Reynsluakstur: Niro Plug in hybrid, árgerð 2019
Umboð: Kia

Aksturseiginleikar, rými, verð
Farangursgeymsla mætti vera stærri

Flottur fjölskyldubíll

Eins og oft áður í reynsluakstri á nýjum bíl lá leiðin úr umboðinu niður í miðbæ.  Ég var að sækja félaga minn sem ætlaði að taka bíltúr með mér á þessum athyglisverða Kia Niro plug-in-hybrid bíl sem Kia umboðið býður nú á frábæru verði.

Laglegur bíll

Kia Niro er ungur bíll í Kia fjölskyldunni og leit fyrst dagsins ljós árið 2016 á alþjóðlegu bílasýningunni í Chicago.  Bíllinn naut strax mikillar athygli ekki síst vegna þess hve litlu hann eyddi af eldsneyti í tvinnútgáfu.  Reyndar hlaut Kia Niro útnefningu fyrir að vera sparneytnasti tvinnbíllinn árið 2016 og er það met skráð í Heimsmetabók Guinnes.  Kia Niro tvinnbíl var þá ekið frá Los Angeles til New York og var eyðslan á hverja 100 km. skráð um 3 lítrar.

image

Fallegt útlit prýðir Kia Niro Plug in Hybrid bílinn.

Kia Niro er rúmgóður og fallegur bíll, vel búinn og kemur meðal annars með eftirfarandi staðalbúnaði, bakkskynjara, árekstrarvara, upphituðum útispleglum, skynvæddum hraðastilli, blátannarbúnaði, rafmagn í rúðum bæði að framan og afturí, LED afturljósum ásamt loftkælingu og USB og AUX tengi.  

image

Luxury gerðin er mjög vel búin.

Reynsluakstursbíllinn var af Luxury gerð og aukalega í honum eru meðal annars rafstýrt bílstjórasæti, fjarlægðaskynjarar að framan, lyklalaust aðgengi, regnskynjari, 220V tengi sem verður að segjast að er allgjör snilld í bíl sem þessum, leðuráklæði, 8 tommu snertiskjár, JBL hljóðkerfi með uppfærðu hátalarakerfi, LED lýsing inni í bílnum og sóllúga.  Snertiskjárinn er þokkalegur en ekki eins skýr og hraðvirkur eins og t.d. í VW bílum.

image

Hljóðlátur og þægilegur á alla kanta.

Fullkomið rafmagnsstýri Kia hélt bílnum á beinni braut innan akreinamerkinganna og ef maður heldur aðeins létt um stýrið sér maður að stýrið hreyfast eins og um sjálfstýringu væri að ræða.  Svo öflugt er radarkerfi Kia.  Kia Niro er búinn 6 þrepa DCT sjálfskiptingu, einstaklega þægilegri og maður finnur vart þegar hún skiptir bílnum – sama á hvaða hraða hann er.  

image

Stílhrein innréttingin er vönduð eins og Kia er von og vísa.

58 kílómetra á rafmagninu einu saman

Kia Niro er með um 58 kílómetra drægni á rafmagninu einu saman.  Vélin í Niro er 1,6 lítra bensínvél sem gefur samanlagt um 140 hestöfl.  Tengi tvinn búnaðurinn virkar þannig að upp að ákveðnum hraða ekur maður á rafmagninu en síðan tekur bensínvélin við.  Með því að blanda rafmagni og eldsneyti sem orkugjafa næst mun lægri koltvísýrings útblástur og minni eyðsla á eldsneyti.  Við erum á því að 140 hestöfl duga þessum bíl ágægtlega þó svo að bíllinn sé ekki snöggur frá kyrrstöðu upp í meiri hraða.  Einnig mætti vera meira tog í bílnum þegar orkugjöfin er botnuð og pælingin er að taka fram úr.

image

Rúmgóð aftursæti og nóg pláss fyrir langa leggi, bæði frammí og afturí.

Á malarvegi reyndist Kia Niro ákaflega mjúkur og maður fann varla fyrir ójöfnum.  Það sem kemur þægilegast á óvart hversu bíllinn er hljóðlátur þrátt fyrir að vélin sé í átaki.  Sætin eru þægileg og seturnar nægilega langar fyrir stóra ökumenn.  Fyrir miðju mælaborðsins er stafrænn upplýsingaskjár sem gefur upplýsingar um akstur bílsins, eyðslu, magn rafmagns og samspil rafmagns og eldsneytis í akstri.  Allt mjög einfalt og vel sett upp með það í huga að gera aksturinn auðveldan og áhyggjulausan fyrir ökumann.

image

Hægt er að aka á einungis rafmagni eða rafmagn og bensíni.

Smáatriðin skipta máli

Útlit Kia Niro er nýtískulegt og gleður augað.  Hugsað er um smáatriðin og til að mynda er allur frágangur á listum, krómi og hlífum mjög vandaður.  Innréttingin er laus við allt pjátur og efnistök ágæt.  Mælaborð er aðgengilegt og þar má finna 8 tommu upplýsingaskjá með öllu því helsta sem er í bílum dagsins í dag.  Þar er til dæmis íslenskt leiðsögukerfi og Apple Car Play and Android Auto.  

image

Einfalt og þægilegt upplýsingakerfi í mælaborði.

Okkar mat er að Kia Niro sé frábær fjölskyldubíll.  Bíllinn er rúmgóður og býr yfir öllu því helsta sem krafist er í bílum í dag.  Fótapláss frammí er með fínt og það sama er að segja um fótapláss og höfuðrými afturí -  jafnvel þegar um stóra fullorðna farþega er að ræða.  Skottið er svosem ekkert stærra en í sambærilegum bílum samkeppnisaðila en mætti alveg vera örlítið stærra sérstaklega ef hugsað er út í barnafólk sem vill ferðast um landið. Hægt er að velja um 10 liti og slatta af aukabúnaði í Kia Niro.

image

Hæg er að fella niður aftursætin 40/60.

Helstu tölur:

Verð frá: 4.490.777 kr. (Luxury reynlusakstursbíll 5.190.777 kr.) ágúst 2019

Vél: 1.600 rms

Hestöfl: 140 við 6.000 sn.

Newtonmetrar: 265 við 4.000sn.

0-100 k á klst: 10,8 sek.

Hámarkshraði í km/kls.: 172 á bensíni/120 á rafmagni

CO2: 29 g/km

Eigin þyngd: 1.576kg

L/B/H 4355/1805/1535 mm

Eyðsla bl ak: 1,3 l/100 km

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is