Reynsluakstur: Peugeot 508, árgerð 2019
Umboð: Brimborg

Einstakur, fagur og ljúfur

Hvað færðu ef þú blandar saman praktískum fimm dyra fjölskyldubíl, franskri hönnun, sportlegu útliti og póstalausum gluggum? Þú færð 508.

image

Áður en við hefjum þennan pistil skal ég taka eitt fram: Ég elska Frakkland. Ég elska franska menningu, franskt smjör, franskt vín, osta, koníak, bíómyndir og franska hönnun. Ég elska að Frakkland sé tæknilega gjaldþrota en reki eitt stærsta og flottasta listasafn í heimi, Louvre safnið í París. Ég elska slagorð þeirra: Liberté, égalité, fraternité. Ég hef eflaust í einhverjum af mínum fyrri lífum verið franskur. Því er engin furða að ég hafi kynnst, og seinna kvænst, konu sem hefur alltaf ekið um á frönskum bíl.

Það er því engin furða að Peugeot 508 talaði til mín eins og nýbakað Crossaint og kaffibolli.

image

Framendinn á 508 tekur sig vel út á götum landsins. Prufubíllinn sem við höfðum var Allure útgáfa en næsta gerð fyrir ofan, GT Line, kemur með LED ljósum og gefa þau bílnum enn sterkari svip.

Sportleg og flott hönnun

Brimborg á Íslandi kynnti nýlega Peugeot 508 í endurhannaðri útgáfu og hefur bílinn verið kynntur sem ný upplifun og nýtt val fyrir fólk. Fimm dyra hlaðbakur með sportlega aksturseiginleika en samt hagkvæmur og með mikið notagildi.

image

Hurðirnar í bílnum eru ekki með neina burðarpósta í kringum rúðurnar og gefur það bílnum frábært útlit þegar þær eru opnaðar. Þær opnast líka vel og veita gott aðgengi.

Þakið leggst niður í fallegri línu sem tengist vel saman við afturenda bílsins. Ljósahönnunin á afturljósunum er sérstaklega flott. Skottið opnast svo hátt og vel og felur vel að þetta sé í raun hlaðbakur.

image

Skottið opnast vel og er auðvelt að hlaða í alla 487 lítrana af plássi í boði.

I-cockpit og innanrými

Búnaðurinn í 508 er til fyrirmyndar í þessum verðflokki á bíl. Fyrir framan bílstjórann er stafrænt mælaborð sem hægt er að stilla á fjóra mismunandi vegu. Grafíkin er flott og skemmtileg með fallegar hreyfingar á milli breytinga sem þú framkvæmir í gegnum stýrið. Þar er líka hægt að hafa Íslandskortið í fullri stærð ef þú þarft að nota það til aksturs á milli staða. Í miðju er 10 tommu snertiskjár þar sem þú átt í samskiptum við bifreiðina. Hann er bjartur og fyrir neðan hann er stórir flýtitakkar. AppleCarplay og Android Auto eru í boði ásamt þráðlausri hleðslu í litlu rými í miðjustokki. Gírstöngin er líka flott hönnuð og sæmir þessum bíl vel. Það að hún skuli vera svona lítil gerir þér kleift að geyma til hliðar við hana í litlu gúmmíklæddu hólfi smáhluti eins og veski eða lykla.

image

Innanrými 508 sæmir sér vel við útlitið og hér er efnisval alveg til fyrirmyndar. Mjúk plöst og flott áklæði á sætum sem veita góðan stuðning.

Framúrskarandi aksturseiginleikar

Peugeot 508 liggur mjög vel á vegi og hallar lítið í beygjum. Vélin hefur breitt togsvið og þýðir það að hann hoppar ekki mikið á milli gíra heldur nýtir togsviðið vel. Hann er kvikur í stýri og er það lítið og nett í höndum manns. Veglínuskynjarinn virkar vel og það sem Peugeot kallar ökumannsvaki (Driver Alert á ensku) er mjög duglegt að vara þig við ef þú ert komin of nálægt bíl á móti eða ef bíllinn fyrir framan þig nauðhemlar skyndilega. Reynslubílinn var líka með blindhornaviðvörun og skýr bakkmyndavél ásamt fjarlægðaskynjurum allan hringinn gerði það mjög auðvelt að leggja honum. Allt þetta gerir þér kleift að njóta akstursins og hjálpar mikið hversu tengdur veginum bílinn í raun er. Það að hann sé svo að eyða innan við fjórum lítrum á hundraði gerir aksturinn enn betri.

image

Hér má sjá 1.5 lítra 130 hestafla dísel vélina. Mjög flott er líka að sjá tölustafi í nafni bílsins fyrir framan húddið.

Lokaorð

Það færist í aukana að fólk sé frekar að fá sér jepplinga frekar en fólksbíla. En þegar í boði er jafn fagur bíll og Peugeot 508 er erfitt að skilja af hverju þú myndir velja þér jeppling í staðinn fyrir hann. Hann sameinar flotta hönnun við mikið notagildi og ódýrari rekstrarkostnað. Ég mæli með Peugeot 508 fyrir alla þá sem eru að leita sér að flottum og vel hönnuðum bíl á heimilið. Dökkir litir fara honum vel en þar sem ég er svo bjartsýnn þá mæli ég með honum í ljósu, eins og hvítu eða rauðu. Ég eiginlega mæli bara með honum í rauðu og GT line því þannig er hann hrikalega flottur í útliti. Og rautt leður, það kostar bara 30 þúsund krónur í viðbót.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is