Honda lýkur rafvæðingu flota síns í Evrópu með nýju kynslóðinni af Civic hlaðbaknum. Í Evrópu verður Civic aðeins fáanlegur sem blendingur eða „hybrid“. Þetta er á meðal þess sem framleiðandinn greindi frá í yfirlýsingu í dag, 24. júní.

Nýi bíllinn mun nota aflrás bílaframleiðandans e:HEV (tvinn rafbíll) sem er tenging 1,5 lítra bensínvélar við rafmótor.

Civic hybrid verður seldur samhliða Jazz hybrid og CR-V hybrid sportjeppanum. Nýr HR-V hybrid, lítill sportjeppi á að fara í sölu í Evrópu síðar á þessu ári en Honda selur einnig E-rafbílinn í Evrópu.

image

Honda segist hafa bætt aksturseiginleika nýja Civic með stífari yfirbyggingu og 19 prósent bætingu á snúnings-/togstífni miðað við fyrri gerð.

Honda mun ekki lengur smíða evrópuútgáfu Civic í Swindon á Englandi. Verksmiðjunni verður lokað í júlí þegar bílaframleiðandinn dregur saman alþjóðlegt framleiðslunet sitt. Honda hefur ekki ljóstrað því upp hvar evrópsku gerðirnar verða smíðaðar.

image

Honda hefur staðfest að hlaðbakurinn muni verða grunnur nýrrar kynslóðar af gerð R (sportlegri gerð) sem kemur árið 2022 en ekki hefur verið staðfest að sá bíll verði fáanlegur í Evrópu.

11. kynslóð Civic var í dag frumsýnd á kynningu sem fram fór á netinu (sjá myndband hér að neðan) fyrir sölu á sumum mörkuðum síðar á þessu ári; þar á meðal í Japan og Bandaríkjunum.

Civic hlaðbakurinn verður smíðaður í Bandaríkjunum í fyrsta skipti, í verksmiðju Honda í Greensburg í Indiana. Hlaðbaksútgáfan var áður flutt út til Bandaríkjanna frá Swindon verksmiðjunni.

Betri aksturseiginleikar

Honda seldi 17.008 Civic-bíla í Evrópu á síðasta ári og dróst salan saman um 54 prósent frá fyrra ári, samkvæmt tölum markaðsfræðinga JATO Dynamics. Bíllinn var þriðji söluhæsti bíll Honda á eftir Jazz og CR-V.

Honda segist hafa lagt höfuðáherslu á bætta aksturseiginleika nýja bílsins, að hluta til með stífari yfirbyggingu. Fyrirtækið fullyrðir að stífni í snúningi sé 19 prósent betri en í fyrri gerð bílsins.

image

Að innan verður Civic með 7 tommu eða 9 tommu snertiskjá, allt eftir búnaðarstigi, en nýr stafrænn skjár fyrir framan bílstjórann er fáanlegur í 7 tommu eða 10,2 tommu breidd. Grillmynstur bílsins má einnig sjá á mælaborðinu, þar sem það er notað til að fela loftop.

Kemur í júlí á næsta ári

Þegar Civic kemur á markað í Evrópu síðsumars 2022, verður hann vissulega búinn öllum þeim nýjasta öryggisbúnaði sem krafist er af Evrópusambandinu; þar á meðal skynvæddri hraðaaðstoð sem lætur ökumann vita ef farið er yfir hámarkshraða.

Fleiri nýjungar má nefna, eins og t.d. aðstoð í umferðarteppu til að hægja sjálfkrafa á og hraða bílnum í hægfara umferð. Honda hefur einnig búið bílinn aðlagandi aðalljósum.

image
image

(Automotive News Europe – myndir frá Honda)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is