Það var sumum íbúum Reykjavíkur nokkurt áhyggjuefni árið 1954 hversu margir unglingar virtust bókstaflega „helteknir“ af skellinöðrufaraldri sem geisaði. Það var í það minnsta mat Hannesar á horninu sem skrifaði töluvert í Aþýðublaðið um „faraldurinn“.

Hver var Hannes á horninu?

Byrjum þó á því að kynna Hannes á horninu, því ekki er víst að allir hafi heyrt hans getið. Vilhjálmur S. Vilhjálmsson (1903 - 1966) var blaðamaður og rithöfundur (skrifaði m.a. endurminningar langafa og langömmu undirritaðrar enda hafði hann gaman af spes fólki!). Hann skrifaði pistla sem birtust daglega í Alþýðublaðinu og skrifaði hann þá undir dulnefninu Hannes á horninu.

Pistlarnir voru vinsælir og skrifaði Vilhjálmur þá frá árinu 1937 til ársins 1966, eða allt til dauðadags. Hannes á horninu hafði sterkar skoðanir og fengu lesendur innsýn inn í skoðanaheim hans gegnum daglega pistlana.

Í minningarorðum um Vilhjálm á vef Blaðamannafélags Íslands segir um dálkinn sem Hannes á horninu (Vilhjálmur) hafði umsjón með:  „Hann var í senn vettvangur fyrir almenning til að koma á framfæri skoðunum sínum, umkvarti, lofi og lasti og jafnframt leið fyrir Vilhjálm sjálfan til að koma á framfæri áhugamálum sínum.“

Bílar, umferð og akstur

Oftar en ekki hafði Hannes á horninu eitthvað um akstur og aksturstengd mál að segja. Af nægu er að taka því pistlarnir urðu mörg þúsund talsins. Sagði í Alþýðublaðinu í október 1959 (þegar pistlarnir höfðu birst í blaðinu um 22ja ára skeið) að pistlarnir væru orðnir sex þúsund og sex hundruð talsins!

Og enn átti hann eftir að skrifa í sjö ár til viðbótar.

Það var þann 30. apríl 1954 sem pistillinn um skellinöðrufaraldurinn í Reykjavík birtist í Alþýðublaðinu.

Ég á við vélhjólafaraldurinn, sem nú hefur heltekið unglingana.“

Óværa frá Danmörku og próflausir krakkar

Blaðamanninum var síður en svo skemmt og taldi hann „faraldurinn“  grábölvaðan og líklegast að hann hefði borist til landsins frá Danmörku.

image

Úr vörulista Kreidler frá 1954

Þótti honum ótrúlegt að íslenska lögreglan úthlutaði númerum sem strákbjálfarnir settu á skellinöðrurnar: „Ekki virðist þó að nein réttindi eða próf þurfi til að fá að skellast á þessu um göturnar,

því að krakkar, sem varla kunna enn að snýta sér, spóka sig á þessu, reka allt úr vegi og spana í umferðinni.“

Algjör plága

Hannes á horninu átti eftir að skrifa marga pistla um skellinöðrurnar á næstu mánuðum og árum en í greininni sem hér er vitnað í segir hann að þetta farartæki hafi fengið unga drengi til að ofmetnast.

„Því að plága er þessi skellinöðrufaraldur, ekki kannski eingöngu vegna þess, að þetta er mikil viðbót við umferðaröngþveitið, sem sízt mátti á bæta, heldur vegna óprúttni og glannaskapar stráklinganna, sem þykjast heldur en ekki orðnir menn með mönnum þegar þeir eru búnir að fá þetta í klofið.“

image

Og í desember 1954 þegar „nýja hættan“ var loks viðurkennd og frumvarp um skellinöðrur lá fyrir Alþingi var samt allt vont.

Ógeðsleg reiðhjól með hjálparmótor

En þetta var ekki í fyrsta skipti sem Hannes á horninu fjallaði um þessi farartæki sem unglingarnir virtust óðir í árið 1954.

image

Blessaður karlinn, hann Vilhjálmur heitinn, talaði (skrifaði) fyrir daufum eyrum, að því er virðist, en áfram hélt hann að skrifa um pláguna og faraldurinn.

Illa var honum við skarkalann og skellina í nöðrunum en maður vill varla hugsa sér hvert hann hefði farið, hefði hann upplifað nútímann: Hljóðlausar skellinöðrur sem koma aftan að fólki á gangstígum o.s. frv.

Nei, þá hefði hann nú eflaust frekar kosið hávaðann.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is