Glímuskjálfti í herbúðum GM

Margir bílaáhugamenn hafa furðað sig á þeim miklu útlitsbreytingum sem urðu á bílaflota General Motors á árunum 1957 til 1959. Eftir eitt besta tímabil í sögu samsteypunnar, frá 1954 til 1957, gerðust undarlegir hlutir sem vert að skoða nánar. Yfirmaður hönnunardeildar GM á þessum árum var Harley Earl sem stundum hefur verið kallaður konungur krómsins.

Í bílaborginni var sá háttur hafður á að framleiða þurfti nokkuð stóran lager af bílum áður en hægt var að kynna þá opinberlega og hefja sölu um land allt.

Starfsmenn hönnunardeildar GM, sem leið áttu um austurhluta borgarinnar, rak í rogastans þegar þeir sáu breiður af nýjum Plymouth-bílum við verksmiðjuna sem litu allt öðruvísi út en bílarnir sem þeir sjálfir voru með á teikniborðinu. Á þessum árum tók um þrjú ár að breyta bíl úr hugmynd í veruleika, þannig að haustið 1956 var þegar farið að leggja línurnar fyrir 1959-árgerðirnar.

Sú staðreynd olli nokkrum skjálfta hjá umræddum starfsmönnum GM, því Harley Earl hafði fyrirskipað þeim að bæta 50 kg af krómi á hvern einasta bíl sem koma átti á götuna árið 1958 og meira slíkt var áætlað fyrir 1959. Hinir nýju og stílhreinu

Chrysler-bílar voru hins vegar með minna prjál en áður og litu út eins og hlutir af annarri veröld. GM-menn sáu umsvifalaust að Chrysler var með tromp á hendi sem myndi skila þeim frábærri sölu árið 1957. Nú voru góð ráð dýr. Tekin var ákvörðun um að senda Harley Earl í langt frí til Evrópu og á meðan var öllum fyrirhuguðum hugmyndum um ´59 árgerðirnar fleygt í tunnuna, enda áttu þær að verða bústnar útgáfur af ´58-bílunum, að fyrirskipan Earls.

Þegar í ljós kom hve vinsælir Chrysler-bílarnir urðu árið 1957, sá konungur krómsins sæng sína upp reidda og yfirgaf GM árið 1958, skömmu áður en ´59 árgerðirnar voru frumsýndar.

Þess má geta að GM seldi 2,2 milljónir fólksbíla árið 1958, sem var 20% samdráttur frá 1957, en skaust upp í 2,5 milljónir árið 1959. Það var þó ekkert í samanburði við metárið 1955, en þá seldi GM 3,7 milljónir fólksbíla. Fullyrða má að árin 1955 til 1957 hafi verið sannkallaður ævintýratími hjá þessu stærsta fyrirtæki heims, því þá seldi samstæðan samanlagt nærri tíu milljón fólksbíla.

image

Buick árgerð 1958 hefur löngum verið talinn einn helsti krómdreki bílasögunnar. Í grillinu einu er 160 krómkubbar. Talið er að það hafi verið um 50 kg meira af krómi á hverjum GM-bíl árið 1958 en árið á undan.

image

Svar GM við framúrstefnubílum Chrysler-samsteypunnar birtist haustið 1958 í nýrri línu ´59 árgerðanna sem var ólíkt stílhreinni en krómhlöðnu ´58 árgerðirnar. Að öllu óbreyttu áttu þessir bílar að vera búlduleitir og yfirhlaðnir krómi í anda Harley Earl. Pontiac-bíllinn á myndinni hér að ofan er almennt talinn meðal best heppnuðu bíla GM árið 1959.

image

Nýir Plymouth-bílar ollu miklum skjálfta meðal starfsmanna hönnunardeildar GM þegar þeir óku framhjá verksmiðjum keppinautarins haustið 1956, enda birtust þeim bílar með gerbreytt og afar stílhreint útlit, sem að mestu voru lausir við óþarfa prjál. Það ríkti að vonum gleði hjá sölumönnum Chrysler, sem hér sjást heilsast kumpánlega fyrir framan Plymouth og De Soto-bílasölu.

image

Vængjaði ´59 Chevroletinn hér að neðan vakti óskipta athygli þegar hann kom á markað haustið 1958 og átti eftir að seljast í yfir 1,3 milljónum eintaka. Allt frá fyrsta degi hafa menn skipst í tvo hópa varðandi útlit þessa bíls; sumir dásama vængina og kattaraugun á meðan aðrir hrylla sig yfir herlegheitunum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is