Auðvitað ætti maður aldrei að vanmeta það að undir hrjúfu yfirborði manna, og jafnvel ögn glóðuðu, getur leynst umhyggjusamur bílasafnari. James Hetfield, söngvari Metallica, er gott dæmi um ástríðufullan bílasafnara.

image

Ford Roadster „Blackjack“ frá árinu 1932. Mynd/Peterson.

Það er nú ekki sanngjarnt að titla Hetfield „bara“ söngvara en söngurinn er raunar eitt af voða mörgu sem hann gerir því hann semur flest af því sem frá hljómsveitinni kemur, spilar á gítar, útsetur tónlist og örugglega margt þessu til viðbótar.

image

Lincoln Zephyr V12 árgerð 1939. Hetfield kom auga á þennan í Sacramento en bíllinn hafði þá staðið í innkeyrslu árum saman og fengið að grotna þar niður. Málm-maðurinn sá aumur á bílnum og gerði hann fínan, eins og sjá má. Myndir/Peterson.

En hér kemur sjálft kökuskrautið ofan á hnallþóruna: Hann er bílasafnari. Natinn safnari mjög sérstakra bíla. Hann nostrar við þá og virðist ekki vera einn af þeim ríku sem eru með fjölda fólks í vinnu við að sjá um bílana en hafa sjálfir ekki svo mikið sem sett eldsneyti á þá. En Hetfield virðist einmitt brasa og bauka í „skúrnum“ sínum.

Já, þetta er örugglega ekki skúr eins og við könnumst almennt við þá heldur nokkuð stærri. En skúr er alltaf skúr, hvort sem það er í formi bílakjallara, óperuhúss eða bragga. Skúr er fallegt nafn yfir stað fyrir bíla og bras.

image

Auðvitað er hann með fólk í vinnu við að gera upp bílana og breyta þeim en hann, ef mark er á viðtölum takandi, er sjálfur þátttakandi í ferlinu og hugmyndaríkur mjög.

Bílarnir fyrst sýndir opinberlega árið 2020

Hetfield hafði ekki hátt um bílasafn sitt, þó svo að hann hafi oft mjög hátt og margir tengi hann einmitt við hávaða. En bílasafnið fór hljótt á meðan ekki var hreyft við því og enginn fékk að sjá það nema örfáar hræður í innsta hring.

image

Jagúar MK 4 1948 eða „Black Pearl“. Í  þessum er 375 hestafla Ford V8.

Í febrúar á síðasta ári (2020) opnaði sýningin Reclaimed Rust: The James Hetfield collection í Peterson bílasafninu í Los Angeles. Þaðan eru flestar myndanna. En bók kom út í kjölfar sýningarinnar og hana má sjá og fræðast nánar um hér.

image

Packard „Aquarius“ árgerð 1934, mikið breyttur!

image

Þetta er sannarlega fjarri upprunalega bílnum „Aquarius“ í alla staði. Í þessum er  6.2-lítra LS3 V8 vél og dropalögunin er hugmynd Hetfields sjálfs, framkvæmd og unnin af Rick Dore Kustoms en ál-kápan og málmkennd fínheitin eru handverk Marcel's Custom Metal í Kaliforníu.

image

Skyscraper eða Buick Skylark árgerð 1953. Það er tónlistartenging í þessum! Bensíngjöfin er t.d. úr pedala fyrir bassatrommu og liturinn er ættaður frá ESP rafmagnasgítar. Margt fleira kúnstugt og þaulhugsað má í bílnum finna sem beintengt er hljóðfærum og tónlist.

image

Járnhnefinn, eða Ford 1936 sem nefndur er „Iron Fist“ og það líkar Metallica manninum án efa. Málmur, metall eða hvað það nú heitir: Það virðist Hetfield líka, sé það nógu þungt!

image

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is