Sá sem þetta skrifar var að vafra á vefnum og skoða nokkra gamla bíla. Þá kom upp mynd sem kveikti samstundis gamlar minningar. Þetta var hinn sérstæði Tatra T87 frá árunum rétt fyrir 1950.

Ég man að mér héldu engin bönd, ég þaut á fætur og hljóp niður og spurði ömmu hvort ég mætti fara út og skoða bílinn.

Á þeim tíma bjó Björn Ólafsson, fyrrum ráðherra og þá eigandi Coca Cola á Íslandi, í næsta húsi við hús afa míns og ömmu í Reykjavík. Björn þessi var greinilega áhugamaður um bíla og á þessum árum, upp úr 1950, stóð all nýstárlegur bíll, af gerðinni Tatra í innkeyrslunni við Hringbrautina í Reykjavík; svartur að lit og með hálfgerðan „hákarlsugga“ að aftan, fyrir ofan stór loftinntök fyrir vélina sem var að aftan í bílnum, sem var með engan afturglugga.

image

En hvaða bíll var Tatra T87 og hvernig var hann?

Tatra 87 (T87) var smíðaður af tékkóslóvakíska framleiðandanum Tatra. Hann var knúinn af 2,9 lítra loftkældri 90 gráðu loftkældri V8 vél að aftan sem skilaði 85 hestöflum og var hægt að aka bílnum á næstum 160 km/klst. Hann var í hópi hraðskreiðustu bíla sem voru framleiddir á þeim tíma þegar hann kom fram.

Samkeppnisbílar í þessum flokki notuðu hins vegar vélar með næstum tvöfalt slagrými og eldsneytiseyðslu upp á 20 lítra á 100 km. En vegna lítils loftviðnáms eyddi Tatra 87 aðeins 12,5 lítrum á 100 km.

Eftir stríðið á milli 1950 og 1953 voru T87 vélarnar búnar nútímalegri 2,5 lítra V8 T603 vélum.

image

Hér er horft niður á loftkældu V8-vélina í T87. Hluti af sérstæða „hávaðanum“ sem kom frá vélinni kom frá „loftdælunni“ sem er hér fremst ofan á vélinni.

image

Hér sést vel hvernig „vélarhúsið“ þekur allan afturenda bílsins og því var enginn raunverulegur „afturgluggi“ til staðar, en það var hægt að sjá smávegis í gegnum loftrásirnar.

Einstök hönnun

Tatra 87 var með einstaka yfirbyggingu. Straumlínulögun hans var hönnuð af Hans Ledwinka og Erich Übelacker og byggði á Tatra 77, fyrsta bílnum sem hannaður var í raun með loftaflfræði í huga.

image

Mælaborð í Art deco stíl í T87 árgerð 1947

Litlar rúður voru í skilrúminu á milli farþegarýmisins, farangursrýmis og vélarhússins, og þess vegna var aðeins hægt að sjá út að aftan í gegnum loftristina sem veitti loftkældu vélinni loft, að vísu mjög takmarkað útsýni að aftan. Hægt var að opna allan afturhluta bílsins til að þjónusta vélina. Framhurðirnar voru „afturhengdar“, þannig að þær opnuðust út að framan, stundum kallaðar „sjálfsvígshurðir“, en afturhurðirnar voru með lamir að framan.

image

Hér má sjá teikningu af Tatra 87 fólksbíl, sem sýnir auðþekkjanlegan „hákarlsugga“ að aftan og enga afturglugga, ásamt því að sýna sérstæða hönnun bílsins.

Margir hönnunarþættir Tatra 87, V570 og síðari T97 voru teknir upp og notaðir af bílaframleiðendum í kjölfarið á tilkomu T87. Ferdinand Porsche var undir miklum áhrifum frá Tatra 87 og T97 og notaði „flötu hönnunina“ við hönnun á  fjögurra strokka vélinni fyrir fyrstu Volkswagen „bjölluna“ og var í kjölfarið stefnt af Tatra.

(byggt á Wikipedia og nokkrum vefsíðum)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is