Kaup á fornbíl

Áður en hugað er að kaupum á fornbíl þarf að skoða nokkur atriði. Númer 1, 2 og 3 er að hafa húsnæði fyrir bílinn, hvort sem það er bílskúr, pláss í bílageymslu eða hjá klúbbastarfsemi sem viðkomandi vill ganga í. Þetta er aðalatriðið sem þarf að huga að, því gamlir bílar þola einfaldlega ekki íslenskt veðurfar yfir vetrarmánuðina og ryðga niður ef þeir eru látnir standa úti.

image

Að kaupa mjög ryðgaðan bíl getur reynst mun flóknara og dýrara en flestir gera sér grein fyrir. Að endurkróma stuðara á stórum amerískum bíl kostar mikið.

Svo er það ástand bílsins. Betra er að kaupa bíl sem er lítið ryðgaður og þarf ekki að fara í mikla uppgerð, þó hann kosti meira. Að gera upp bíl er nefnilega meiriháttar mál. Til þess þarf mjög góða aðstöðu, mikið skipulag, góðan tíma, þolinmæði,  fjármagn og síðast en ekki síst verkkunnáttu. Því getur hreinlega verið ódýrara að kaupa bíl í góðu ástandi en að fá gefins ónýtan bíl.

Ef ætlunin er að gera upp bíl frá grunni, þá verður tímakaupið sennilega ekki mikið hærra en fimm krónur á klukkustund, nema bílgerðin sé þeim mun verðmætari.

image

Það er grundvallaratriði að fornbílar hafi þak yfir höfuðið meðan á vetrardvölinni stendur.

Einnig er gott að huga að hvernig aðgengi er að varahlutum erlendis, hveru sjaldgæfur bíllinn er og hvað menn eru tilbúnir að borga fyrir varahlutina og hvort þeir  séu einfaldlega til. Það er í flestum tilfellum auðvelt að fá varahluti í ameríska bíla, þar sem mikið var framleitt af þeim og markaðurinn er stór fyrir þá. Að fá varahluti í evrópska bíla er mismunandi eftir tegundum. Þýskir bílar eru auðveldir viðfangs en verðmiðinn er yfirleitt hár. Sóvéskir bílar eru hins vegar allt annar handleggur, því það getur verið erfitt að finna örugga vefsíðu sem hægt er að treysta, en takist það þá er verðið yfirleitt hagstætt. Ekki hef ég þekkingu á japönskum bílum, en þeir haga þann kost að bila minna en hinir og eru auk þess ungir í samanburði við aðra áhugaverða fornbíla.

Áður en bílakaupin fara fram er mjög sniðugt að fara með gripinn í skoðun og kanna vel undirvagn hans, hvort hann sé mikið ryðgaður, hafi viðunandi bremsur og standist flestar væntingar.

Ef aðstæður bjóða ekki uppá það er flott að fá bifvélavirkja með að skoða bílinn og er þá nauðsynlegt að þekkja hann vel og treysta skoðunum hans. Þá verður hann að geta lagt mat á ástand bílsins og mögulega kostnað sem því fylgir að fá hann í það form sem óskað er.

Viðhald

Viðhald á bílnum krefst einfaldlega meiri vinnu og skynsemi en varðandi nýrri brúksbíla. Mun örar þarf að skoða smurolíu, kælivatn og aðrar olíur en gengur og gerist, því gamlir bílar leka þeim eða brenna meira en flestir aðrir bílar. Einnig þarf að muna að setja koppafeiti í legur bílsins og smurkoppa.

Bón og þrif eru nauðsynleg til að verja lakk bílsins og gera auk þess bílinn fallegri í umferðinni. Bensíneyðsla lætur einnig finna fyrir sér, sérstaklega hjá amerískum bílum, þar sem þeir voru framleiddir á þeim árum þegar bensínið var margfalt ódýrara en það er í dag.

image

Viðhald á gömlum bílum er mun meira en fólk heldur. Það þarf t.d. að skoða olíustöðu þeirra mun oftar heldur en á nýrri bílum.

Ég hvet alla fornbílaeigendur sem eru á eldri bíl en árgerð 1988 að fá sér steðjanúmer (svörtu gömlu númeraplöturnar). Það fer öllum fornbílum betur að mínu mati og passar við tíðaranda bílsins.

Hægt er að panta númeraplötur hjá Fornbílaklúbbi Íslands og getur fólk valið sér númer og bæjarfélag að vild, þ.e ef viðkomandi númer er laust. Þar sem flest góð Reykjavíkurnúmer eru upptekin er sniðugt fyrir bíleigendur að tengja tegund bílsins við skráningarbókstafinn. Þannig getur eigandi Ford ´54 fengið sér númerið F-1954 og eigandi Buick ´49 væri flottur á númerinu B-1949.

Gjöld sem vert er að vita um

Það getur verið ódýrara að eiga fornbíl en menn halda. Ef ætlunin er að flytja inn fornbíl erlendis frá er gott að vita að það er einungis 13% tollur af innfluttum bílum sem eru eldri en 40 ára sama hver vélarstærð hans eða mengunarstuðull er. Skoðun á bílum eldri en 25 ára fer fram annað hvert ár og tekur skoðun bílsins mið af þeim reglum sem voru þegar bíllinn var framleiddur.

Sem dæmi má nefna að bíll eldri en frá 1968 þarf ekki að hafa öryggisbelti og sama á við um ýmsan mengunarbúnað sem skyldugur er í yngri bílum.

Hins vegar mæli ég eindregið með því að fornbílaeigendur setji tveggja punkta öryggisbelti í fornbíla sína, lík þeim sem eru í flugvélum, en þau geta bjargað lífi eigandans og farþega hans ef þeir lenda í alvarlegu umferðaróhappi.

Vetrargeymsla

Þegar líða fer að vetri þarf að huga að geymslu bílsins og hvernig er best er að undirbúa hann fyrir vetrardvalann. Best er að koma fyrir höfuðrofa í bílnum þannig auðvelt sé að taka rafmagnið af honum og ennþá betra er að eiga hleðslutæki sem viðheldur hleðslu geymisins. Þeir rafgeymar sem eru stöðugt í svoleiðis hleðslu geta enst í meira en 10 ár. Að öðrum kosti eru líkur á að geymirinn botnfalli og eyðileggist.

image

Yfirbreiðsla á fornbílinn getur verið hentug á meðan á vetrardvölinni stendur, því hún verndar hann gegn ryki og óhreinindum.

Ef aðgegni að bílnum er gott á meðan á vetrardvölini stendur t.d. í bílskúr eigandans, er mjög sniðugt að setjast regluleg inní bílinn og stíga nokkrum sinnum á bremsurnar til að halda þeim liðugum. Hins vegar er ekki sniðugt að ræsa kaldar vélar í tíma og ótíma. Yfirbreiðsla er einnig sniðug til að hlífa lakki bílsins og gott er að hafa einhverskonar mottu undir honum sem tekur við olíunni sem lekur af bílnum. Eldri fornbíll sem lekur ekki er einfaldlega olíulaus, því allar pakkningar þorna í vetrargeymslunni og þá byrjar lekinn.

Gott er að setja þunnt frauðplast eða stífan svamp undir öll dekkin, því þá er minni hætta á að þau aflagist í langri geymslu.

image

Góður bílskúr er gulls ígildi fyrir alla bílamenn, en auk þess að geyma þar fornbílinn má koma upp huggulegri aðstöðu þar sem bílakarlar geta hist og spjallað um áhugamálið.

Þegar fer að vora

Þegar vetrardvölini er lokið er mikilvægt að skoða hvort allur vökvi og olía sé til staðar á bílnum. Áður en sjálfskiptur fornbíll er tekinn í notkun getur verið gott að ýta honum út úr bílskúrnum, setja hann í gang og láta hann hitna áður en olían á sjálfskiptingunni er mæld og sett á. Einnig er sniðugt bæta fljótlega eldsneyti á bíllinn því það getur dofnað í vetrargeymslunni.

Lokaorð

Þessi grein er skrifuð út frá reynslu höfundar og eflaust eiga einhver atriði hennar ekki við um alla fornbíla. Þó er gott að miðla henni, því reynslan er alltaf ólygnust.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is