Reynsluakstur: Suzuku Jimny, árgerð 2018
Umboð: Suzuki umboðið

Öflugur og sérlega lipur smájeppi – með fullt af tæknibúnaði

Suzuki Jimny smájeppinn kom fyrst á markað árið 1970 – þá fyrst sem smájeppi fyrir heimamarkað (svonefnd ‚Kei‘-útgáfa sem er enn í framleiðslu í Japan. Þessi litli og knái jeppi þróaðist í áranna rás. Og þá sérstaklega eftir að þriðja kynslóðin kom á markað á árinu 1998. Sú gerð náði ágætum vinsældum hér á landi og þeir eru ekki ófáir bílaleigubílarnir sem skottast um íslenska vegi og vegleysur, oftast með tvo túrista innanborðs. Þessi gerð jeppans hefur líka náð góðri fótfestu á heimsvísu, því þeir hjá Suzuki munu vera búnir að selja um 2,9 milljónir af þessum litla jeppa frá árinu 1970 til dagsins í dag. En á þessu ári kom fjórða kynslóðin á markað í töluvert breyttu útliti, hærri, kassalagaðri, aflmeiri og miklu betur búinn, sem er í reynsluakstri hjá okkur í dag.

Svolítið sér á parti

Útlitslega séð er Suzuki Jimny með línur sem vísa til sér mun stærri bíla, en þetta samanþjappaða form hentar honum vel. Sem betur fer er upprunalega hugmyndin að baki þessa jeppa óbreytt, sem þýðir stíf yfirbygging á rammagrind, sem hefur greinilega verið styrkt verulega fyrir þessa fjórðu kynslóð Jimny, heilir öxlar með gormafjörðun og áfram er til staðar hefðbundið 4 x 4 kerfi með millikassa með háu og lágu drifi. Í venjulegum akstri er Jimny með hefðbundnu afturhjóladrifi. Sé þörf á drifi á framhjólum er það valið með skiptihandfangi fyrir millikassann, lítilli stöng fyrir aftan gírstöngina, sama fyrirkomulag og var á nær öllum jeppum í fjöldamörg ár. Aðeins var brugðið á leik með lága drifið á Mosfellsheiðinni, og virkaði vel. Bíllin sem við vorum með í þessum reynsluakstri var með fimm gíra handskiptum gírkassa, sem nær að nýta vélaraflið fullkomlega.

image

Útlitið er kantaðra en áður og ber með sér svið mun stærri jeppa.

Sérlega lipur í akstri – jafnt innanbæjar sem utan

Það tekur smá stund að venjast Jimny í akstri. Stuttur bíll, nokkuð slaglöng fjöðrun, ágætlega stór hjól, allt þetta stuðlar að smá „vagghreyfingu“ í akstrinum. Meira að segja það að skipta um akrein á slitnu malbikinu á höfuðborgarsvæðinu myndar smá „vagg-og-veltu“ hreyfingu en bíllinn heldur samt alveg rásfestunni. Vélin sem er 1,5 lítra og 102 hestöfl er ágætlega aflmikil fyrir þennan litla bíl. Fimm gíra handskiptur gírkassinn nær að jafna átakinu vel miðað við aksturshraða, en óneitanlega kemur sú tilfinning þegar ekið er á bundnu slitlagi að það vantar sjötta gírinn, þegar vélin er komin í 2500 snúninga á 80 km/klst. Þegar komið er á þjóðvegina sem eru ekki jafn sléttir verður aðeins meira vart við fram og afturhreyfingu í fjöðruninni, sem byggist á því hve stutt er á milli hjóla, hjólhafið er aðeins 2250mm.

image

Suzuki Jimny er hlaðinn búnaði, hér er GLX-gerðin með margmiðlunarskjá í miðju, stýrið er búið ýmsum stjórntökkum fyrir síma, útvarp, hraðastilli ofl.

image

Vélin er fjögurra strokka, 102 hestöfl, sem dugar þessum jeppa vel við allar aðstæður.

Snoturt innanrými – en farangursrýmið vantar

Suzuki Jimny er þriggja hurða, ein á hvorri hlið og stór afturhleri. Stórar hliðarhurðirnar tryggja að inn- og útstig er gott í þessum bíl. Mælarborðið er með köntuðu yfirbragði, hönnunin greinilega stíluð á það að gera svolítið „gróft“ yfirbragð. Allar einingar eru „kassalaga“, samsetningarskrúfur látnar sjást. Allt yfirbragðið ber þess merki að hér hefur verið vandað til verka. Mælaborðið er ekki ofhlaðið af mælum og tilvísunum en skilar sínu vel. Í GLX-gerðinni eins og við vorum með í þessum reynsluakstri er stór 7 tommu margmiðlunarskjár með AppleCarplay og Android Auto, leiðsögukerfi og stýringu á útvarpi. Leiðsögukerfið virkað ágætlega og það tók aðeins nokkrar sekúndur að tengja snjallsímann. Hægt er að stjórna þessu með snertiskjánum eða með tökkum á stýrishjólinu, sem stjórna bæði samskiptum við símann og margmiðlunina. Innréttingin er einföld, sterkleg og greinilega auðvelt að þrífa. Með einu handtaki rennur farþegasætið fram og gefur ágætt aðgengi að aftursætunum, sem eru tvö. En þegar röðin kemur að farangursrýminu þá er það á hreinu að valið stendur á milli þess að vera með fjóra farþega í bílnum og smá pláss fyrir aftan aftursætin fyrir smátösku eða einn til tvo innkaupapoka (plássið er ekki nema 85 lítrar með aftursætin í uppréttri stöðu). Hægt er að leggja aftursætin fram og þá er plássið 377 lítrar. En þessi bíll á örugglega eftir að slá í gegn hjá ferðamönnum sem vilja leigja sér „alvöru“ jeppa, og oftast eru slíkir ferðalangar tveir saman og þá er plássið frábært fyrir farangurinn þegar búið er að leggja aftursætin niður.

image

Þegar aftursætin eru í uppréttri stöðu er farangursrýmið agnarsmátt, eða aðeins 85 lítrar.

image

Sé búið að leggja bak aftursætanna fram er farangursrýmið 377 lítrar sem dugar vel tveimur túristum á ferð um landið okkar.

Væri örugglega fínn á stærri dekkjum

Um leið og komið var út fyrir malbikið, þá kom upp sú hugsun að þessi knái jeppi yrði örugglega frábær á aðeins stærri dekkjum. Hann er í staðalgerð á 15 tommu felgum, dekkin 195/80R15. Umboðið býður 29“ dekk sem viðbótarbúnað og einnig upphækkun fyrir 30 tommu dekk, hvorutveggja sem viðbótarkostnað. Þá er á döfinni samstarf við Arctic Trucks um breytingu og upphækkun fyrir 31 tommu dekk, sem verður mjög áhugaverður kostur.

image

Hér sést vel hversu vel þessi jeppi er tilbúinn fyrir aðeins stærri dekk, jafnvel upp í 31 tommu hækkun frá Artic Trucks.

Hlaðinn búnaði

Í staðalgerð er Suzuki Jimny mjög vel búinn, meðal staðalbúnaðar öryggis má telja sex öryggisloftpúða, stöðugleikakerfi (ABS með EBD), akreinavara, umferðarmerkjavara og sjálfvirka neyðarhemlun. Brettakantar, sætishitarar, rafstýrðar rúður og hliðarspeglar og loftkæling. Í GLX-gerðinni bætist við margmiðlunarskjár eins og fjallað var um hér að framan, dökkar hliðarrúður og í afturhlera og 15 tommu álfelgur.

image

Hér er stýringin á drifrásinni, gírstöng fyrir fimm gíra handskiptan gírkassa og litla stöngin þar fyrir aftan er fyrir millikassann, sem er að sjálfsögðu með háu og lágu drifi. Þar fyrir aftan eru hnappar til að kveikja á sætishita.

Plúsar og mínusar

Þegar röðin kemur að því að gefa þessum nýja Suzuki Jimny einkunn þá eru plúsarnir miklu fleiri en mínusar. Í plús er þessi ríkulegi staðalbúnaður, snörp vél sem er nægilega aflmikil, mikil veghæð (21 cm undir lægsta punkt), sérlega stórir hliðarspeglar og margt fleira. Mínusar eru fáir. Sá stærsti er hve farangursrýmið er af skornum skammti þegar fjórir eru í bílnum, en með því að leggja aftursætin fram er komið ágætt pláss. Aftursætin eru lítil og mættu veita meiri stuðning í akstri, einkum bakið. Þegar framsætin eru í miðlungsstöðu er hnjárými af skornum skammti í aftursæti, en höfuðrýmið mjög gott. Og svo „vantaði“ sjötta gírinn í venjulegum þjóðvegaakstri.

Niðurstaða

Þetta er jeppi sem gagnast mörgum vel, áætlað verð í dag (á tíma þegar gengið er á fleygiferð) er á góðu verðbili, eða í GL-gerð frá kr.3.455.000 til 3.855.000 (handskiptur/sjálfskiptur) og í GLX-gerð kr. 3.780.000 til 4.180.000 (handskiptur/sjálfskiptur) En skemmtilegasta niðurstaðan er eftir þennan reynsluakstur að Suzuki Jimny er bíll sem kemur verulega á óvert, einstaklega lipur í innanbæjarumferð. Léttur í stýri og leggur vel á. Veghljóð er lítið, og aksturinn áreynslulítill. Þetta er bíll sem sá sem þetta skrifar var ekki alveg tilbúinn að skila eftir þennan reynsluakstur – hefði sennilega verið enn erfiðara ef hann hefði verið sjálfskiptur.

Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
VERÐ FRÁ.
N1
Fjórhjóladrif1.5L Beinskipting. 5 gíra Bensín130 - 102
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Suzuki bílar hf áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is