Þjóðhátíðardagur í Árbæjarsafni

Vegna farsóttarinnar var lítið um viðburði hjá bæjarfélögum höfuðborgarsvæðisins á 17. júní, en félagar Fornbílaklúbbs Íslands mættu hins vegar í Árbæjarsafnið. Fjölmargir fornbílar voru þar til sýnis í sól og blíðu og glöddu viðstadda gesti sem voru óvenju margir, enda fátt um fína drætti í miðborginni. Fornbílaklúbburinn og Árbæjarsafn hafa lengi átt gott samstarf, en þar hefur um tveggja áratuga skeið verið haldinn sérstakur fatadagur klúbbsins fyrstu helgina í júlí. Þar sem landsmótið lendir á þessari helgi nú var ákveðið að flytja fornbíladaginn yfir á 17. júní og var ekki annað að sjá en að gestir og gangandi hafi tekið því vel.

image

Það voru fjölmargir fornbílar samankomnir í Árbæjarsafni á 17. júní og voru þeir amerísku mest áberandi. Talið frá hægri: Chevrolet ´42, Ford ´59 og Edsel ´58.

image

Þessi myndarlegi Oldsmobile ´56 hefur verið á Íslandi í 60 ár, en hann barst hingað í gegnum Sölunefnd varnarliðseigna, líkt og fjölmargir aðrir bílar á þeim árum.

image

Glæsilegir bílar fara ávallt vel við gömul og virðuleg hús. Hér má sjá ´58 Buick og ´48 Plymouth.

image

Gamla bílaverkstæðið í Árbæjarsafni dregur ávallt til sín fjölda gesta og ekki spillir að hafa fallega fornbíla í hlaðinu, líkt og þennan Chevrolet árgerð 1931.

image

Nokkrir kaggar voru á svæðinu, líkt og þessi svarti Chevrolet Camaro árgerð 1967, en undir húddi hans leynist 427 kúbika vél, sem reyndar var ekki staðalbúnaður í Camaro fyrr en með andlitslyftingunni 1969. Við hlið hans eru Dodge Dart ´67 og Ford Bronco ´74.    

image

Það voru ekki bara krómkaggar og kraftabílar í Árbæjarsafni, heldur einnig vinnulúnir vörubílar sem í eina tíð voru þörfustu þjónar atvinnulífsins; Chevrolet ´52 og Mercedes-Benz ´64.

image

Þessi virðulegi Hudson árgerð 1947 hefur fylgt Fornbílaklúbbnum í meira en 40 ár, en hann hefur verið samfellt á reykvískum götum í yfir 70 ár og gerður upp nokkrum sinnum af Ársæli Árnasyni fornbílavölundi sem býr handan Elliðaárstíflunnar.

image

Mercury árgerð 1956 hefur löngum verið vinsæll meðal fornbílasafnara enda einstaklega vel hannaður bíll, frá þeim dögum þegar tvílitar yfirbyggingar voru allsráðandi, notkun á krómi til fyrirmyndar og litavalið dásamlegt, annað en sagt verður um bíla samtímans.

image

Talandi um fagrar línur og glæsta liti þá sóma þeir sér vel krómkaggarnir frá sjötta áratugnum, þó velgengni þeirra hafi verið æði misjöfn. Á meðan ´56 Bjúkkinn til vinstri var þriðji mest seldi bíll heims það ár, átti ´58 Edselinn til hægri við ramman reip að draga þegar hann kom á markaðinn í miðri kreppu og breyttum smekk neytenda sem fúlsuðu m.a. við frumlegu grillinu. En hafi Ford-fyrirtækið tapað stórum upphæðum á Edsel-ævintýrinu, þá kom fjármagnið að nokkru til baka árið 1959 þegar græni og hvíti Fordinn í miðjunni leit dagsins ljós, en það ár seldi Ford fleiri bíla en Chevrolet og var þannigs mest seldi bíll heims.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is