Reynsluakstur: Tesla Model Y Performance, árgerð 2022
Umboð: Tesla

Afl, drægni, útlit, þægindi, tækni
Ekki hægt að stilla orkuendurheimt (regenerative charging)

Tesla Y er fljótur, flottur og fullkominn

Tesla Model Y Performance er kominn til landsins. Við vorum svo heppin hjá Bílabloggi að vera boðið að taka fyrsta bílinn sem lenti hjá þeim í Tesla til reynsluaksturs en hann er einn af þeim fyrstu  sem runnu út úr splunkunýrri Tesla verksmiðju í Berlín í Þýskalandi.

image

Hraðbrautarbíll

Við hófum aksturinn með bíltúr suður með sjó. Okkur langaði að vita hvernig bíllinn reyndist á einu sæmilegu „hraðbrautinni“ á Íslandi. Og jú, hann sannaði sig heldur betur.

image

Það væsir ekkert um ökumann og farþega í þessum vagni.

Við náttúrulega héldum löglegum hraða eins og vera ber en Teslan lá eins og sleggja á veginum í sportstillingunni.

image

Hurðarhúnar falla inní hurðir bílsins.

Fjöðrunin er að sjálfsögðu pínu stinn enda er þetta meiri sportbíll en Long Range útgáfan sem hefur verið í sölu hér frá í fyrra.

image

360° myndavélakerfi eykur öryggi og vaktar umferð.

Kraftar í kögglum

Tesla gefur ekki upp hvað bíllinn er mörg hestöfl en það eru reyndar einhverjir búnir að reikna þau út. Ef miðað er við þá útreikninga erum við að tala um 462 hestöfl, 639 Nm í tog og 250 kílómetra hámarkshraða.

image

Hægt er að hlaða bílinn allt að 250 kW á klukkustund í Supercharger stöðvum víðsvegar um landið.

image

Plássið er nægt - alls staðar.

Það er ansi vel í lagt á bíl sem hugsaður er sem fjölskyldu/sport/ferða bíll. Rafhlaða bílsins er býður upp á 75 nothæfar kWst. og kemur bílnum um 514 kílómetra við bestu aðstæður skv. WLTP staðlinum.

image

Eftir akstur til Keflavíkur og til baka og töluverðan bæjarakstur inn á milli var rafhlaðan hálf. Þá skal tekið tillit til þess að við vorum að sjálfsögðu ekki að spara orkuna, tókum gjarnan snöggt af stað og slógum svo af.

image

Samsetning á innréttingu og efnisval er allt hið vandaðasta.

image

Enn og aftur pláss.

Ég heyrði í leigubílstjóra um daginn sem ekur Long Range útgáfu bílsins og hann segist leikandi fara þrjár ferðir fram og til baka til Keflavíkur. Tekið skal fram að útihiti hefur talsvert mikil áhrif á drægni bílsins.

Eins og að drekka vatn

Ef að einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort það sé eitthvað flókið eða truflandi að það sé bara eitt stykki skjár í bílnum en engir takkar – þá er svarið: alls ekki. Maður kemst furðufljótt upp á lag með það að hafa skjáinn bara til viðmiðunar til dæmis hvað hraða og umferð varðar en þær upplýsingar má sjá á skjánum meðan þú ert að aka. Ef þér er kalt eða heitt getur þú einfaldlega notað raddskipanir til að stilla hitastigið.

image

Hurðir opnast vel og auðvelt er að stíga inn og út úr bílnum. Þú sest inn í bílinn en ekki ofan í hann.

image
image

Stundum kallað "frunk" en þetta er geymsluhólf fram í bílnum.

Við mælum með því að horfa á myndbandsbloggið með þessari grein. Þar förum við vel yfir virknina á skjánum og stillingar.

Grunnstillingar eru eitthvað sem við eigum bara við þegar bíllinn er kyrrstæður. Þá erum við að tala um virkni á þurrkum, ljósum og öðrum þáttum sem við viljum hafa eins fyrir okkur sem ökumenn.

Fullkomið app

Með appinu getur þú stýrt aðgengi að Teslunni þinni, þú getur stillt „skynbragð“ bílsins þannig að hann taki upp mannaferðir ef einhver sem ekki á að vera á ferli er á vappi í kringum bílinn.

image

15 tommu skjárinn er ekkert einmana þarna í mælaborðinu.

image

21 tommu álfelgur setja sterkan svip á bílinn.

Þú getur stillt hita/kælingu með appinu og aðgangi að bílnum. Þú getur síðan stillt bílinn þannig að hann uppfylli þínar þarfir varðandi til dæmis sætisstöðu, hitastig og lýsingu þegar þú ert að nota hann.

Ef þú átt maka – getur hann stillt bílinn þannig að hann uppfylli hans þarfir þegar nota á bílinn.

image

Stílhreinn er orðið sem kemur upp í hugann.

Hugsað fyrir öllu

Tesla Y Performance er ansi hljóðlátur bíll. Þar kemur sterkt inn að hann er með tvöfalt gler bæði að framan og aftan. Þú heyrir ekki einu sinni neitt hljóð þegar þú halar rúðunni upp eða niður.

image

Tesla Model Y er framleiddur í splunkunýrri og fullkominni bílaverksmiðju í Berlín í Þýskalandi.

Gagnrýnendur hafa beinlínis haft fyrir því að finna eitthvað að Tesla bara til þess að finna eitthvað að. Við prófuðum til dæmis að taka á miðjustokknum, hann var pikkfastur, við prófuðum að djöflast í sætunum, þau héldu mjög vel við í beygjum, við skoðuðum samsetninguna og bil á milli boddýhluta, þau voru í toppstandi enda nýr Tesla Y framleiddur í splunkunýrri verksmiðju Tesla í Berlín í Þýskalandi.

Sífelld vöruþróun

Það var einnig einróma álit gagnrýnenda að samsetning Tesla hefði snarbatnað við opnun einnar fullkomnustu bílaverksmiðju í heimi sem Tesla rekur í Shanghaí. Enda hefur Tesla, sem og margir aðrir bílaframleiðendur, ekki haft undan við að anna eftirspurn.

image

Línan í þessum bíl er sérlega falleg.

Pláss og aftur pláss

Það er flennipláss í aftursætum, gott inn- og  útstig, gott höfuðpláss og skottplássið er náttla bara í einu orði sagt fáránlega gott. Það eina sem við tókum eftir að seturnar í aftursætunum voru kannski fullstuttar fyrir stóra menn eins og okkur Pétur enda erum við með langa skanka báðir tveir.

image

Hurðaropnun með rafmagni að hætti Tesla.

Annað atriði, smáatriði þó er að ekki er hægt að stilla „orkuendurheimtina“ eða regenerative charging á þessum bíl.

Sumum finnst slík „hemlun“ truflandi en þetta er atriði sem venst á fyrstu vikunni við akstur á Teslu. Endurheimt orku er svipuð tilfinning eins og þú sért að hjóla með dýnamó á reiðhjóli.

Öruggur á alla vegu

Tesla Y Performance er í senn fjölskyldu-, sport-, og ferðabíll sem tikkar í boxin hjá flestum þeim sem vilja eiga hagnýtan og flottan bíl. Hann hentar í skreppið og skutlið ekki síður en stóra og góða útilegu með fellihýsið aftan í.

image

Í kyrrstöðu getur þú vafrað, horft á Youtube, Netflix og Disney Plus eða spilað tölvuleiki.

Við mælum samt með að þú akir ekki á möl á 21 tommu Überturbine felgunum.

Tesla er búinn öflugum akstursaðstoðarkerfum. Hann hefur fengið toppeinkunnir í árekstraprófunum og stóðst til dæmis „moose“ prófið [elgsprófið] með glæsibrag.

image

Einfalt, skýrt og skilvirkt.

Helstu tölur:

Verð frá 9.274.364 kr. skv. upplýsingum á vef Tesla 23.5.2022

Rafhlaða: 75 kWh.

Dráttargeta: 1.600 kg.

Hæð undir lægsta punkt: 14 sm.

Drægni: 514 km.

0-100 km á klst.: 3,7 sek.

Farangursgeymsla: 2.158 lítrar að hámarki.

CO2: 0 g/km.

Þyngd: 1.995 kg.

L/B/H: 4750/1920/1623

Myndataka og myndvinnsla: Dawid Galiński.

Útfærsla
Drif
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
Staðalbúnaður
Afturhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn350 - 20450 kWh455 km
Long Range
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn527 - 35175 kWh533 km
Performance
Fjórhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn639 - 46275 kWh514 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Tesla á Íslandi áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is