Þrátt fyrir andúð undirritaðrar á því uppátæki að fá fólk til að „hlaupa fyrsta apríl“ má þó hafa gaman af að rifja upp gamalt sprell eins og  t.d. þegar fjölmiðlar sameinuðust í aprílgabbi árið 1980. Þar sem gabbið tengdist bílum er vel við hæfi að rifja það upp hér.

Mihitzu eftirsóttasti bíllinn í Japan

Þriðjudaginn 1. apríl árið 1980 greindu hinir ýmsu fjölmiðlar landsins frá því að japanska skipið Mishima Maru hefði komið til landsins daginn áður.

Farmur þess, 300 bílar af gerðinni Mihitzu 200, yrðu seldir hér á landi á með miklum afslætti því svo óheppilega vildi til að „lakkið var gallað við stuðarafestingar,“ eins og Morgunblaðið orðaði það.

Var sagt að bílarnir hefðu upphaflega átt að fara á Evrópumarkað en við komu skipsins Mashima Maru til Rotterdam kom lakkgallinn í ljós og var pöntunin afturkölluð.

Pétur Sveinbjarnarson kemur til skjalanna

Í „fréttum“ blaðanna var athafnamaðurinn Pétur Sveinbjarnarson kynntur sem milligöngumaður og raunar lykilmaður í að fá bílana hingað til lands.

image

Í einu blaði, Tímanum, kom fram að Pétur væri fyrrverandi formaður Umferðarráðs og hefði verið á ferðalagi í Hollandi. Þar hafi hann hitt fyrrverandi formann hollenska umferðarráðsins og fyrir mikla lukku tókust með þeim samningar um að japanski bílaflotinn færi til Íslands og Pétur annaðist sölu þeirra. En ekki hvað?

image

Samkvæmt Morgunblaðinu var nú einfaldlega haft samband við Pétur en í Vísi kom þetta þannig til að Pétur var staddur í Hollandi að kynna sér veitingahúsarekstur þar í landi, þegar hann af tilviljun frétti af bílunum.

Mihitzu eða Mithitzu? Og Susuki bætist við

Það getur verið snúið að stafa japönsk nöfn og sérstaklega þau sem ekki eiga sér stoð í raunverleikanum. Tíminn fjallaði um bíltegundina Mithitzu en Morgunblaðið og Vísir Mihitzu.

Skipið Mahisma Maru varð að Mitzima Maru í einhverju blaðanna og Mishima Maru í enn öðru. Útgáfur „fréttarinnar“ voru því nokkrar.

Í Morgunblaðinu var sagt frá því að Pétur hefði fengið annað gott tilboð frá hollenska félaganum, Woodcar að nafni, sem var tengiliður í þessum viðskiptum: „Hefði hr. Woodcar haft um það góð orð, að hann fengi einnig umboð fyrir Susuki-bifreiðar, en Susuki og Mihitzu eru einu tegundirnar af japönskum bílum, sem ekki hafa verið fluttar hingað til lands áður.“

image

Þrír hátalarar, stereóútvarp og tölvustýrðir neyðarhemlar

Þessi lítillega gallaði bíll, sem sagt var að landsmönnum byðist á hálfvirði (aðrir sögðu að rúmlega 50% afsláttur fengist) var að sögn Péturs mikill úrvalsbíll og þegar það helsta er tekið saman úr nokkrum blöðum sem fjölluðu um eðalvagninn Mithitzu/Mihitzu er útkoman þessi:

image

Eitt voru þó allir „gabbararnir“ með á hreinu og það sjálft aðalatriðið þegar aprílgabb er annars vegar:  Staður og stund.

Bílarnir yrðu til sýnis í Lýsi og mjöli í Hafnarfirði eftir klukkan 16 þann sama dag; þar yrði hinn traustvekjandi Pétur líka og tekið yrði við pöntunum á staðnum.

Ekkert torkennilegt við þetta, eða hvað?

„Aprílgabb aldarinnar“ að mati Tímans

Strax kl. 8:30 að morgni þessa þriðjudags gerðu áhugasamir sér ferð í Hafnarfjörðinn, þótt ekki ætti að sýna bílana fyrr en eftir klukkan 16. Segir svo frá á baksíðu Tímans daginn eftir að síminn hjá Lýsi hafi verið rauðglóandi strax upp úr klukkan átta: „Kvað svo rammt af þessum símhringingum að tveir starfsmenn Lýsis og mjöls gerðu lítið annað en að svara í símann.“

image

Einnig kom fram að klukkan 16 hafi umferðin verið með líflegasta móti á „sýningarsvæðinu“ og greinilegt á einkennisstöfum ökutækja að sumir væru komnir langt að.

„Haft er fyrir satt að óvenju mikið hafi verið að gera hjá bankastjórum í gær og margir hafi slegið víxil vegna fyrirhugaðra kaupa,“ sagði í lok greinarinnar á baksíðu Tímans.

Gúanólykt og enginn Pétur

Morgunblaðið greindi frá því, 2. apríl 1980, að þúsundir hefðu gripið í tómt og margir orðið spældir: „ Á skilti einu við verksmiðjuna var fólki vísað á „bílasýninguna“, en þeir sem fóru eftir þeim ráðleggingum lentu nánast inni í verksmiðjunni og allri gúanólyktinni sem þar var.

image

Skemmst er frá því að segja að engir bílar af gerðinni Mihitzu voru á staðnum og Pétur Sveinbjarnarson, hafði ekki getað verið á staðnum til að taka á móti pöntunum því hann fór til Englands daginn áður.

Þess skal að lokum getið að Pétur heitinn Sveinbjarnarson kom víða við og var hann m.a. fulltrúi í umferðarnefnd Reykjavíkur og síðan forstöðumaður fræðslu og upplýsingaskrifstofu umferðarnefndar og lögreglu vegna gildistöku hægri umferðar 1968.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is