Blessaður bílaverkfræðingurinn!

Bifvélavirkjar og allir aðrir sem hafa gert við bíla verða oft gáttaðir á því hvernig bíllinn sem er verið að gera við er hannaður með tilliti til bílaviðgerða. Í kjölfarið hlýtur sá sem hannaði bílinn mikla lofræðu eða hitt þó heldur! Reyndar fer af stað skriða af formælingum, háðsglósum og jafnvel verða til nýyrði sem eru óprenthæf.

image

Flestar tímakeðjur endast margfalt lengur en vatnsdælur. Er þá góð hugmynd að láta keðjuna drífa vatnsdæluna? Þetta kostar bíleigandann fúlgur fjár.

Bílaverkfræðingar virðast fara versnandi með hverjum áratuginum sem líður. A.m.k. virðast þeir ekki skána miðað við nýlegar niðurstöður úr elgsprófinu. Þyngdarpunkturinn liggur of hátt eða fjöðrunin ekki nógu stíf.

T.d. eru svokallaðir NOx skynjarar í pústkerfum dísilbíla, þeir eru í raun súrefnisskynjarar sem hafa sína eigin tölvu eða ígildi tölvu sem er í álhúsi undir bílnum.

Þetta þarf yfirleitt að kaupa saman enda skynjarinn og tölvan óaðskiljanleg. En það er mjög algengt að húsið tærist og vatn komist inn í tölvuna. Þetta er ekki ódýrt stykki og er að bila löngu áður en það ætti að gera það og oft í mjög nýlegum bílum.

image

Best að setja startarann á stað þar sem ekki er hægt að komast að honum til að prófa hvort hann er í lagi.

Kannski á þetta sér skýringu og hún er að verkfræðingarnir eru hræddir við að gera mistök sem leiðir til þess að hugurinn lokast og þeir gera bara „örugga“ hluti. Það gæti verið vinnuveitendum þeirra að kenna.

En Elon Musk leyfir sínu starfsfólki t.d. að fylgja eftir sínum verkefnum og gerir sér grein fyrir því að verkefnin enda ekki alltaf sem nothæf lausn.

Þannig getur hans fólk unnið án hræðslu við að gera mistök. Það hefur skilað árangri. Það lærist oft eitthvað nýtt í leiðinni.

image

Verkfræðingar fyrr og nú. Stundum er ekki hugsað út í að það þarf reglulega að skipta um smursíu.

Væri ekki sniðugt ef sá sem hannaði bílinn þyrfti að sýna bifvélavirkjunum hvernig á að gera við hann?

[Birtist fyrst í október 2021]

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is