Reynsluakstur: Jeep Compass, árgerð 2018
Umboð: Ísband

image

‍Jeep Compass Limited – eigulegur jeppi með góða veghæð: 22 cm undir lægsta punkt.

Jeppar, stórir sem smáir, hafa jafnan notið mikilla vinsælda meðal íslenskra bílaeigenda. Raunar er það svo í dag að stór hluti hins raunverulega „fólksbílamarkaðar“ er undirlagður af bílum sem í raun og veru eru ekki „jeppar“ sem slíkir, en veita samt notagildi og akstursupplifun eins og að þeir væru á jeppa. Nægir þar að nefna bíla á borð við „bíl ársins“ Peugeot 3008, Nissan Qashqai, VW Tiguan og Skoda Karoq.

Hlaðinn búnaði

Söluaðili Jeep á Íslandi í dag er Ísband í Mosfellsbæ og þar á bæ var mér fenginn í hendur Limited-útgáfan af Compass með dísilvél og töluvert af aukabúnaði, svo sem pakki sem aðstoðar við að leggja í stæði (með bakkmyndavél og fleiru), upplýsingatæknipakki, sem býður upp á stærri skjá í mælaborði, leiðsögukerfi og fullkomnari hljómtæki. Til viðbótar var þessi bíll búinn tvöföldu glerþaki og 19 tommu álfelgum. Til viðbótar er ýmis staðalbúnaður sem fjallað er um hér á eftir.

image

‍Mælaborð og stjórntæki eins og best verður á kosið.

Aðeins um innanrýmið

Það er þægilegt að aðlaga framsætin að þörfum ökumanns og farþega og sama á um stýrið. Yfirsýn fram á veginn er góð vegna stöðu sætis sem býður upp á gott útsýni fram yfir vélarhlífina.

Fínn innanbæjar – bestur á góðum þjóðvegi

Það fór ekki á milli mála að það var dísilvél undir vélarhlífinni þegar sett var í gang, en sú tilfinning hvarf alveg þegar ekið var af stað. Góð hljóðeinangrun og léttur gangur eyðir greinilega „dísilhljóðinu“ nær alveg í venjulegum akstri. Það er aðeins þegar gefið er hressilega inn sem dísilvélin minnir á sig aftur. Fyrir mína parta mætti þessi tveggja lítra dísilvél vera snarpari, en hún togar mjög vel og heldur bílnum á góðri siglingu.

image

Arfleifðin frá eldri gerðum Jeep er sýnileg á framendanum.‍

Snögg fjöðrun í holum

Ein og getið var í inngangi var búið að setja 19 tommu álfelgur undir bílinn, sem gerir það að verkum að dekkin eru með minna loftrými og fjaðra minna. Í öll þau ár frá árinu 1972 sem ég ef verið að reynsluaka bílum eru ákveðnir vegakaflar sem hafa verið notaðir til samanburðar. Einn þeirra er „Hafravatnshringurinn“ og sem betur fer hefur malavegskaflinn norðan við vatnið fengið að halda sér óbreyttur öll þessi ár, og þar er enn að finna ágætar holur á malaveginum sem reyna vel á fjöðrunina.

image

Þegar vélarhlífin er opnuð sést ekki mikið af dísilvélinni sem sér bílnum fyrir nægu afli.‍

Góður „vinnustaður“ ökumanns

Ökumaðurinn hefur ágæta yfirsýn yfir öll stjórntæki þegar sest er undir stýri. Líkt og í allflestum bílum í dag er búið að þrengja að ökumanninum, sem er bæði kostur og galli. Kostur er að það er styttra að ná til stjórntækja, sumu er stýrt með hnöppum í stýrishjóli, öðru með hnöppum og búnaði í mælaborði og enn öðru með snertihnöppum á skjánum. Skjástýringarnar er best að framkvæma áður en ekið er af stað, því ella missir ökumaðurinn athyglina fram á veginn. Skjárinn er líka eins aðgengilegur fyrir farþega í framsæti, sem getur þá gripið inn í stillingar á miðstöð, útvarpi eða leiðsögn ef þarf.

image

‍Góð hönnun á afturenda

Einfaldur stjórnbúnaður fjórhjóladrifs

Ekki eru lengur neinar skiptistengur til að setja í hátt eða lágt drif, aðeins stór snúningsrofi í miðjustokki, sem læsir „Select-Terrain“-fjórhjóladrifinu, og síðan er rofanum snúið til að velja akstursaðstæður, sjálfvirka stillingu, snjó, sand eða drullu.

image

‍Hér er stór snúningsrofi í miðjustokki, sem læsir „Select-Terrain“-fjórhjóladrifinu, og síðan er rofanum snúið til að velja akstursaðstæður, sjálfvirka stillingu, snjó, sand eða drullu.

Gott aðgengi að framsæti, þrengra að aftursæti

Í heildina litið er ágætt aðgangi að Compass. Framhurðir opnast vel og veita mjög gott aðgengi. Það er passlega hátt upp í þennan bíl fyrir flesta.

image

‍Farangursrýmið er rúmgott – 468 lítrar og afturhlerinn opnast vel upp.

Góð baksýnismyndavél

Í þessum bíl var aukapakki með aðstoð til að leggja í stæði og góðri bakkmyndavél. Ég hef prófað bakkmyndavélar í nokkrum bílum, en þessi er afbragð. Stór skjárinn og tilvísunarlínur sem birtast á skjánum gera það að verkum að hægt er að bakka viðstöðulítið og örugglega.

image

Bakkmyndavélin er mikill kostur í Jeep Compass – aukabúnaður sem ætti nánast að vera sjálfsagður.‍

Niðurstaða

Jeep Compass Limited er með þeim búnaði sem var í þessum bíl er mjög svo álitlegur bíll fyrir alla þá sem vilja halda í „jeppatilfinninguna“ en sameina jafnframt kosti góðs fólksbíls.

image

‍Gott aðgengi að framsætum og gott fóta- og höfuðrými.

image

‍Þótt þessi bíll sé með stóru opnanlegu glerþaki er nægt höfuð- og fótarými fyrir fullorðna. Aðeins þrengra aðgengi að aftursætum en framsætum.

image

Aðgengilegur miðjustokkur með sjálfskiptistöng og stjórnbúnaði fyrir fjórhjóladrif. USB-tengi og tengi fyrir 12 volta rafbúnað. Annað USB-tengi er einnig fyrir aftursætið.‍

Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
Limited
Fjórhjóladrif1.3L Sjálfskipting. 6 gíra Bensín, Rafmagn270 - 24011.4 kWh50 km
Trailhawk
Fjórhjóladrif1.3L Sjálfskipting. 6 gíra Bensín, Rafmagn270 - 24011.4 kWh50 km
Trailhawk+
Fjórhjóladrif1.3L Sjálfskipting. 6 gíra Bensín, Rafmagn270 - 24011.4 kWh50 km
“S”
Fjórhjóladrif1.3L Sjálfskipting. 6 gíra Bensín, Rafmagn270 - 24011.4 kWh50 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Ís-Band áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is