Hann hefði orðið léttasti nútímasportbíll í heimi. Og fallegur með eindæmum. En hann varð aldrei neitt meira en hugmynd. Góð hugmynd sem ekki varð…að bíl.

Svakalega var þetta nú dramatísk byrjun! Er það nokkuð svona sem Þorláksmessumorgnar eiga að byrja?

En það sem hér er til umfjöllunar er sportbíllinn Volkswagen XL Sport; Hugmyndabíll sem kynntur var árið 2014. Hafa ber í huga að þetta er ekki sami bíll og VW XL1 sem var kynntur rúmlega ári á undan (og XL er byggður á).

image

Hugmyndin Volkswagen um „eins lítra bíl“ var kynnt upp úr aldamótum, eða í kringum 2002. Kjarni málsins var að framleiða bíl sem kæmist 100 kílómetra á einum lítra af eldsneyti.

image

Burtséð frá hugmyndabílunum VW 1L, 1XL og svo fram eftir götunum þá er VW XL Sport sá sem um ræðir og kveikjan að umfjölluninni er myndband sem undirrituð sá í gær frá Petersen bílasafninu í Kaliforníu.

image

Á YouTube-rás safnsins birtast reglulega myndbönd þar sem sérfræðinga fjallar um alveg spes bíla á mjög vandaðan hátt. Það eina sem sést er sérfræðingurinn, bíllinn sem um ræðir og svo mótar fyrir bílskúrsdyrum (örugglega ekki dyr í alvöru) á hvítum vegg. Ekkert er þarna sem mögulega getur truflað athygli áhorfandans.

Leslie Kendall heitir aðalmaðurinn á Petersen bílasafninu og hann veit allt. Jæja, allt í lagi: Það sem hann hefur ekki hundsvit á hefur hann vit á að fjalla ekki um. Sem sagt býsna vitur maður sem er einmitt sá sem segir frá í meðfylgjandi myndbandi.

890 kílóa bíll væri bara fínn

Hugmyndin var sú að bíllinn yrði með eindæmum léttur, eða 890 kíló, sem myndi samkvæmt Kendall, gera bílinn þann léttasta af öllum sportbílum nútímans. Vélin í bílnum,  Ducati Superleggera V-Twin,  getur snúist 11.000 snúninga á mínútu og eyðslan undir einum lítra á hundraðið, eða 0.94 lítrar á hverja hundrað kílómetra.

image

Já, þessi bíll hafði sannarlega allt. Eiginlega bara of gott til að vera satt. Enda var það ekki satt. Bíllinn fór aldrei í framleiðslu.

image

Endilega, lítið á myndbandið ef þið getið, því þar segir Kendall hinn snjalli frá „mótorhjólinu“ á hjólunum fjórum, Volkswagen-Ducati tengingunni og svo þessari meistaralegu loftaflfræðilegu hönnun sem gerði gripinn þannig úr garði að hægt hefði verið að komast upp með að framleiða hann án afturrúðu.

Núnú, þrátt fyrir að bíllinn hafi ekki farið í almenna framleiðslu voru þó smíðuð 120 eintök af dísil-tvinnbílnum en einungis eitt einasta eintak af FC Sport með Ducati vélinni góðu.

Eins og Leslie Kendall segir undir lok myndbandsins þá er virkilega gott að hafa slíkt eintak til að hliðsjónar og samanburðar við það sem mögulega á eftir að koma í framtíðinni.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is