Athafnamaðurinn Egill Vilhjálmsson:

Maðurinn sem lærði bílaviðgerðir í Bandaríkjunum og var með ökuskírteini númer 3

Við fjölluðum á dögunum um upphaf bílaaldar á Íslandi og af því tilefni fjölluðum við um „bílakónginn“ Steindór Einarsson, upphaf hans í bílgreininni og stofnun Bifreiðastöðvar Steindórs. Einn er sá maður, sem mikið bar á í upphafi bílaaldar á Íslandi en það er Egill Vilhjálmsson. Egill var einn af fyrstu bifreiðastjórunum á Íslandi og síðar kaupmaður i Reykjavík.

Fyrirtæki sem þjónaði mörgum

Það þarf í raun ekki að kynna fyrirtæki Egils Vilhjálmssonar fyrir þeim sem komnir eru yfir miðjan aldur, því þau þjónuðu mörgum á sínum tíma. Verslun með varahluti, innflutningur á bílum og smíði á yfirbyggingum, auk vélaviðgerða og renniverkstæðis svo fátt eitt sé nefnt.

Kynntist véltækni á Bíldudal

Egill Vilhjálmsson forstjóri fæddist í Hafnarfirði 28.6.1893. Hann flutti fjögurra ára með foreldrum sínum, Vilhjálmi Gunnarssyni og Önnu Magneu Egilsdóttur, til Bíldudals. Á unglingsárunum hafði hann þar eftirlit með fjögurra hestafla vél sem dældi sjó í fiskþvottahúsið þar og var síðan á æskuárunum vélamaður á fiskiskipum.

Upp frá því beindist áhugi hans fyrst og fremst að vélum og véltækni, en hann átti eftir að verða einn helsti brautryðjandi bílaaldar á Íslandi.

image

Egill Vilhjálmsson

Ökuskírteini númer 3

Egill lauk prófi í vélfræði 1913, stundaði nám í meðhöndlun bifreiða, lauk slíku bifreiðaprófi 1914 og fékk bifreiðastjóraskírteini númer 3. Hann sinnti síðan bifreiðaakstri í Reykjavík og nágrenni, einkum til Eyrarbakka, en 1916 rak hann bifreið í áætlunarferðum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

image

Overland model 75 sem Egill Vilhjálmsson keypti 1916. Mynd í bók Guðlaugs Jónssonar Bifreiðar á Íslandi 1904 til 1930.

image

Bifreiðastöð og skúrar Bifreiðafélags Reykjavíkur í Vonarstræti. Bílstjórar taldir frá vinstri: Magnús Bjarnason, Kjartan Jakobsson, Egill Vilhjálmsson og ónefndur. Mynd í bók Guðlaugs Jónssonar Bifreiðar á Íslandi 1904 til 1930.

Lærði bílaviðgerðir í Bandaríkjunum

Egill lærði bílaviðgerðir í Bandaríkjunum árið 1917, fyrstur Íslendinga. Hann fór til Vesturheims í ársbyrjun 1917 og dvaldist þar í nálega eitt ár til þess að læra bílaviðgerðir. Dvaldist Egill við námið í bílaviðgerðum í verksmiðjum Overland í sjö mánuði og sneri að því loknu aftur heim til Íslands.

image

Þessi opnumynd af bílaflota Bifreiðastöðvar Reykjavíkur í Austurstræti er í bók Guðlaugs Jónssonar Bifreiðar á Íslandi 1904 til 1930. Mennirnir á myndinni eru Egill Vilhjálmsson og Jón Guðmundsson (í frakka). Egill var fyrsti framkvæmdastjóri BSR.

Var einn stofnenda BSR

Eftir heimkomuna stundaði Egill fyrst um sinn bifreiðaakstur, eins og hann hafði áður gert, en stofnaði árið 1921 ásamt fleirum hlutafélagið Bifreiðastöð Reykjavíkur, og var annar forstjóri fyrirtækisins.

Þá stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki 1929, með bifreiða- og varahlutaverslun og viðgerðaverkstæði í Reykjavík. Það átti eftir að verða þekktasta bifreiðafyrirtæki landsins um áratugaskeið.

Fyrirtækið Egill Vilhjálmsson var fyrst til húsa á Grettisgötu 18, en 1932 byggði Egill verslunarhúsnæði á Laugavegi 118 og við Rauðarárstíg, þar sem fyrirtæki hans var síðan starfrækt.

Einn stofnenda Strætisvagna Reykjavíkur, SVR

Egill var auk þess einn stofnenda Strætisvagna Reykjavíkur, SVR, og var forstjóri þess fyrirtækis þar til það var selt Reykjavíkurborg 1943. Þá var hann einn af aðalstofnendum Hvals hf. og sat þar í stjórn um árabil.

Hann rak auk þess í nokkur ár kjörbúðina Egilskjör í húsnæði sínu við Laugaveg og var Egilskjör ein af fyrstu kjörbúðum landsins.

Egill var stofnandi og fyrsti formaður Sambands bílaverkstæða á Íslandi og sat í stjórn VSÍ um árabil. Hann var riddari af fálkaorðunni og heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur.

Þegar það þurfti oft að bæta dekk í sömu ferðinni

Í viðtali í tímaritinu Samtíðin árið 1938, kom Egill inn á þær aðstæður sem voru í upphafi bílaaldar á Íslandi, vegir lélegir og það sprakk oft:

image

Ekki voru aðstæður of góðar þegar skipta þurfti um dekk í upphafi bílaaldar, og ekki var algengt að hafa varadekk meðferðis, heldur þurfti að gera við slönguna á staðnum. Mynd af vef eigenda T-Ford í Ameríku.

Þegar bílferðir kostuðu sitt

Tilkoma bílaaldar skapaði nýjan vettvang, en það voru bílferðir gegn gjaldi. Og þetta var sko ekki alveg ókeypis! Fyrst í stað var langoftast ekið milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og hefur sú leið raunar jafnan verið fjölfarnasti bílvegur á Íslandi. En brátt var farið að aka ýmsar Ieiðir frá Reykjavík, eftir því, sem vegir leyfðu. Ökutaxtar bílanna voru áður fyrr miklu hærri hér á landi en nú tíðkast.

Árið 1915 kostaði eitt sæti í bíl milli Reykjavikur og Hafnarfjarðar 1 krónu. Síðar á sama ári hækkaði það þó upp í 1.25 kr. Árið 1916 kostaði það orðið 2 krónur, árið 1917 kr. 2.50 og árið 1920 komst sætið upp í 3.50 kr.  Árið 1917 kostaði bíll fram og aftur milli Reykjavíkur og Þingvalla 100 krónur!

Árið 1918 kostaði bíll fram og aftur milli Reykjavíkur og Keflavíkur 75 krónur, fram og aftur millii Reykjavíkur og Ölfusár 125 krónur. Var gjald þetta raunar miðað við, að bíllinn væri í förum daglangt. Annars var verðlag ekki beinlínis fastákveðið, og var það einatt hærra um helgar en á rúmhelgum dögum. Hámarki sínu náðu bílataxtarnir hér á landi árið 1920. Þá var sett gjaldskrá af Stjórnarráðinu 16. júní það ár, og er ekki laust við, að mönnum ofbjóði, er þeir sjá taxtana sem þá voru settir.

Nokkur dæmi: Milli Reykjavíkur og Kirkjusands 6.00 kr., milli Reykjavíkur og Geitháls 30.00 kr. Milli Reykjavíkur og Eyrarbakka 155.00 kr. og á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar 23.00 kr.

Egill Vilhjálmsson segir í viðtali, að dæmi munu jafnvel hafa verið um að eitt sæti í bíl milli Reykjavíkur og Stórólfshvols hafi komist upp i 50 krónur árið 1920, og sama ár hafi bíll, sem leigður var í ferð til Þingvalla frá Reykjavík, kostað 175 krónur, enda var þá miðað við það, að verið væri heilan dag í förinni. Þetta gífurlega verð á fargjöldum mun að nokkru leyti hafa stafað af því, hve fátt var hér um bíla á þessum árum. Segir Egill að þá hafi oft verið rifist um bílana og jafnvel boðið í þá. Einnig er á það að líta, að um sömu mundir var hér mikil dýrtíð í landinu. En allt, sem þurfti til bíla, kostaði þá offjár.

Einn lítri af bensíni komst upp í 1 krónu og hjólbarði 31x4 komst upp í 315 krónur, en samsvarandi gúmmíslanga upp í 42 krónur. Árið 1920 kostaði nýr fjögurra manna bíll hátt í 8 þúsund krónur.

Þegar við horfum til þess að tímakaup almennra verkamanna árið 1920 var á bilinu 1,00 til 1,25 krónur þá hefur þetta verið dýrt!

image

Dæmi um auglýsingar um bílferðir í upphafi bílaaldar.

image

Mikil uppbygging

Svæðið sem afmarkast af Laugavegi, Rauðarárstíg, Grettisgötu og Snorrabraut var samtvinnað sögu eins fyrirtækis sem byggði þar upp starfsemi sína á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, en það er fyrirtækið Egill Vilhjálmsson hf., sem var á sínum tíma eitt hið stærsta hér á landi á sviði bifreiðasölu, bifreiðasmíði og viðgerða- og varahlutaþjónustu.

image

Verkstæði Egils Vilhjálmssonar við Grettisgötu 16-18.

Egill stofnaði fyrirtækið árið 1929 og starfaði það fyrstu árin á Grettisgötu 16–18. Með vexti þess reyndist nauðsynlegt að finna því nýjan stað og varð þá fyrir valinu fimmtán hundruð fermetra lóð við Laugaveg og Rauðarárstíg, sem síðar fékk númerið Laugavegur 118. Lóðina fékk Egill Vilhjálmsson leigða til 75 ára.

image

Þessi mynd lýsir einna best hversu í útjaðri bæjarins Egill Vilhjálmsson valdi að byggja nýjar aðalstöðvar fyrirtækisins. Drengir og stúlkur á reiðfákum sínum við Hlemm, sem segja má að talist hafi til úthverfis bæjarins fram undir miðja síðustu öld. Stórhýsi Egils Vilhjálmssonar, á horni Laugavegs og Rauðarárstígar nýrisið. Á túninu vestan við húsið má greina einmana kú á beit. Bygging Egils stendur enn í dag, en byggt hefur verið ofan á hana. (mynd á vef Frosta Bergs – ljósmyndari Sveinn Sæmundsson)

Miðstöð bifreiðaiðnaðar í Reykjavík á sínum tíma

Í ágúst árið 1931 fékk Egill Vilhjálmsson leyfi til að byggja á leigulóð sinni hús fyrir verslun og bifreiðavinnustofu. Að sögn Egils þótti mönnum það glapræði að ætla að byggja „í sjálfum forunum við Rauðará“ og reka verslunar- og iðnaðarfyrirtæki þarna fyrir innan bæ. En jarðvegurinn hafði verið kannaður og í ljós kom að þarna var ekki langt niður á slétta grágrýtisklöpp.

Um þetta leyti fór bærinn einnig að ganga frá mikilli leiðslu úr Norðurmýrinni í sjó fram sem lögð var meðfram vestari mörkum lóðarinnar. En staðinn hafði Egill valið ekki síst með það fyrir augum að þarna yrðu í framtíðinni fjölfarnar götur og nægt rými til vaxtar og uppbyggingar fyrirtækisins.

Frá Hlemmi lágu tvær helstu göturnar inn í bæinn, Laugavegur og Hverfisgata, og þar var þegar hafin uppbygging annars bifreiðafyrirtækis, sem var í eigu Sveins Egilssonar. Sveinn hafði árið 1919 komið upp bifreiðaviðgerðaskúr á lóðinni vestan við Hlemmtorg og á árunum 1926–1947 reisti hann þar mikið stórhýsi undir rekstur sinn (Laugaveg 105).

image

Hornið á Laugavegi og Rauðarárstíg á árunum 1940-50.

Svæðið í kringum Hlemm átti því eftir að verða eins konar miðstöð bifreiðaiðnaðar í Reykjavík, með Svein Egilsson á aðra hönd og Egil Vilhjálmsson á hina. Meðal bíla sem Egill Vilhjálmsson hafði umboð fyrir voru Willys-jepparnir, en fyrirtækið fékk umboðið fyrir þá árið 1951 og voru fluttir inn margir slíkir þegar innflutningur slíkra bíla var gefinn frjáls.

image

Á þessari mynd má sjá fjölda jeppa fyrir utan aðsetur fyrirtækisins um 1955.

Meðal helstu athafnamanna 20. aldarinnar

Fjallað var um Egil Vilhjálmsson og starfsemi hans í Samtíðinni árið 1938 og lokaorðin í þeirri umfjöllun voru eftirfarandi:

image

(Greinin byggir að mestu á heimildum dagblaða og tímarita frá uppgangstíma Egils Vilhjálmssonar).

Fleiri áhugaverðar bílatengdar persónur: 

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is