Reynsluakstur: Mazda 3, árgerð 2019
Umboð: Brimborg.is

Hönnun, pláss að innan
Erfitt að sjá skott í speglum

Þrír til að koma á óvart

Margir þjónar þjóðkirkjunnar segja að þrír sé heilög tala. Og ég er sammála þeim. Þrífótur er til dæmis gífurlega mikilvægur þegar að þú tekur myndir af jafn fallegum bíl og Mazda 3 er. Þrír fætur á kolli eru líka mikilvægir og þrír kaffibollar á kaffihúsi á meðan að þú skrifar þessa grein er líka fullkomið.

image

Mazda 3 lítur vel út hvar sem litið er á hann. Persónulega finnst mér bæði 4 og 5 dyra bílarnir fallegir, hvorn á sinn máta.

Það kom mér sérstaklega á óvart við fyrstu kynni mín við Mazda 3 hversu stórt skottið er í honum. Það var svo stórt reyndar að ég ákvað að skríða inní það og viti menn, öll 110 kílóin af mér komust fyrir og enn var nóg pláss.

image

Þægilegur staður til að vera á

Efnisval og útlit þess kom mér á óvart þegar ég settist fyrst inn í Mazda 3. Það er nokkuð klassískt og allt á sínum stað en hönnunin í kringum það er áhugaverð og vel úthugsuð. Fáar en fallegar línur og allt þar sem það á að vera.

image

Mælaborð Mazda 3 er látlaust og hefur fallegt yfirbragð.

Stjórntæki fyrir afþreyingarkerfið er alveg sérstaklega gott og auðvelt í notkun. Stór snúningshnappur og flýtitakkar fyrir öll helstu atriði auðvelda notkun kerfisins stórlega.

Og í því kerfi er allt það helsta. Blátannarbúnaður, Apple Carplay og Android Auto. Fyrir neðan skjáinn er síðan að finna nóg af öðrum búnaði bílsins eins og hita í sætum, stýri og allt þar fram eftir götunum. Fyrir framan ökumanninn er síðan upplýsingaskjár og er honum varpað í framrúðuna líka.

image
image

Umgengni um Mazda 3 er mjög auðvelt þökk sé hversu vel hurðarnar opnast bæði frammí og afturí. Takið eftir hönnuninni á höldunum á hurðaspjöldunum.

Plássið er síðan með ágætum, bæði fram í og líka í aftursætunum. Þar er einfalt mál að koma sér vel fyrir og væri ekkert mál að setja barnabílstól á sinn stað. Þar hjálpa staðlaðar ISOFIX festingar og gott hurðarop. Ég plantaði 10 mánaða syni mínum á hans stað í bílnum og uppskar frá honum engin öskur, engan grátur, aðeins augnaráð sem sagði: „Hvað er að gerast?“

Best af öllu er þó miðstöð bílsins sem hægt og rólega breytir hita og loftflæði með svo lítilli fyrirhöfn og hávaða að hún minnti helst á Pó í Stubbunum.

image

Lofttúður eru mjög vel staðsettar og miðstöðin hljóðlát.

Bara SPORT eða venjulegur

Í akstri er Mazda 3 ljúfur og lipur. Fyndnast er samt að hvergi er að finna einhverskonar sparaksturshnapp eða hjúp til að setja bílinn í. Ég fíla það. Bensínbíllinn sem ég hafði til prufu eyddi alveg eins og upp var gefið frá framleiðanda. Ég er líka þannig týpa að ég kann að meta þegar bíll mætir til dyranna eins og hann er smíðaður og settur saman.

image

Sportlegt stýri og sport takki ásamt risastórri og góðri gírstöng.

Sjálfskipting Mazda 3 var með eindæmum eftirtektarverð. Hún er lipur á milli gíra og þú tekur varla eftir skiptingum á henni. Það heillar mig líka að tengingin við hana er í gegnum stórt og kröftugt handfang sem þú grípur í og skellir í D til að aka.

Ekkert mál var að átta sig á stærðinni á bílnum þökk sé speglunum en nokkuð flókið var að átta sig á lengdinni. Þar til hjálpar kemur þó einstaklega góð bakkmyndavél og nálgunarvarar. Lipurleikinn í stýrinu hjálpar líka og er bíllinn sérstaklega þægilegur í alls kyns tilfæringum á bílastæðum og í þröngum götum.

image

Frammendi Mazda 3 fer ekkert framhjá neinum og nýtur Mazda merkið sín vel.

Lokaorð

Mazda 3 er vel útlítandi bíll sem hefur geggjaðan stíl og djarfa hönnun. Allar útgáfur af honum skarta sama fallega framendanum og valið á afturendanum er þitt. Þeir eru þó allir jafn flottir og framendinn. Mazda 3 er vel útbúinn bíll sem býður upp á helling af plássi fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Ég mæli með Mazda 3 fyrir alla þá sem leita sér að áreiðanlegum og góðum þjóni fyrir þig og þínar þarfir. Taktu hann fjögurra eða fimm dyra eftir því sem þú þarft og í SKY eða COSMO útgáfu, en hafðu litinn rauðan eða gráan.

Prufaðu svo að leggjast í skottið, það kemur þér á óvart hversu mikið pláss er þar.

Helstu tölur

Verð frá: 3.590.000 (Sept. 2019)

Vélar í boði: Bensín

Eyðsla frá: 5.2l/100km

Helstu tölur L/B/H/Hjólahaf: 4.660/1.795/1.440/2725mm

Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
VERÐ FRÁ.
SENSE
Framhjóladrif2.0L Beinskipting. 6 gíra Bensín213 - 150
SKY
Framhjóladrif2.0L Beinskipting. 6 gíra Bensín213 - 150
SKY
Framhjóladrif2.0L Sjálfskipting Bensín213 - 150
COSMO
Framhjóladrif2.0L Beinskipting. 6 gíra Bensín213 - 150
COSMO
Framhjóladrif2.0L Sjálfskipting Bensín213 - 150
COSMO MEÐ SKYACTIV X VÉL
Framhjóladrif2.0L Beinskipting. 6 gíra Bensín240 - 186
COSMO MEÐ SKYACTIV X VÉL
Framhjóladrif2.0L Sjálfskipting Bensín240 - 186
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Brimborg áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is