Að finna upp hjólið, aftur og aftur

Bestu og virtustu bílaframleiðendur með jafnvel 100 ára reynslu eða meira gera stundum þau mistök að reyna að finna upp hjólið en með slökum árangri. Endurbætur geta reynst afturför þegar upp er staðið.

Þetta væri svo sem allt í lagi (fyrir utan það að nýja hönnunin veldur því að bíllinn verður dýrari) ef útkoman yrði enn betri mótor en þeir sem bílaframleiðandinn hefur framleitt áður.

En því fer víðs fjærri, sumir af nýju mótorunum og sjálfskiptingunum eru verri en það gamla og stundum meingallað. Allt púðrið fór í að hanna nýjungarnar en grunn mótor- eða sjálfskiptingarhönnunin mistókst.

image

Endurbætur geta reynst afturför þegar upp er staðið.

Dæmi um þetta er þegar kambásar brotna vegna smurningsskorts eða sveifarásar bræða úr sér án þess að ökumaðurinn sé að misbjóða mótornum. Oft er verið að spara efni eða nota ódýrt efni.

Það er verið að nota plast fram úr hófi í bílum og oft í vélarrýminu þar sem verða miklar hitabreytingar en sumt plast þolir þetta illa. A.m.k. einn bílaframleiðandi framleiðir suma varahluti úr málmi til að skipta um hluti sem eru gerðir úr plasti í bílnum þegar hann kemur frá verksmiðjunni.

Fallegt rusl?

Hvaða vit er í að hanna flottan bíl með V6 mótor sem skilar 286 hestöflum og er með 6 gíra sjálfskiptingu en vélin og sjálfskiptingin er nánast rusl? Þetta gerðist hjá ónefndum bílaframleiðanda en höfuðlegurnar í vélinni voru úr svo lélegu efni að flestir eða allir mótorarnir í fyrstu árgerðunum bræddu úr sér.

Sjálfskiptingin var stórt vandamál, skipti sér vitlaust, læsti sér í öryggisstillingu eða skipti sér alls ekki.

Alls konar innkallanir, endurbætur, málaferli o.fl. fylgdi í kjölfarið. Um áratug áður en þetta gerðist var sami framleiðandi með sjálfskiptingu sem var með fullt af vandamálum. En sumir læra ekki af reynslunni.

Tveir heimsþekktir bílaframleiðendur sem framleiða marga af eftirsóttustu bílunum nota tímakeðjur í sumar af sínum bílvélum sem eru í rauninni ekkert annað en reiðhjólakeðjur.

image

Haugslitin tímakeðja í þýskri vél en stundum er keðjan og allt undir ventlalokinu þurrt.

image

Sami þýski gæðamótorinn en annað sjónarhorn.

image

Annar þýskur gæðamótor frá öðrum framleiðanda, svipuð hönnun og haugslitin tímakeðja. Mynd: codythecarguy.com.

Mótorar hafa stundum engan olíukvarða en þess í stað er skynjari í olíupönnunni sem skynjar hæðina á olíunni. Það kemur viðvörun í mælaborðið ef bæta þarf olíu á mótorinn þegar það er of lítil olía á honum. Vandamálið við þetta er að sumar vélar eru með tímakeðju sem fær smurningu frá annarri keðju sem snýr olíudælunni en hún þarf að ná niður í olíuna í pönnunni til að ausa henni upp á tímakeðjuna. Stundum er yfirborðið á olíunni of lágt til að þetta gerist án þess að skynjarinn gefi neitt til kynna.

Ferdinand Porsche, Béla Barényi o.fl. voru fyrirtaks hönnuðir og verkfræðingar sem hönnuðu fallega bíla og nýja og gagnlega hluti sem við njótum góðs af í dag. En það sama verður ekki sagt um marga kollega þeirra í seinni tíð. T.d. virðist sá sem kom að útlitshönnuninni á Fiat Multipla ekki hafa hugmynd um hvort hann væri að koma eða fara!

image

Fiat Multipla.

Stundum spyr maður sig, af hverju þarf að vera með margar mismunandi stærðir og gerðir af boltum í einu einföldu stykki? Af hverju þarf að vera erfitt að skipta um hluti sem tilheyra viðhaldi bílsins? Kostnaður við einfalt viðhald getur verið óheyrilegur.

image

Á níunda áratugnum voru til Datsun Cherry bílar með kúplingu sem hægt var að skipta um á 20-30 mínútum!

Á níunda áratugnum voru til Datsun Cherry bílar með kúplingu sem hægt var að skipta um á 20-30 mínútum! Mig minnir að þær hafi ekki enst mjög vel en varahlutirnir voru ódýrir og vinnuliðurinn kostaði ekki mikið. Svo komu bílar með hefðbundnari kúplingu og þá kostuðu varahlutirnir mun meira og vinnuliðurinn miklu meira. En munurinn á endingunni var bíleigandanum ekki hagstæður.

Það var reyndar svo einfalt að skipta um þessar kúplingar að það hefði verið hægt að kenna flestum hvernig átti að gera það á 10 mínútum og það þurfti bara venjuleg verkfæri.

image

Það er ágætis regla að kaupa ekki fyrstu árgerð af bíl.

Það er ágætis regla að kaupa ekki fyrstu árgerð af bíl, jafnvel þó bílarnir hafi verið prófaðir gríðarlega vel áður en þeir fóru í sölu, nema maður vilji vera tilraunadýr.

Stundum er best að kaupa síðustu árgerðina af bíl því þá er búið (vonandi) að sníða í burt alla gallana. Sumir framleiðendur hafa þann háttinn á að þeir setja ríkulegri búnað í grunngerðirnar til að klára lagerinn en bíllinn kostar lítið eða ekkert meira.

En þekkið þið einhverjar sögur af því sem þið mynduð kalla að finna upp hjólið, slæma hönnun, bull eða jafnvel hönnunarslys? Allur aulahúmor, kaldhæðni o.s.frv. hjartanlega velkominn.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is