Reynsluakstur: Ford Explorer PHEV, árgerð 2021
Umboð: Brimborg

Afl, skipting, aksturseiginleikar, búnaður
Þráðlaust símahleðsluport lítið

Fjall myndarlegur Ford Explorer PHEV

Það er ekki úr vegi þegar vetur konungur gengur í garð að fjalla um einn af konungum jeppanna. Ford Explorer var ætlað að koma í staðinn fyrir hinn goðsagnakennda Ford Bronco sem nú lítur dagsins ljós aftur eftir þrjátíu ára hlé. Ford Explorer var kynntur til sögunnar árið 1990 og nú er sjötta kynslóð bílsins að fara í sölu.

image

Gullfallegur Ford Explorer PHEV Platinum.

Nógu sterkur fyrir sérsveitina

Ford Explorer hefur notið gríðarlegra vinsælda í gegnum árin. Athygli vekur að flestir lögreglubílar í Bandaríkjunum eru af Ford gerð og fjölmargir af svokallaðri Police Interceptor gerð en Sérsveit Ríkislögreglustjóra hefur fjóra slíkar bifreiðar til afnota.

image

Platinum bíllinn er með krómuðu yfirliti á meðan ST line bíllinn er nokkurskonar Black Editon.

Ford Explorer kemur nú í fyrsta sinn í Plug-in Hybrid útgáfu. Við vorum svo heppin hjá Bílablogg.is að fá að reynsluaka splunkunýjum Ford Explorer Platinum PHEV árgerð 2021 eina helgi í október.

Hlaðinn búnaði

Brimborg býður bílinn í tveimur útgáfum, Platinum og ST-line. Báðar gerðirnar eru hlaðnar búnaði og vekur athgyli að aðeins tvær gerðir eru í boði og aðeins er um að ræða útlitsmun á þessum tveimur útgáfum. Platinum er með meira krómi en ST-line bíllinn er sportlegri og með dökku yfirbragði og svörtum felgum.

image

Þetta eru sko engin platpúströr.

Hinn nýi Ford Explorer er svipað stór og fyrirrennarinn. Hann er um 5 metrar að lengd, 2 metrar að breidd og má þá bæta tæpum 30 sm. við vegna hliðarspegla. Hæðin er um 1,77 sm.  

Tvær gerðir

Reynsluakstursbíllinn var af Platinum gerð. Þú sest inn í vel bólstruð leðursæti og fyrstu kynninn fá mann til að segja stundarhátt: „Vá, hvað þetta er flottur bíll”. Og sú tilfinning hélst alvega allan tímann sem við höfðum bílinn. Nýtískuleg hönnun er á innanrýminu þar sem vandað hefur verið til verka. Stór og mikill skjár er fyrir miðju þar sem nálgast má stýrikerfi fyrir alla þætti bílsins.

image

Mælaborðið er ekki bara flott heldur er allt innan seilingar og auðvelt að tileinka sér stjórnkerfið þegar maður sest undir stýri.

Mælaborðið er algjörlega stafrænt og sýnir okkur allar nauðsynlegar upplýsingar á 12.3 tommu skjá. Eftirtektarvert er hversu Ford hefur tekist vel upp við hönnun viðmótsins.

image

Allar stillingar fyrir skynvædda hraðastillinn eru í stýrinu. Takkar eru þar sem þeir þurfa að vera t.d. fyrir hljómtæki og miðstöð.

Þú þarft lítið sem ekkert að líta af mælaborðinu til að fá nauðsynlegar upplýsingar er lúta að akstri. Til að mynda eru snúningshnappar í miðjustokknum sem stýra akstursstillingum og þú sérð á mælaborðsskjánum hvaða stillingu þú velur.

Mismunandi akstursstillingar

Ford Explorer kemur með mismunandi akstursstillingum. Þær helstu eru, Normal fyrir hefðbundinn blandaðan akstur, ECO fyrir átakaminni akstur og þú sparar eldsneyti, Traction stillingin er fyrir ójafnt og erfiðara yfirborð og þar vinnur sjálfskiptingin og drifbúnaður með breyttum hætti til að auka aksturshæfni í torfærum.

image

Það sem er svo flott við þennan nýja Ford Explorer er að þú færð hann með öllu - engir aukahlutalistar til að pæla í gegnum með tilheyrandi kostnaði.

Deep snow /sand gefur betri aksturshæfni í slíkum aðstæðum, stillir eldsneytisgjöf og skiptingu til að ná betra gripi í ófærð. Sport stillingin stillir næmi eldsneytisgjafar og sjálfskiptingar og bíllinn skiptir sér mun hraðar. Slippery stillingin stillir sjálfskiptingu og drif til að höndla betur hálku. Einnig eru sér stillingar fyrir Tow and haul og Trail sem stilla aksturskerfi bílsins fyrir slíkar aðstæður.

image

Innrétting og efnisval er með Ford gæðum. Allt á sínum stað og þægindi í fyrirrúmi.

Tækni sem þessi gerir aksturinn hagkvæmari, skilvirkari og skemmtilegri í mismunandi aðstæðum.

Afl og eyðsla

Ford Explorer kemur með 357 hestafla bensínmótor, V6, 3 lítra Ecoboost vél með tveimur túrbínum. Að auki er síðan 100 hestafla rafmótor til viðbótar. Samtals er bíllinn því að skila 457 hestöflum. Rafhlaðan er 13.6 kWh og drægni er uppgefin um 42 km. skv. WLTP staðlinum.  Þegar við ókum bílnum sýndist okkur drægnin vera á bilinum 28-30 km. en hitastig og akstursmáti hafa þar mikil áhrif.

image

Frábært aðgengi - stórar hurðir en samt ekki þungar.

image

Handfangið á afturhurðinni er nálægt B-bitanum þannig að stálpuð börn eiga að geta lokað án vandræða.

Það geggjaða er að vélin togar 825 Nm. Það þýðir að þegar stigið er á bensíngjöfina skýst bíllinn áfram eins og raketta.

Þrátt fyrir þennan ofurkraft í þessum stóra bíl – en hann er um 2300 kg. að þynd er Ford Explorer ekki að eyða nema um 8-10 lítrum á hverja 100 km. eins og við ókum bílnum – og við vorum ekki í neinum sparakstri.

image

Farangursgeymslan er bara fullkomin - nóg pláss og þriðja sætaröðin tilbúin ofan í gólfinu ef á þarf að halda.

Mögulegt er að stilla aksturinn þannig að þú ekur bílnum sem tvinnbíl e. hybrid þ.e. bæði fyrir rafmagni og bensíni. Þú getur ekið einungis á bensíninu eða einungis á rafmagninu. Þá er hægt að geyma rafmagn á rafhlöðunni fyrir seinni tíma notkun t.d. ef ekið er í langkeyrslu og þú vilt eiga rafmagn til að aka þegar komið er í þéttbýli.

Fjórði möguleikinn er að hlaða bílinn í akstri en þá má reikna með meiri eldsneytiseyðslu á meðan. Að sjáflsögðu er síðan hægt að stinga bílnum í samband við rafmagn og hlaða hann þannig.

Eitt verð

Það sem okkur fannst eftirtektarvert við þennan nýja Ford Explorer er að þú þarft ekki að hanga yfir þreytandi aukahlutapökkum sem lyfta verði bílsins endalaust upp í verði. Bíllinn er bókstaflega með öllu.

image

Panorama glerþak með rafmagnssóllúgu.

Leðuráklæði á sætum, panorama glerþak með sólllúgu, framsæti rafdrifin með hita, kælingu og nuddi, aftursæti á sleðum og hægt að halla, þriðja röðin rafdrifin, skotthleri rafdrifinn, miðstöð í miðjustokk og farangursrými, hellingur af USB og 12 volta tengjum, stafræn aksturskerfi, skynvæddur hraðastillir, háuljósaaðstoð, akreinavari, akreinastýring og Bang & Olufsen hljómtæki svo eitthvað sé nefnt.

Öryggið á toppnum

Fjölmörg akstursaðstoðarkerfi eru í nýjum Ford Explorer. Skynjarar að framan og aftan, myndavél að framan og aftan tryggja að bíllinn hemlar við fyrirstöðu.

Upphituð framrúða og hliðarspeglar, blindhornaviðvörun, lyklalaust aðgengi og ræsing. Hægt er að tengjast bílnum með appi.

image

Stór og stæðilegur en samt ekki nema um 2300 kg.

Frábærir aksturseiginleikar

Akstursupplifun er ein sú skemmtilegasta sem við höfum fundið í langan tíma. Krafturinn, sætin, fjöðrunin og svörun bílsins er öll frábær.

Gagnrýnisraddir hafa heyrst um að bíllinn sé hastur og stífur en það er að okkar mati alrangt.

Hann svínliggur og er með mjög flotta fjöðrun. Þú getur ekið yfir hraðahindrun á talsverðri ferð án þess að finna fyrir því. Hann leggst ekki í beygjur og þú finnur enganveginn að þú sért að aka rúmlega tveggja tonna jeppa.

image

20 sm. eru undir lægsta punkt.

Hagkvæmur

Okkar mat er að hér sé um að ræða tímamótabíl frá Ford. Bíllinn er boðinn í tveimur flottum útgáfum og er á hagvæmu verði miðað við samkeppnina.

Verðið er um 12 milljónir – og bíllinn er hlaðinn búnaði.  Hér er um að ræða bíl sem nýtist við margvíslegar aðstæður. Frábær fjölskyldubíll með mikla ferðamöguleika, sérlega flottur í sportið – hvort sem þú ætlar að draga kerru með vélsleðum, fjórhjólum eða hestum.

image

Gott pláss fyrir fætur afturí og sætin á sleðum sem hægt er að renna fram og aftur.

Dráttargetan er um 2.5 tonn. Þessi bíll hentar síðan án efa þeim sem þurfa að ferðast starfsins vegna og getur því nýst sem fyrirtækisbíll eða til dæmis læknisbíll hjá héraðslæknum eða lúxus bíll fyrir ferðamenn – þegar Covid er yfirgengið.

Helstu tölur:

Verð 11.990.000

Drif: 4x4

Bensínmótor: 357 hestöfl

Rafmótor: 100 hestafl

Hámarkstog: 825 Nm.

Rafhlaða: 13.6 kWh.

Drægni: 42 km. í WLTP prófunum.

0-100 k á klst: 6 sek.

CO2: 71 g/km.

Eigin þyngd: 2.300 kg.

L/B/H 5049/2285/1778 mm.

Veghæð: 20 sm.

Álitsgjafi: Jóhannes Reykdal.

Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
PLATINUM
Fjórhjóladrif3.0L Sjálfskipting. 10 gíra Bensín, Rafmagn825 - 45713.6 kWh42 km
ST-LINE
Fjórhjóladrif3.0L Sjálfskipting. 10 gíra Bensín, Rafmagn825 - 45713.6 kWh42 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Brimborg áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is