Árið 1965 fór Ford Mustang eins hátt og unnt var að komast. Upp á hæsta skýjakljúf veraldar á þeim tíma, en það var Empire State-byggingin í New York. Alls er byggingin 102 hæðir en hæsti punktur byggingarinnar er 381 metri.

Farartæki og Empire State

Á áttugustu og sjöttu hæðinni er útsýnispallur og þangað fór Mustanginn, en bíll hafði ekki farið þangað fyrr. Reyndar hafði farartæki áður haft viðkomu í Empire State-byggingunni tuttugu árum fyrr og sex hæðum neðar en það var býsna harkaleg viðkoma og ekki skipulögð. Síður en svo!

image

Þrír létu lífið þegar B-25 flaug á Empire State-bygginguna 1945.

Þetta var nú ekki beint hressandi saga svo það er best að halda áfram með hina. Söguna af Mustang.

Þá sló Ford Mustang alveg í gegn

Árið 1965 var gott ár hjá Ford því Mustang seldist svakalega vel. Hann var beinlínis sjóðandi heitur! Mest seldi bíllinn í Bandaríkjunum það árið en alls seldust tæplega 560.000 Ford Mustang árið 1965. Einu sinni hefur það sölumet tegundarinnar verið slegið en það var árið 1966 þegar 607.568 bílar seldust.

Þetta var gaman. Svo gaman að framkvæmdastjóri hæstu turnspíru veraldar vildi fá „heitasta“ bíl Bandaríkjanna upp á útsýnispallinn á 86. hæð Empire State byggingarinnar. Ef það tækist yrði bíllinn ekki aðeins fyrsti bíllinn sem kæmi þangað heldur einnig þyngsti hlutur sem þar hefði verið til sýnis.

Ekki hannaður fyrir skýjakljúfabrölt

Það hafði kostað margan verkfræðinginn marga heilafrumuna að gera Ford Mustang ökufæran og fínan. En bíllinn sá var ekki hannaður til ferðalaga innan Empire State-byggingarinnar. Enda varð það bölvað vesen.

image

Miklir sérfræðingar frá Ford mældu allt fram og til baka; dyr, stigaganga og lyftur. Niðurstaða þeirra var að best væri að taka 15 feta langan bílinn í sundur og skipta honum niður í fjóra safaríka aðalbita og troða þeim ásamt meðlæti inn í lyftur byggingarinnar. Já, og flytja hann þannig upp á 86. hæð.

Átta karlar í hvítum göllum laumast að næturlagi

20. Október 1965, seint um kvöld mættu átta karlar frá Ford fyrir utan Empire State-bygginguna. Þetta hefði kannski ekki vakið of mikla athygli ef þeir hefðu ekki verið í skjannahvítum og brakandi fínum vinnugöllum  og með eitt stykki hvítan blæjubíl með sér. Kannski hefði athyglin verið minni ef þeir hefðu ekki skrúfað bílinn í sundur þarna fyrir utan.

Samt sem áður þá var þetta nú bara það sem þeir höfðu skipulagt í drasl og allt gekk vel. Alveg þar til klukkan hálf fimm um morguninn þegar í ljós kom að stýrisstöngin, skömmin á henni, var fjórðungi úr tommu lengri en gert hafði verið ráð fyrir. Já, þessir 6.35 mm voru ekki á planinu og lyftan gaf ekki millimetra eftir.

image

Að troða bíl í lyftu.

Ekki fylgir sögunni hvernig í veröldinni þeim tókst að lokum að koma þessu inn í lyftuna og upp á 86. hæðina. En svo mikið vitum við að klukkan 4:30 að morgni næsta dags stóð bíllinn samansettur og fagur, á útsýnispallinum tilbúinn í myndatöku. Ljósmyndarinn var um borð í þyrlu og myndaði úr lofti í gríð og erg.

Ekki veit ég hvað þeir borðuðu í morgunmat, þessir karlar, en ég veit það að um leið og þeir voru búnir að skrúfa bílinn í sundur fóru þeir með allt heila húllumhæið inn fyrir (glerhýsið á útsýnispallinum) og áður en ljósmyndarinn var búinn að spóla filmunni til baka voru karlarnir búnir að setja bílinn saman aftur, inni í glerhýsinu.

Þetta var greinilega eitthvað annað og mun skemmtilegra en að skrúfa IKEA-húsgögn sundur og saman.

Undrun og gleði í morgunsárið

Þegar Empire State-byggingin opnaði fyrir gesti og gangandi um morguninn urðu þeir allir voðalega hissa en líka mjög glaðir að ramba á þennan fína Mustang þegar þeir ætluðu nú bara að glápa yfir New York. Þetta var nú eitthvað annað sko!

Auðvitað héldu flestir að bíllinn hefði verið fluttur upp með þyrlu en ekki komið með lyftunni. Nú halda lesendur örugglega að ég ætli að segja að körlunum átta hafi verið farið að leiðast og tekið allt í sundur og sett saman aftur 36 sinnum en nei, það gerðu þeir ekki.

Bíllinn fékk að vera þarna næstu fimm mánuðina. Þann 16. mars 1966 var bíllinn tekinn í sundur í síðasta skipti (svo vitað sé) og farið með hann út úr Empire State-byggingunni.

image

Svo mikla lukku vakti þessi gjörningur að á fimmtíu ára afmæli Mustang, árið 2014,var þetta endurtekið. En ekki með sömu körlum og allra síst sama bíl. Bíllinn var 2015 árgerðin af Mustang GT en hverjir komu að verkinu kemur ekki fram. En maður gengur út frá því að mælingarnar hafi staðist í þetta skiptið.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is