Reynsluakstur: Mitsubishi L200, árgerð 2020
Umboð: Hekla

Aksturseiginleikar, vinnsla, mýkt og búnaður
Armhvíla í framhurðum er óþægileg og úr hörðu plasti

Grjótharður vinnuþjarkur

Sjötta kynslóð Mitsubishi L200 hefur litið dagsins ljós.  Nú um miðjan mánuðinn kynnti Hekla nýjan og endurbættan L200 en bíllinn hefur fengið nokkuð mikla yfirhalningu frá síðustu gerð.  Í gegnum árin hefur þessi pallbíll verið vinsæll á markaðnum og með þeim nýjungum sem nú er boðið upp á gæti ég alveg trúað að kaupendahópurinn verði fjölbreyttari en áður.

image

Talsverð útlitsbreyting er á nýja L200 og síðustu útgáfu.

Minna rúmtak

Það fyrsta sem maður tekur eftir ef bornar eru saman fyrri árgerð og sú nýjasta er að rúmtak vélar er minna en nýi bíllinn er með 2,2 lítra 16 ventla, 150 hestafla MIVEC dísel vél með forþjöppu á meðan forverinn var með 2,4 lítra dísel vél sem skilaði um 180 hestöflum.  

image

Vélin er Common rail dísel vél, 150 hestöfl og togar 400 nm við 2000 snúninga. Eftirtektarvert hvað vinnsla vélar var góð og hentaði bílnum afar vel.

Nýja vélin er að sjálfsögðu smíðuð í takt við nýjustu evrópureglugerðir hvað varðar útblástur en uppgefinn útblástur er skv. WLPT staðli um 206 gr. á kílómeter.

image

Allur frágangur bílsins og samsetning er til fyrirmyndar.  Það er hátt undir bílinn og vönduð stigbrettin setja svip á bílinn.

Vel búinn

Það verður að segjast að hinn nýi L200 er hrikalega vel búinn.  Hann kemur með öllu því nýjasta í hjálpartækni og er þar á pari við vel búinn fólksbíl.  Instyle gerðin kemur til dæmis með akreinavara, árekstrarvara með bremsuvakt sem búinn er laser radar sem skynjar ökutæki eða gangandi vegfarendur.

image

Sterklegur, tilbúinn í ævintýrin.

Blindhornaviðvörun, sjálfvirk háuljós, skynjari fyrir aðvífandi umferð aftan að bílnum gefa merki í mælaborð og blikk í hliðarspegla, 360° myndavél og brekkubremsa er meðal búnaðar sem í boði er.

image

Instyle gerðin er með leðurinnréttingu.

Í samanburði við samkeppnina

Ef borinn saman við semkeppnina erum við að tala um Toyota Hilux, Ford Ranger og Nissan Navarra.  Nýi L200 bíllinn er með svipaðan hestaflafjölda og Toyota Hilux en er mun ódýrari. Nissan Navarra býður upp á 190 hestafla vél með sjálfskiptingu en hefur ekki fengið búnaðar og útlits uppfærslu nýlega en verðin og enn skorar L200 betur í samkeppninni hvað verð varðar.

image

Bakkmyndavél og bakkskynjarar - lok á palli er selt aukalega.

image

Hvernig er að keyra

Það er ljúft að aka nýjum L200, hann er mjúkur, sætin góð og halda vel við líkamann, nægt pláss báðu megin við fæturnar og maður situr vel í bílnum. Skiptingin er nokkuð nákvæm þó svo að það sé engin flugeldasýning þegar olíugjöfin er stigin í botn, enda ekki sportbíll á ferð. Maður finnur vel fyrir jeppaeiginleikum bílsins í akstri án þess að það trufli mann í bæjarakstrinum. L200 er með frekar stóran beygjuradíus og maður þarf að snúa stýrinu talsvert til að taka krappar beygjur eða þegar maður þurfti að snúa bílnum.

Uppfært fjórhjóladrif

Það sem einkennir nýjan L200 og gefur hönum töluverða sérstöðu á markaðnum er uppfært fjórhjóladrif sem er sídrif. Sídrifið gerir bílinn léttari í akstri og sérílagi í beygjum en síðan er hægt að setja bílinn í alvöru fjórhjóladrif þar sem hægt er að læsa drifinu og skipta aflinu jafnt á milli öxlanna. Mitsubishi, eins og svo margir bílaframleiðendur nútímans hafa sett inn forstilltar aksturstillingar sem þeir kalla Off Road Mode. Hægt er að velja um snjó, möl, drullu, sand eða grýtta yfirferð og þá samstillir tölvukerfi bílsins vélarafl, bremskukerfi og skiptingu (sjálfskiptingu) til að hámarka afköst hverju sinni.

image

Hér er allt sem þarf, Apple Carplay og Android Auto, skjár með góðri upplausn, bakkmyndavél og tvöföld tölvustýrð miðstöð.

Brekkubremsan er búnaður sem beitir sjálkrafa bremsum til að viðhalda hraða.  Hægt er að nota þennan búnað á bæði sjálfskiptum og beinskiptum bíl upp að 20 km. hraða á klukkustund.

Mitsubhishi L200 er með sjálfstæða fjöðrun að framan eðn stífan öxul og blaðfjaðrir að aftan.  L200 kemur með 75 lítra eldsneytistanki og hægt að fá fjölbreytt úrval aukahluta pantaða með bílnum.  Þar ber helst að nefna pallhús, útdraganlegur skúffur, rennilok á pall, klæðningu á pall og dráttarbeisli svo eitthvað sé nefnt.

image

Hekla býður upp á fjölbreytt úrval aukahluta með nýjum L200 og þar með vönduð pallhús.

Góður kostur

Okkar mat er að nýr Mitsubishi L200 er vel búinn vinnuþjarkur sem hentar vel í hestamennskuna, ferðalögin, útgerðina eða vinnuna. Verðið er mjög samkeppnishæft og bílinn sérlega vel búinn. Innrétting er látlaus en það sem helst mætti kvarta yfir er allt hið harða plast í mælaborði og hurðaklæðningum. Armhvíla í framhurðum er óþægileg.

image

Sérlega vel búinn fjórhjóladrifinn pallbíll á hagkvæmu verði.

Velja má úr fjölda lita en Hekla býður bílinn í 9 litum og þremur gerðum.

Helstu mál:

Verð frá:  5.490.00 kr. Reynsluakstursbíll, Instyle 6.990.000 kr. (nóvember 2019)

Pallur - innanmál:

Lengd: 1520 mm

Hæð: 475 mm

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is