekki um ríkidæmi en honum stóð að til boða. Mujica afþakkaði það einfaldlega og var fyrir vikið einstök fyrirmynd sem naut virðingar fólksins sem hann „vann fyrir“ (Úrúgvæjum) og fólks víðsvegar um heiminn.

Jose Mujica fæddist í Montevídeó árið 1935. Foreldrar hans voru bændur en faðir Mujica varð gjaldþrota og lést skömmu síðar, eða árið 1940. Móðir hans varð því ekkja þegar Mujica var  fimm ára gamall en mæðginin þraukuðu þótt lífið væri óttalegt bras.

Sem ungur maður gekk hann til liðs við sveitir skæruliða og til að gera langa sögu stutta þá var hann í fangelsi í 14 ár þar sem hann var pyntaður og smáður. Með fullri virðingu fyrir þeim hörmungum ætla ég nú samt að skauta yfir það því við ætlum að fjalla um bílamál forsetans.

image

Nokkrir í samfloti en engin skotheld Skepna

Í fyrradag birtist hér á vefnum umfjöllun um bílalest forseta Bandaríkjanna. Þar er farið yfir eitt og annað sem Skepnunni tengist, þ.e. forsetabílnum sem jafnan er kallaður Skepnan eða The Beast. Skepnan sú vegur það sama og Tyrannosaurus Rex (9 tonn), ef risaeðlan væri til í öllu sínu veldi, og kostar 1.500.000 Bandaríkjadala.

image

Þetta hefði Mujica aldrei kært sig um. Hann var nefnilega með bíl sem virkaði bara fínt. Forsetabíll, BMW sjöa, stjóð honum til boða en forsetinn afþakkaði því hann vildi nú bara nota sinn eigin bíl. Það gerði hann og bíllinn var fyrrnefnd VW Bjalla ´87.

image

Þessi fölbláa bjalla vakti strax athygli því á henni mætti hann til innsetningarathafnarinnar sjálfrar, já og hann ók sjálfur. Kærði sig nú ekki um einkabílstjóra.

Afþakkaði fíneríið og notaði 10% launanna

Það var margt fleira alveg sérstakt við þennan forseta. Til dæmis bjó hann ekki í forsetabústaðnum í höfuðborginni heldur bjuggu þau hjónin á litlum sveitabæ (og búa kannski enn) í útjaðri Montevídeó og þar hafa þau ræktað blóm sem þau selja.

Forsetalaunin sagði Mujica að væru langt umfram það sem þau hjónin þyrftu og þess vegna gaf hann 90% þeirra til ýmissa góðgerðamála.

image

Milljón dollara boð í bjölluna

Skömmu áður en Mujica lét af embætti árið 2015 bauð arabískur sjeik honum eina milljón dollara fyrir bjölluna. En það vildi forsetinn ekki sjá: „Nei við myndum aldrei selja bílinn. Það væri lélegt gagnvart þeim vinum sem lögðu í púkk og keyptu bíllinn handa okkur,“ sagði forsetinn í útvarpsviðtali.

image

Hann bætti því líka við að þau þyrftu á bílnum að halda til að koma Manúelu, þrífætta hundinum þeirra hjóna, á milli staða.

Og hér er stutt en innihaldsríkt viðtal við Jose Mujica: 

Meira um bíla og forseta:  

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is