Reynsluakstur: Suzuki Ignis, árgerð 2020
Umboð: Suzuki umboðið

Lipur, góð sæti, pláss, hönnun
Ekki boðinn sjálfskiptur

Algjör snilld

Einn skemmtilegasti smábíll sem við höfum prófað. Einfaldlega snilldar bíll sem kemur verulega á óvart. Suzuki hefur oftar en ekki farið ótroðnar slóðir í hönnun og framsetningu og Suzuku Ignis 4x4 er þar engin undantekning. Þessi snjalli mikró jepplingur er í senn flottur, vel búinn og stenst flestar þær kröfur sem við gerum til lipurs borgarbíls og ferðabíls (fyrir einfaldar ferðir umhverfis landið).

image

Hin nýja Dual Jet vinnur vel í þessum knáa bíl. Vélin er með öflugu innsprautunarkerfi sem stuðlar að stóraukinni varmaskilvirkni með auknu þjöppunarhlutfalli. Ignis er einnig fáanlegur með mild-hybrid mótor sem eykur enn á sparneytnina. Með mild-hybrid tækninni hjálpar rafmótor bílnum þegar tekið er af stað og sparar þá um leið eldsneyti – þá er bíllinn sneggri að ná upp hraða og við hraðaminnkunn hleðst straumur til baka inn á rafgeymi bílsins. Vélin skilar um 90 hestöflum og eyðir um 5 lítrum á hundraðið af bensíni. Mild-hybrid vélin eyðir um 4.7 lítrum á hundraðið.

image

Spennandi hönnun og töff útlit!

image

Suzuki Ignis fer vel í hvaða bílastæði sem er.

Straumlínulagaður undirvagn

Nýr undiravagn Suzuki Ignis hefur verið endurhannaður. Áður var grindin frekar köntuð og gerði bílinn ef til vill talsvert hastari en þörf var á. Hin nýja grind er öll straumlínulagaðri, léttari og gefur þessum litla bíl mikinn styrkleika. Suzuki Ignis er þokkalega þéttur og stöðugur í akstri. Maður finnur alveg fyrir smá sveigju til hornanna – enda ekki um sérhannaðan sportbíl að ræða.  Steinliggur á 90 kilómetra hraða á Reykjanesbrautinni.

Suzuki Ignis er sérlega lipur í akstri. Beygjuhringurinn er gefinn upp að lágmarki 4.7 metrar og við fundum það greinilega þegar við lögðum bílnum í þröng stæði og ókum um krókótt bílastæðahús Reykjavíkur.

image

Lítill að utan en stór að innan.

image

Vel búinn til lengri eða skemmri ferða.

Snilldin býr í smáatriðum

Þegar þú berð bílinn augum í fyrsta skipti gæti komið upp smá kvíði fyrir því hvernig færi um þig ef þú ætlaðir hringinn á þessum bíl. Sá kvíði er með öllu óþarfur. Í þessum sniðuga bíl fer betur um mann en í mörgum öðrum stærri bílum. Sætin eru breið og með langri og þægilegri setu – þau eru líka vel bólstruð og í ætt við sæti annarra gerða Suzuki bifreiða. Plássið aftur í er eins og í bestu sætum í Hörpunni. Nægt fóta- og höfuðrými og framsætin eru það há að þú getur smeygt fótunum vel undir þau.  

Rúsínan í pylsuendanum varðandi aftursæti bílsins er að þau eru á sleða og færast fram eða aftur – og halla má sætisbökunum. Allt þetta gerir að verkum að stilla má stærð farangursgeymslunnar sem er án nokkurra leikfimiæfinga 264 lítrar.

image

Gott fótapláss afturí og aftursætin á sleða.

image

18 sentimetrar undir lægsta punkt.

Fullur af tækni

Sjö tommu snertiskjár, bakkmyndavél, rafstýrðir upphitanlegir hliðarspeglar. Apple Carplay, Android auto og Mirror link gera kleift að streyma tónlist og nota önnur öpp snjallsíma. Suzuki Ignis kemur alltaf fjórhjóladrifinn en er boðinn í tveimur útfærslum – GL og GLX. GLX útgáfan er búin íslensku leiðsögukerfi, lykillausu aðgengi, LED aðalljósum og dagljósum, rafdrifnum rúðum frammí og afturí, tölvustýrðri miðstöð, myndavélastýrð hemlaaðstoð og þokuljósum að framan svo eitthvað sé nefnt. Suzuki Ignis er með skriðstillir með fjarlægðarskynjara. Akreinavari, svigakstursvari og sex öryggispúðar.

Skorar hátt í sínum flokki

Að okkar mati skorar þessi ltili snillingur ansi hátt. Lítill að utan en stór að innan. Hentar vel í borgarstússið en ekki síður í sumarbústaðinn eða lengri og skemmri skoðunarferðir umhverfis landið. Það eru hvorki meira né minna en 18 cm. undir lægsta punkt svo þú getur alveg boðið honum byrginn á grófari og fáfarnari leiðum. Fjöðrunin er endurbætt frá fyrri gerð og skilar sér í mýkri akstri grófari vegyfirborði,  bíllinn liggur þéttar og skilar sér í léttara og stöðugra stýri.

image

Hægt er að velja um mismunandi litasamsetningar á innréttingu.

image

Allt til staðar innan seilingar - og meiri búnaður í GLX gerðinni.

Suzuki All-Grip fjórhjóladrifið hefur fyrir löngu sannað sig og fengið lof gagnrýnenda. Brekkulæsing sem gefur smá töf þegar tekið er af stað í brekku – sérlega þægilegur búnaður. Brekkuvari er búnaður sem beitir hemlum með sjálfvirkum hætti niður bratta brekku og gefur manni óskoraða athygli við aksturinn.

image

All Grip fjórhjóladrifið er löngu búið að sanna sig.

Þú getur pantað þinn Ignis í alls níu litum og fimm tvítóna litum þar sem toppurinn er í einum lit og búkur í öðrum. Þú getur einnig pantað þér mismunandi litasamsetningar á innréttinguna. Suzuki Ignis er afhentur með alvöru íslenskri ryðvörn.

image

Sérlega gott aðgengi bæði frammí og afturí.

image

Helstu tölur:

Verð frá 2.930 þús. (maí 2020).

Vél: 1.2 rms. / Mild-Hybrid.

Hestöfl: 90 hö.

Newtonmetrar: 120 við 4400 sn.

0-100 k á klst: 11,9 sek.

Hámarkshraði: 165 km.

CO2: 106-114 g/km.

Eigin þyngd: 905-920kg.

Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
VERÐ FRÁ.
GLX
Fjórhjóladrif1.2L Beinskipting. 5 gíra Bensín Hybrid107 - 83
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Suzuki bílar hf áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is