Fjallabílstjórinn Páll Arason

Var meðal brautryðjenda að breyta herbílum í ferðabíla fyrir hálendið og fór á þeim jafnvel suður Ítalíu og til Sikileyjar

Við höfum öðru hvoru sett hér inn á vefinn okkar frásagnir af ýmsu sem tengist upphafi bílaaldar á Íslandi, allt frá byrjun og fram eftir síðustu öld.

Sigurð Hreiðar þarf ekki að kynna fyrir þeim sem fylgst hafa með skrifum um bíla á liðnum árum. Hann var frumkvöðull um að byrja að skrifa um bíla í fjölmiðla fyrir um 60 árum.

Hann sá um árabil um vikulegan blaðauka DV Bíla og síðast en ekki síst skrifaði hann bókina Saga bílsins á Íslandi 1904-2004 sem var verulegur hvalreki á fjörur bílaáhugamannsins og þeirra sem unna þjóðlegum fróðleik og frásögnum

En grípum nú niður í frásögn Sigurðar:

Fyrir svo sem handfylli af árum setti undirritaður tvær myndir, þar sem önnur sýndi hluta af gamla Jólatrénu hans Guðmundar Jónassonar, sögufrægum bíl sem nú er að grotna niður austur á Egilsstöðum. Á hinni sást vípon, yfirbyggður með farþegahúsi, á leið yfir einhverja ána inn í Þórsmörk.

image

Þarna sér í gamla jólatréð hans Guðmundar Jónassonar þar sem sá merkisbíll var að grotna niður ásamt fleiri bílum, á Egilsstöðum. Fyrir um 20 árum.

image

Og hér má sjá myndina af vípon-bílnum, væntanlega er þetta Ólína hans Páls Arasonar á leið inn í Þórsmörk.

Í framhaldinu var ég spurður hvor víponinn Páls Arasonar þetta hefði verið, sem varð til þess að ég fór að leita í safni mínu og fann þar meðal annars búta úr viðtali sem ég átti við Pál heitinn heima hjá honum í Bug í Hörgárdal 9 október 2001.

Fyrstu kynnin af Páli sjö ára

Kannski mál til komið að minnast nokkuð þessa merka frömuðar í sögu bílaferða um Ísland. Ég mun hafa verið sjö ára þegar ég kynntist honum fyrst, þegar hann kom við heima hjá mér á leiðinni ofan úr Hvalfirði þegar hann sótti þangað fyrri Víponinn og varð þá samferða Magnúsi heitnum mági mínum sem þangað fór að sækja sinn Karíól.

image

Þennan Dodge ½ tonns  sótti Magnús Pálsson járnsmiður upp í Hvalfjörð um leið og Páll Arason sótti sinn Dodge ¾ tonns. Báðir voru svokallaðir Command Car en fyrrnefndu týpuna alla kölluðu Íslendingar Karíól en þá síðarnefndu Vípon. – Myndasmiður mun hafa verið Magnús sá er nefndur var en kona hans Kristrún Hreiðarsdóttir situr á gripnum. Lítið mun til af myndum af þessum bíl sem Magnús smíðaði síðan yfir sjálfur af mikilli list.

image

Í fyrstu ferð Páls Arasonar yfir Ódáðahraun 1945 „Það var í þessari ferð sem við hlóðum grjótstíflu fyrir lænu sem var að myndast úr Jökulsá yfir í Lindaá og hefði þá getað ruðst yfir í Herðubreiðarlindir. Við drógum saman mikið grjót í þessa stíflu og má sjá hrúgu af því framan við bílinn. Ég fór tólf ferðir á bílnum yfir ána til þess að koma grjótinu á sinn stað. „Þá er ég ekki búinn að byggja yfir bílinn, bara með blæjurnar“, segir Pálli í viðtalinu við Sigurð Hreiðar. Til vinstri á myndinni blikar á Jökulsána en Herðubreið trónir í baksýn.

Aðeins um „vípona“ Páls Arasonar

Þess er vert að geta að báðir víponar Páls Arasonar voru Dodge ¾ tonns, sá fyrri af gerðinni Command Car, upprunalega með heldur ómerkilegar blæjur í topp og hliðar og varadekkinu þannig fyrir komið að bílstjórinn varð að fara út og inn hægra megin, hvort sem hann var með farþega þar eða ekki.

Grípum hér niður í viðtalsbútana við Pál.

image

Ólína, sá aftari, og Pálína, sá fremri, í sinni upphaflegu gerð. Seinna var byggt yfir þessa bíla og þeir lengdir um leið.

„Sko, hérna er Command Carinn, ég klambraði þessu húsi á hann. Svo lét ég byggja yfir hann 1952 og lengdi hann um 80 sm á milli hjóla. Þessi var kallaður Pálína.

Svo er það hinn þessi aftari, sem upprunalega var Carry All og kallaður Ólína. Ég byggði yfir hann seinna og lengdi hann þá um 1 meter og 10 sm á milli hjóla.

Sumir voru bara að byggja yfir bílana en lengdu þá ekkert. Þeir gjörbreyttust við að lengja þá. Þeir voru svo miklu betri að keyra þá og það var aldrei svo vont hraun sem maður fór yfir að maður ræki niður millikassann eða neitt“.

Hver byggði yfir þessa bíla?

„Hann hét Jónas Magnússon og var trésmiður, bróðir Jósúa þess fræga bílstjóra. Hann byggði yfir Pálínu í skúr inni á Langholtsvegi. En svo teiknuðu þeir þennan bíl, Ólínu, strákar hjá Bílasmiðjunni og hann var ekkert þyngri en þessi minni, því það var allt það léttasta í honum og engir af þessum breiðu stöfum.

image

„Línurnar“ tvær á fjöllum – hægra megin á myndinni er bíllinn sem kallaður var „Ólína“ en til vinstri er „Pálína“.

Fór alla leið til Sikileyjar

Ég setti í þá stærri mótora og hærri drif, enda fór ég á þeim suður um alla Evrópu. Á Pálínu fór ég til Napóli 1954 en á Ólínu komst ég alla leið til Sikileyjar 1955.“

image

Er þetta Ólína á kafi? „Nei, hún er ekkert á kafi. Hún er að fara þarna út í. Ég lét gera þessa mynd eftir litskuggamynd sem ég tók 1954-5 og lét svo Mats Vibe Lund gera mynd eftir þeim. Þarna sérðu, þarna er bíllinn að fara út í, þetta er Kaldakvísl, ég lét alltaf bíla vera báðum megin þegar ég var að fara Sprengisand. Þarna var Steingrímur Pálsson, hann var með flokk til að rannsaka hraunið í kringum Þórisvatn og hann hafði þennan Bedford frá Sauðárkróki, og hann kom alltaf upp að Köldukvísl svo ég hefði bíla báðum megin við. En svo sérðu að Ólína er komin lengra, ég er kominn yfir á Pálínu og þess vegna get ég tekið þessa mynd.“

image

„Ég fór með farfugla upp í Kringilsárrana, segir Páll í viðtalinu við Sigurð Hreiðar. „Ómar Ragnarsson segir að það hafi enginn farið þetta. Þarna var líka bíll frá Guðmundi Jónassyni, Einar Steindórsson var með hann. Það er 1948. Ég var þar líka með báða bílana mína“.

Eftirmáli

Margt og misjafnt var um Pál Arason sagt gegnum tíðina. En hann var vissulega einn af brautryðendum íslenskrar bílasögu, harðduglegur, útsjónarsamur – og skemmtilegur.

image

Um þessa mynd sagði Páll Arason: „Þessi er helvíti klassísk, sko. Þarna erum Jónas skáld í Hofdölum og við erum að skoða landakort. Svo erum við með vodkaflösku. Og hjólið á bílnum eins og ofan á okkur”.

Síðast hitti ég hann fáum mánuðum áður en hann dó. Ég kom inn á Bautann á Akureyri og mætti þá Páli sem hafði fengið sína saðningu og var á leið út. hann var í skósíðum, hnausþykkum leðurfrakka og sópaði að Páli og frakkanum.

Texti: Sigurður Hreiðar

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is