Bílasafnarinn mikli - Jay Leno

Einn þekktasti bílamaður heims í dag er án efa bandaríski skemmtikrafturinn Jay Leno, en hann hefur áratugum saman verið haldinn ólæknandi bíladellu á háu stigi, svo háu að í safni hans eru núna nærri 300 ökutæki. En það er hvorki einfalt né ódýrt að eignast svona stórt bílasafn, þannig að margir spyrja sig, hvaða maður er þetta eiginlega? Jay, eða James Douglas Muir Leno, eins og hann heitir fullu nafni, fæddist árið 1950 í New Rochelle í New York-ríki. Móðir hans var skoskur innflytjandi en faðir hans af ítölskum ættum.

Eftir að hafa starfað sem uppistandari í nokkrum klúbbum í Pittsburgh og víðar fetaði hann sig nær vesturströndinni og fékk nokkur minniháttar hlutverk í kvikmyndum áður en hann birtist fyrst í sjónvarpsþættinum The Tonight Show árið 1977.

Enn áttu þó eftir að líða 15 ár þangað til hann tók endanlega við þeim þætti, en í millitíðinni kom hann fram í fjölda kvikmynda og uppistandsþátta.

Talið er að í eigu hans séu 286 farartæki: 169 bílar og 117 mótorhjól. Til að halda öllu gangandi réð hann verkstæðisformann og nokkra starfsmenn sem annast uppgerð og viðhald bílanna.

Í safninu má finna fjölda verðmætra fornbíla, þar á meðal Doble-gufubíla og Duesenberg-eðalvagna, auk fjölmargra rafmagnsbíla frá upphafsárum þeirra, en slíkir bílar voru algengari sjón á fyrstu áratugum síðustu aldar en margir halda. Jay Leno var einu sinni spurður að því hverju hann þakkaði velgengni sína og nefndi hann sérstaklega konu sína Mavis og þvílík guðsgjöf það væri að geta haldið sig við sömu konuna alla ævi, því fátt er dýrara en að þurfa að skipta um konu! Því miður hefur þeim ekki orðið barna auðið og verður spennandi að vita hvað verður um ökutækjasafn meistarans þegar hann hverfur yfir móðuna miklu. Vonandi þurfum við þó að bíða lengi eftir því.

image

Buick

Jay Leno er svo lánsamur að eiga ennþá fyrsta bílinn sem hann eignaðist árið 1972, en það er ´55 Buick Roadmaster. Eftir að hafa staðið lengi óhreyfður í safninu var tekin ákvörðun um að gera hann upp á æði róttækan hátt með því að gera hann að alvöru kraftabíl án þess þó að breyta neinu í ytra útliti hans.

Undir húddinu er 572 kúbika (9,4 lítra) V8-vél sem afkastar 620 hestöflum og allur undirvagninn hefur verið endurbættur til samræmis við þetta mikla afl.

Hjólin voru t.d. stækkuð upp í 17 tommur og hjólkopparnir síðan handsmíðaðir í upprunalegu útliti. Eins og gefur að skilja er bíllinn afar öflugur og hefur Jay mikla ánægju af því að elta uppi kraftmikla sportbíla á þessum forna fjölskyldubíl og skilja þá síðan eftir í reyknum.

image

Duesenberg

Jay Leno á nokkra Duesenberg-bíla í safni sínu, m.a. einn sem kvikmyndaleikarinn Clark Gable átti forðum, en eins og flestir vita eru þetta meðal allra verðmætustu fornbíla samtímans. Til að eignast slíkan eðalvagn þarf að punga út að minnsta kosti einum milljarði króna.

image

Doble

Meðal merkilegustu og verðmætustu bílanna í safni Jay Leno eru tveir Doble-bílar, en þessir einstöku gufubílar voru í eina tíð dýrustu bílar heims, hugarfóstur snillingsins Abner Doble, sem smíðaði sinn fyrsta gufubíl aðeins 16 ára gamall árið 1911. Það sem þótti merkilegast við Doble-bílana var óvenju hraður upphitunartími þeirra; sem var ekki nema 40 sekúndur, en til samanburðar var Stanley heilar 30 mínútur að ná upp nothæfum gufuþrýstingi.

Ástæðan var rafrænn kveikibúnaður og afar öflugur hraðsuðuketill. Doble-bílar voru einungis á færi auðmanna því verðmiðinn var gríðarlega hár, eða á bilinu 8800 til 11.200 dollarar, á sama tíma og nýr Cadillac kostaði 2000 dollara.

Einungis nokkur hundruð Doble-bílar voru handsmíðaðir á árunum 1914 til 1931, en þá varð fyrirtækið kreppunni að bráð.

image

Detroit Electric

En það eru ekki bara gufubílar sem vakið hafa áhuga Jay Lenos, það hafa rafmagnsbílar líka gert. Og þá erum við ekki að tala um Leaf og Tesla, heldur gömlu rafmagnsbílana frá upphafi bílaaldar, þeirra á meðal Detroit Electric.

Útlit þeirra er hins vegar 100% upprunalegt, þar á meðal innréttingin sem minnir um margt á huggulega setustofu frá 19. öld, með plussklæddum stólum og blómavasa í glugga.

image

Hot Rod

Jay Leno lumar á mörgum furðulegum bílum í safni sínu sem jafnvel eru hans eigin hugarsmíð og handsmíð starfsmanna hans. Einn þessara bíla er hinn fullkomni Hot Rod eða Ultimate Hot Rod eins og hann er kallaður vestra.

Fyrir utan gríðarlega stærð, en þessi bíll er rúmlega sex metrar að lengd, er vélbúnaðurinn æði merkilegur.

Undir húddinu er nefnilega 1600 hestafla Chrysler-skriðdrekamótor sem ættaður er úr Kóreu-stríðinu, en þessi hrikalega vél vegur tæpt tonn og eyðir litlum hundrað lítrum á hundraðið!

image

Jaguar

Jay Leno hefur óbilandi áhuga á evrópskum sportbílum og á fjölmarga slíka í fórum sínum, jafnt ítalska, þýska sem breska. Jaguar er í sérstöku uppáhaldi hjá honum og það kemur engum á óvart að E-gerðin er þar framarlega í hópnum, enda meðal best hönnuðu bíla allra tíma.  

image

Shelby Cobra

Það eru ekki bara evrópskir sportbílar sem eiga hug og hjörtu Jay Leno heldur einnig sá bandaríski sem mesta frægðina hefur öðlast, Shelby Cobra, en hann er einn hraðskreiðasti götubíll sem framleiddur hefur verið. Þessi 1147 kg bíll er knúinn áfram af 427 kúbika (7 lítra) V8-vél sem afkastar heilum 416 hestöflum og kemur honum í hundraðið á einungis 4,2 sekúndum.

Þessir bílar eru ekki fyrir neina viðvaninga og meira að segja reyndustu ökumenn eiga í fullu fangi með að hemja þá. En hér reynir á fáa, því ekki voru framleidd nema 348 eintök af Cobrunni.

image

Hudson

Þrátt fyrir gríðarlegan áhuga á dýrum lúxusbílum og sportvögnum hefur Jay Leno sýnt markverðan áhuga á millistéttarbílum liðins tíma og verið duglegur við að safna þeim og gera upp. Meðal þeirra eru nokkrir Hudson-bílar sem í eina tíð þóttu áreiðanlegir og vandaðir bílar, en urðu að lokum undir í harðri samkeppni við risana þrjá, einkum vegna skorts á V8-vél.

Þessir bílar voru hins vegar engar liðleskjur, því undir húddi þeirra leyndist aflmikil 308 kúbika (5 lítra) sex strokka línuvél sem skilaði þessum bílum yfir sigurlínuna í NASCAR-keppnum mörg ár í röð á fyrri hluta sjötta áratugsins.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is