Hægan hægan! Hvað á þessi fyrirsögn að fyrirstilla ?

„Já, merkisár, 1955. Árið, sem bílar voru bílar og menn voru menn.“

Þykir hverjum sinn fugl fagur?

Þetta er athyglisvert en áður en rýnt er í innihald greinarinnar er rétt að blaðamaður létti á hjarta sínu. Þannig er að góður vinur minn, sem fæddur er á því herrans ári, 1955, hefur löngum sagt að ekki hafi verið framleiddur fallegur bíll síðan 1955. Hefur hann í því samhengi nefnt eina bíltegund: Chevrolet Bel Air. Ekki hefur hann fært frekari rök fyrir þessari fullyrðingu.

Hef ég alltaf hugsað að auðvitað þyki honum bíllinn sá fegurstur sem tengist fæðingarári hans sjálfs.  

Svo fór ég að skoða bílana frá fæðingarárinu mínu, 1981. Snöggt og ákveðið varð tilgáta mín, um fegurð bíla og tenginguna við fæðingarár manns sjálfs, að engu.

image

Chevrolet S-10. Mynd/Wikipedia.

Isuzu Trooper (mynd óþörf og finnst ekki...).

image

DMC DeLorean (sko! Það kom eitthvað framúrstefnulegt á þessu ári!) Mynd/Unsplash.

image

Suzuki CV1. Mynd/Wikipedia.

Jú, bílarnir eru fleiri sem kynntir voru árið 1981 en þetta er nóg. Meira en nóg!

BÍLAR SEM KOMU ÁRIÐ 1955 (nokkur dæmi):

image

Jaguar Mark 1 (þessi er reyndar ´57). Mynd/Wikimedia.

image

Bel Air. Mynd/Unsplash.

image

Bentley S1. Mynd/Wikipedia.

Æj, jájá! Þá það! Ég játa mig sigraða… Þeir voru magnaðir bílarnir sem brunuðu fram á sjónarsviðið árið 1955. Og nú aftur að fyrirsögninni og greininni úr Morgunblaðinu 1978!

Ætti ekki að vernda gamla bíla eins og gömul hús?

Greinin góða er eftir Björn Emilsson og er umfjöllunarefnið sex strokka Ford´55 sem bílaáhugamaðurinn Vilhjálmur Ástráðsson keypti árið 1975 og gerði upp.

En hvernig ætli standi á því, að flestum er fyrirmunað að hugsa á svipaðan hátt til bíla? Eru þeir ekki þess virði að vernda?

Geta þeir ekki verið völundarsmíð, listaverk?“ skrifar Björn Emilsson, greinarhöfundur og tekur svo fram að sem betur fer séu þeir til sem láta sér annt um gamla bíla og nefnir þar Ford´55:

En af hverju 1955?

Segir í greininni að árið 1955 hafi í raun skapast nýtt tímabil í bifreiðasögu Íslands.

„T.d. var afturrúðan meira hallandi og bíllinn á allan hátt „drossíulegri“ en áður. Já, merkisár, 1955. Árið sem bílar voru bílar og menn voru menn,“

Hvernig „menn voru menn“ árið 1955 er ekki úrskýrt frekar í greininni en sagan af Fordinum er góð og í stuttu máli er hún sú að hann var í upphafi leigubíll, síðar endurbyggður og notaður sem fjölskyldubíll og enn síðar „harðsnúinn kvartmílubíll“.

Þáði hluti úr fjórum meðbræðrum

Ellefu árum eftir að bíllinn kom „gljáfægður frá Detroit til Reykjavíkur“ hafði hann „þegið hluti úr fjórum meðbræðra sinna,“ segir í greininni. Já, líffæragjafir er kannski ekki orðið en í það minnsta var ýmislegt gert til að Ford´55 héldi lífi. Leyfi ég mér að vitna í niðurlag greinarinnar áður en ég varpa fram spurningu til ykkar, lesendur góðir:

„Hann er vaxinn upp úr fjallaferðum og verður eftirleiðis hafður inni á vetrum,“ segir Villi.

Þar hefur hann nægan tíma til að hugsa um fortíðina frá því hann var ungur leigubíll og ók um bæinn með elskendur í aftursætinu. Flestir gömlu´55 vinirnir eru farnir. Hvað um það, Fordinn á framtíðina fyrir sér. Eins dauði er annars brauð, eða varahlutir.“

Hvar er hann nú?

Stórkostleg skrif hjá Birni Emilssyni í Morgunblaðinu árið 1978. Greinina í heild má lesa hér.

[Greinin birtist fyrst í júní 2021]

Þessu tengt: 

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is