Lentir þú, lesandi góður, nokkuð í þessum stöðumælaverði árið 1991? Það var að sumri til í miðbæ Reykjavíkur sem leikarinn snjalli, Hjálmar Hjálmarsson, brá sér í hlutverk stöðumælavarðar. Hafi stöðumælaverðir í gegnum tíðina kynnst ókurteisum bíleigendum í starfi sínu, er óhætt að segja að Hjálmar hafi á einum degi fengið ríflegan skammt af dónaskap.

image

Stæðin í horninu á fimmtíukall

Falin myndavél var fastur liður í þáttunum Á tali með hemma Gunn hér á árum áður. Yfirleitt var sá liður þáttarins, þ.e. falin myndavél, nú saklaust grín og tók fólk því oftast vel þegar í ljós kom að það hafði verið gabbað.

„Þessi stæði eru á tvöhundruð kall. Það eru bara stæðin í horninu sem eru á fimmtíukall,“ sagði hann við blásaklausan ökumann. „Það er innifalinn þvottur sko!“

Nostalgían í sjöunda veldi

Það er oft gaman að horfa á gömul íslensk myndbönd; einkum ef þar má sjá bíla! Árið er 1991 og BMW var augljóslega vinsæll, sem og Subaru. Í myndbandinu sést til dæmis BMW 316 ´87, Toyota LITEACE ´89, Subaru „bitabox“, Subaru 1800, Honda Civic ´90, Nissan Micra ´87 í nokkrum litum og Mazda 323 ´83.

image

Ökumaður var beðinn um að snúa bílnum við til að rauði liturinn vísaði frá götunni.

Þar sem undirrituð góndi á bílana í myndbandinu var skyndilega á skjánum bíll sem ég slefaði yfir þegar nágranni og fjölskylduvinur keypti hann splunkunýjan árið 1986. Toyota Land Cruiser 1986 sem ljósmyndarinn og skipaverkfræðingurinn Hjálmar R. Bárðarson heitinn átti. G 86 var númerið og er enn, að því er virðist. Bílinn átti Hjálmar til 2009 en það ár kvaddi sá mæti maður en bíllinn gengur sennilega enn.

Mikil ósköp sem Hjálmar heitinn fór vel með jeppann sinn! Á þessum ofurbíl ók hann um vegi og vegleysur og tók einstakar ljósmyndir af fálkum, haförnum og fleiri sjaldséðum fuglum svo eitthvað sé nefnt.

image

Vel kannast undirrituð við þennan Cruiser!

Jæja, óþarft er að hafa um það fleiri orð en forvitnilegt væri að vita hvort einhverjir lesendur kannist við bílana í myndbandinu. Nú, eða hvort einhver hafi gerst svo frægur að hafa karpað við þennan uppátækjasama stöðumælavörð og látið blekkjast!

Ekki reyndist unnt að birta umrætt myndband beint hér á síðunni eins og til stóð þannig að smellið hér til að sjá!

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is