Einhvern veginn efast greinarhöfundur um að ökumenn hugsi, þegar ekið er yfir brú: „skyldi hún halda?“ Nei, vonandi er það ekki áhyggjuefni vegfarenda, enda langt síðan brú hefur „pompað“ niður hér á landi.

Hefðu mátt vera á verði?

Hér að ofan var sagt að ökumenn „hefðu mátt vera á verði“ sumarið 1944. Hvers vegna? Orðum þetta svona: Í september árið 1944 brast brúin yfir Ölfusá og ofan í fóru tveir bílar ásamt ökumönnum. Ítrekað, sumarið 1944, hafði verið varað við akstri yfir umrædda brú því hún var að hruni komin. Já, og hún hrundi.

En nú er ég komin fram úr sjálfri mér og sögunni! Spólum til baka, og enn lengra en það: Til dagsins 26. júlí árið 1944.

„Á að bíða eftir stórslysi“?

Í Alþýðublaðinu þann 26. júlí árið 1944 birtist eftirfarandi á blaðsíðu 2:

image

Úr Alþýðublaðinu 26. júlí 1944

Fyrirsögnin var ekki úr lausu lofti gripin enda dauðans alvara sem bjó undir. Undirfyrirsagnirnar voru eftirfarandi:

Nú getur undirrituð ekki, frekar en áður, talað fyrir aðra, en æki ég yfir brúarræfil sem brakaði í og brysti, tjah...já, þá myndi ég nú ekki bara hækka í útvarpinu!

Jæja, áfram heldur greinin í Alþýðublaðinu og nú á blaðsíðu 7, þar sem segir um brúarsmíðina og hugsunina að baki mannvirkinu rúmri hálfri öld fyrr:

image

Kambarnir árið 1929

Og svo kom herinn…

Mikið rétt: Það hefði þurft einhvern stórkostlegan Nostradamus, eða eitthvað enn öflugra, til að sjá fyrir innreið bifreiðanna. Nema hvað:

Hefst nú smá tímaferðalag undirritaðrar og tímavélin lendir fyrst á árinu 1941.

Kúlnaför í stöplum brúarinnar

Ekki nóg með að herhlussurnar, allt of þungar færu yfir Ölfusárbrú, heldur hafði þýsk sprengjuflugvél af gerðinni Heinkel 111 skilið eftir slatta af kúlum í stöplum hennar árið 1941.

Tjón á mannvirkjum var lítið sem ekkert en þó „má sjá för eftir vjelbyssukúlur í stöplum á Ölfusárbrú og vjelbyssukúlur lentu í hermannaskálum,“ sagði í Morgunblaðinu.

Flaug rétt yfir húsþökunum

Mikil mildi þótti að engir óbreyttir borgarar slösuðust en að vonum var fólki illa brugðið. Sagði einn sjónarvottur svo frá: „Flugvjelin flaug ofur lágt yfir Selfossi, svo að segja alveg yfir húsþökunum. Hún flaug vestur yfir þorpið og yfir brúna í þessari sömu hæð.

Mæddi mikið á brúnni, ekki síst vegna hernaðarbröltsins á eyjunni friðsælu í norðri og sumarið 1943 var ástandið á henni orðið allslæmt. Þá „bilaði“ brúin nefnilega. Brýr gátu „bilað“ á þeim tíma. Stóð það skrifað bæði í Vísi og Morgunblaðinu og þurfti að loka brúnni í tæpar tíu klukkustundir.

Stafaði bilunin af því „að nokkrir stálteinar, sem halda brúnni uppi á aðalvírunum, biluðu. Mun bilun þessi eingöngu stafa af mikilli umferð um brúna undanfarið,“ stóð í Morgunblaðinu þann 29. júní árið 1943.

Hrollkaldar staðreyndir

Í Vísi var ekki greint frá hvers eðlis viðgerðirnar á brúnni hefðu verið en Morgunblaðið greindi skilmerkilega frá hvað fór úrskeiðis og hvaða bragarbót unnin var á brúnni. Þar á bæ virtist alvarleiki málsins vera mönnum ljós.

Það hefur varla mátt tæpara standa! Eða hvað? Verkfræðingur er ég ekki en þessar lýsingar minna mig einhvern veginn á hrökkbrauð sem hrokkið getur í sundur við minnsta vængjablak.

„Alls eru þrír teinar. Mun sá fyrsti hafa hrokkið í sundur í fyrrakvöld, en hinir tveir í gærmorgun. Vegamálastjóri ljet þegar í gærmorgun byrja á að gera við brúna.

Óumflýjanlegt að gera nýja brú

Þetta var, sem fyrr segir, í júnílok 1943. Er nánast ekkert fjallað um brúarmálin í blöðunum í heilt ár en ljóst er að vegamálastjóri, Geir G. Zoega, hafði ekki lagt árar í bát heldur hafði hann  (ásamt öðrum) lagt drög að nýrri Ölfusárbrú! Hvorki meira né minna!

image

„[...] aðalverkefnið fram undan [er] að bæta núverandi vegi og þá fyrst og fremst, þar sem umferð og flutningaþörf er mest.

Rúmum mánuði síðar voru ýmsir orðnir hvekktir vegna ástands brúarræfilsins og eins og fram kom í upphafi þessarar tímaflakksgreinar, voru heldur betur ástæður fyrir því.

„Varið ykkur á Ölfusárbrú“

Alþýðublaðið  hélt áfram að vara við yfirvofandi hættu og gat vitnað í sjálfan vegamálastjóra þann 30. júlí sama ár að hann hefði gefið út „aðvörun til almennings um að aka varlega um Ölfusárbrú.“

„Svo fljótt sem við verður komið“

Tíminn leið og fólkið beið. Þrátt fyrir tilmæli Alþýðublaðsins gerðist ekki neitt næstu vikurnar. Þann 2. ágúst sagði í Þjóðvilljanum að „styrking brúarinnar mun verða framkvæmd svo fljótt sem við verður komið, en þangað til er vonandi að þeir, sem leið eiga um Ölfusárbrú fylgi settum fyrirmælum vegamálastjóra út í æsar.“

Nokkuð var um að ökumenn virtu fyrirmæli vegamálastjóra að vettugi en flestir munu hafa áttað sig á hættunni og fylgt fyrirmælunum.

Svo gerðist það

Aðfaranótt miðvikudagsins 6. september 1944 gerðist það svo að aðaluppihaldsstrengur Ölfusárbrúar slitnaði og báðir aukastrengirnir sömuleiðis. Tvær stórar vörubifreiðar, X 14 og X 47, voru á brúnni þegar hún brast. Steyptust þær báðar niður ásamt bílstjórum.

Báðir mennirnir lifðu og er það hreinasta undur þegar allt kemur til alls.

Af mjólkurbrúsa yfir á varadekk í straumþungri jökulá

Jón Ingibergur Guðmundsson (1923-2001) var tvítugur þegar þetta gerðist. Þá starfaði hann sem bifreiðastjóri og var beðinn, að kvöldi þriðjudagsins 5. september, að fara til Reykjavíkur að sækja bilaðan vörubíl frá Kaupfélaginu. Í leiðinni fór hann með mjólkurfarm til Mjólkurstöðvarinnar í Reykjavík og tók þar tóma brúsa til að fara með austur.

image

Þeir voru nokkrir, mjólkurbrúsarnir sem upp flutu þegar bíll Jóns fór á kaf

Bilaði bíllinn var sóttur í bakaleiðinni og allt eins og það átti að vera, þar til á miðri Ölfusárbrú. Jón Ingibergur sagði blaðamanni Morgunblaðsins sögu sína daginn eftir ósköpin: „Jeg fann að bíllinn kastaðist til og tók loftköst, en nokkur gnýr heyrðist um leið.

Jóni tókst ekki að brjóta framrúðuna, enda snéri hún móti straumi og verkfærin voru engin. Bara hnefinn. Hann var lokaður inni í stýrishúsinu á botni árinnar. Einhvern veginn komst hann út um hliðarrúðu og barst hann fljótt upp á yfirborðið.

„Þegar Jóni skaut upp á yfirborðið sá hann tóman mjólkurbrúsa á floti skammt frá sjer. Náði Jón taki á brúsanum og hélt sjer í hann,“ en það var erfitt. Brúsinn snérist í straumiðunni en sleppti Jón brúsanum þegar hann sá varadekk bílsins, uppblásið á felgu, á floti.

image

Bíll Guðlaugs lenti á sandeyri og þar var hann enn daginn eftir. Guðlaugur gat vaðið í land, ómeiddur.

Minntist hann þess að hafa hugleitt hver örlög hins bílstjórans hefðu orðið og kallaði á hann í myrkrinu en fékk ekkert svar. Jón taldi félaga sinn af og olli það honum miklu hugarangri.  

Barst 1200 metra með straumnum

Jón hélt fast í varadekkið og barst hratt niður eftir ánni með straumnum. „Var jeg ýmist undir eða ofan á dekkinu og þá fyrst saup jeg dálítið af vatni. Mun ég þá hafa verið í hávaðanum sem er fyrir vestan Selfossbæinn.

Sögunni lýkur nú ekki þar; engir björgunarsveitarbílar, teppi eða heitt kaffi biðu Jóns á bakkanum. Nei, hann gekk að Selfossbænum en hann hafði borist 1200 metra með straumnum. Þegar hann kom að bænum hitti hann mann úti á hlaði.

„Háttaði ég ofan í rúm á Selfossi. Fekk kaffi og brennivín og hresstist brátt. Þangað kom læknir og gerði að sárinu á höfðinu á mjer,“ sagði hraustmennið Jón Ingibergur Guðmundsson.

Það er ótrúlega magnað að ekki hafi farið verr, þegar Ölfusárbrúin brast, þann 6. september 1944. Freistandi er að skrifa meira um hvernig mál þróuðust hvað Ölfusárbrú snertir en tímavélin er lent, árið er 2021, og greinarhöfundur lúinn eftir flakkið!

Vilt þú skreppa aftur í tímann? Flokkurinn BÍLASAGAN inniheldur aragrúa efnis sem tengist íslensku bílasögunni. 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is