Reynsluakstur: Renault Captur PHEV, árgerð 2020
Umboð: BL

Góð akstursupplifun, hagkvæmur, vel búinn
Stíf fjöðrun

Nýr Renault Captur tengitvinnbíll

Sportjepplingurinn Renault Captur hefur fengið andlitslyftingu. Þetta er önnur kynslóð þessa sniðuga bíls sem farið hefur sigurför um bílamarkaðinn á undanförnum árum. Þetta er líka frumraun Renault í tengitvinnbílum en Renault Zoe er fyrsti 100% fjöldaframleiddi rafbíllinn sem Renault setti á markað. Hægt er að lesa um reynsluakstur á honum hér. Renault Captur er hinsvegar í toppsæti hjá Renault hvað sölu varðar. Yfir 200 þúsund eintöku seldust á síðasta ári.

image

Virkilega huggulegur nýr Renault Captur tengitvinnbíll.

Captur var kynntur á bílasýningunni í Genf árið 2013 en hugmynd að bílnum hafði verið kynnt árið 2011 á sömu sýningu.

image

Framendinn hefur fengið uppfærslu í anda nýja Renault Clio.

Nýi Renault Captur bíllinn er byggður á sama grunni og nýr Renault Clio 5 sem lesa má um hér. Nissan Juke er einnig byggður á þessum sama grunni.

image

Nokkuð „djarfur" á að líta.

Vélarhönnun úr smiðju formúlunnar

1.6 lítra, fjögurra strokka bensínvel og 2 rafmótorar sem saman framleiða um 160 hestöfl gefa bílnum nægt afl. Rafhlaðan er um 9.8 kWh og drægni er uppgefin um 65 kílómetrar á rafmagninu einu saman í langkeyrslu. Að því sögðu er eyðslan gefin upp um 1.5 lítri á hundraðið – en það er við bestu aðstæður. Reikna má með að þessar tölur séu í raun aðeins hærri.

image

Hugsað fyrir smáatriðum. Nýr Renault Captur er mjög vel búinn bíll.

image

Farangursrýmið er um 536 lítrar og auðveldlega hægt að stækka til muna.

Það verður að segjast að hönnuðir Renault hugsa út fyrir boxið því þessi ekur á vélbúnaði og tækni sem notuð er í Formúla 1. E-Tech tvinnkerfið byggir á að tveir rafmótorar vinna saman ásamt 1.6 lítra ensín vél og sex gíra sjálfskiptingu.

image

Gólfið er slétt við karm afturhlerans.

Silkimjúk hröðun

Reyndar er kannski fullgróft að kalla þetta sjálfskiptingu en við erum að tala um stiglausa rafmagnsskiptingu svipaða og notuð er í kappakstursbílum Renault í formúlunni. Minni mótorinn er hugsaður til að stilla snúning vélarinnar miðað við aksturshraða bílsins. Þetta er gert til að ná fram eins mjúkum skiptingum og verða má.

image

Stórfínt að setjast inn í bílinn og þú sest beint inn en ekki ofaní bílinn.

Við fundum það líka greinilega í reynsluakstrinum. Það var eins og bíllinn skipti sér ekkert, ekki einu sinni stiglausa hljóðið sem heyrist svo greinilega þegar þú gefur inn bíl með rafmagnsskiptingu.

image

Ekki er síðra aðgengi afturí. Takið eftir að hurðin nær yfir sílsinn að neðan þannig að maður óhreinkar ekki buxurnar við að stíga út úr bílnum.

Minni rafmótorinn kveikir á brunavélinni þegar á þarf að halda. En þú ekur alltaf af stað á rafmagninu einu saman. Stærri rafmótorinn snýr framhjólunum – annaðhvort alveg sjálfur eða í samvinnu við brunavélina – allt eftir því hvaða aksturstillingu þú vilt nota en hægt er að skipta á milli Eco, MySense eða Sport.

Frábær útfærsla á vélbúnaði

Að okkar mati er þessi vél alveg hreint frábær. Tölvan sem stýrir öllu dótinu getur stillt tog og snúning á fimmtán mismunandi vegu og það er enginn bakkgír – hann bakkar á rafmagni einu saman. Þetta gerir bílinn silkimjúkan í akstri og upplifunin er eins og þú svífir.

image

Renault státar af framúrskarandi hönnun og vönduðum efnum.

Það er einfaldlega ljúft að aka nýjum Renault Captur. Hann er flottur og allur frágangur til fyrirmyndar.

image

Leðursæti í Edtion One bílnum.

Við ókum Editon One bílnum sem er sá dýrasti í boði. Sá bíll kemur á 18 tommu álfelgum er með rafdrifið ökumannsæti og leðuráklæði. Virkilega fallega smíðaður bíll og innréttingin sérlega þægileg og aðgengileg.

Tæknilega vel búinn

Allar gerðir lesa umferðaskilti, eru með hraðastilli og hraðatakmarkara, fjarlægðarskynjurum beggja megin, blátannarbúnaði og samþættingu við snjallsíma. Intens Plus er síðan með aðvörunarkerfi fyrir hliðarumferð, 9.3 tommu snertiskjá, BOSE hljómkerfi, blindhornaviðvörun, stafrænu mælaborði með 10 tommu upplýsingaskjá og þráðlausri símahleðslu svo eitthvað sé nefnt.

image

Bose hljómkerfi í dýrari týpunni.

Það var þrælgott pláss í þessum nýja Captur. Fótapláss frammí hefði þó mátt vera meira til hliðanna en þar er orsakavaldurinn löng og mikil eyja sem teygir sig fram yfir miðjustokkinn sem gerir að verkum að leggjalangir einstaklingar reka hnén í þessa eyju.  

image

Hægt er að hlaða snjallsíma þráðlaust undir eyjunni.

Afturí er gott fótapláss og staða framsæta það há að hægt er að stinga fótunum undir þau og láta þannig fara vel um sig. Aftursætin eru á sleðum og hægt að renna fram og tilbaka með tilheyrandi plássaukningu í farangursrýminu.

Pantaðu þann sem passar þér

Svo hefur þú hvorki meira né minna en 90 mismunandi möguleikum úr að velja varðandi litasamsetningu og innanrými. Það verður að segjast að frakkinn kann að hanna hlutina. Sætin eru mjög vel formuð og með skemmtilegri hönnun innanrýmis og möguleikum í litum og fylgihlutum getur þú gert bílinn meira að þínum. Annars fannst okkur bíllinn mjög flottur í þeirri útgáfu sem við prófuðum, Edition One.

image

174 mm undir lægsta punkt er rúmlega jepplingshæð.

Útlitsleg uppfærsla snýr að grilli og ljósum en þau hafa verið færð nær útliti hins nýja Clio 5 sem kom á markað á árinu.

image

Margmiðlunarkerfi og mælaborð er stafrænt og ákaflega aðgengilegt. Takið eftir að miðstöðin er með snúningstakka sem er sérlega þægilegt.

Þegar bíllinn er kominn á 18 tommu felgur og svört umgjörð lista rammar bílinn nokkuð vel inn er hann bara nokkuð „djarfur” á að líta.

Vel heppnuð uppfærsla

Renault Captur er sérlega vel heppnaður lítill sportjepplingur sem svo sannarlega er stútfullur af tækni og nýjungum. Útlitið, sem var þokkalegt fyrir hefur batnað með uppfærslu að utan og innan.

image

Fótapláss er nægt afturí og stokkurinn eftir endilöngu ekki til vandræða.

Plássið í bílnum er þrælfínt fyrir fjögurra manna fjölskyldu hvort sem um skutl í borginni væri að ræða eða ferðalög um sveit og bæi. Vélbúnaður, skipting og tvinnbúnaður er brilljant.

Helstu tölur:

Verð frá: 4.690.000 kr. (Verð á reynsluakstursbíl Edition One 5.290.000 kr.)

Vél: 1.6 rms. PEHV (plug-in hybrid).

Hestöfl: 160.

Rafhlaða: 9.8 kWh.

Hámarkstog: 340 Nm.

0-100 k á klst: 10.1 sek.

CO2: 34 gr/km.

Eigin þyngd: 1.811 kg.

Renault Captur PHEV verðlisti
Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
Zen
Framhjóladrif1.6L Sjálfskipting Bensín, Rafmagn10 kWh65 km
Intens
Framhjóladrif1.6L Sjálfskipting Bensín, Rafmagn10 kWh65 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. BL áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is