Góðir siðir í umferðinni er eitthvað sem sárasjaldan er fjallað um. Samt finnst mér fólk nú hætt að gefa manni „fingurinn“ en þar getur eitt og annað spilað inn í: Ökulag mitt, aksturshraði og ökutæki. Jú, og auðvitað aldurinn! Minn aldur, það er að segja.

Þegar vænsti maður breyttist í algjört fól

Hér fyrir neðan er myndband frá árinu 1964. Í rauninni eru þetta leiðbeiningar fyrir ökumenn um hvernig ekki skuli haga sér í umferðinni. Þetta sýnir (í lit og allt!) hvernig fólk getur hreinlega umpólast í eigin skinni við það eitt að setjast í bílstjórasætið:

Englendingur í útjaðri Lundúna gengur prúðbúinn til dyra heima hjá sér. Áður en hann leggur af stað til vinnu kyssir hann eiginkonuna og dóttur þeirra ástúðlega. Brosir eins og sólin sjálf.

image

Góði geðþekki náunginn á leið til vinnu. Skjáskot/YouTube

En maðurinn breytist á svipstundu: Um leið og hann sest inn í bílinn (MG 1100 frá því í kringum 1963) hverfur ljúfi maðurinn  og í staðinn er komið algjört fífl og frunti. Ekki voru það nú góð skipti!

image

Skyndilega er hann breyttur, enda kominn í gírinn. Því virðist hafa fylgt annar jakki. Skjáskot/YouTube

Durturinn sem kominn er í stað geðþekka mannsins ekur illa og gónir á bakhluta ókunnugra kvenna í stað þess að einbeita sér að akstrinum.

Já, hér er kominn allt annar karakter og þessi er hreint ekki skemmtilegur. En það er myndbandið hins vegar. Alveg bráðskemmtilegt! Og hér er það: „Road Manners“ frá árinu 1964:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is