• Rebelle-rallið er fyrsta „óbyggðarall“ kvenna í Bandaríkjunum.
    • Jeep sigraði í Rebelle Rally og rafmagnaðir Wrangler 4xe voru bæði í 1. og 2. sæti

Rebelle Rally er keppni þar sem saman fléttast ást á akstri og svakaleg áskorun í nákvæmnisakstri. Rallið, sem eingöngu er ætlað konum, tekur átta daga og eknir eru um 2500 kílómetrar í eyðimörk. Nánar tiltekið í Nevada og Kaliforníu.

Engir snjallsímar leyfðir!

Keppendur fá í hendur leiðarbók, og hjálpartækin á þessum löngu akstursleiðum eru, auk leiðarbókarinnar: kort af svæðinu og áttaviti. Engir farsímar, ekkert GPS og ekkert fúsk!

Reiknivélar eru á bannlista (nema þær allra einföldustu sem eingöngu leggja saman, draga frá, margfalda og deila).

Myndavélar þurfa að vera með galtóm minniskort þegar lagt er af stað. Annars eru þær á bannlista. Aðdráttarlinsur yfir 200mm eru sömuleiðis á listanum sem og sjónaukar. Jú, það er mun fleira á bannlistanum og því best að nefna þetta tvennt sem áður var minnst á og má hafa meðferðis (auk leiðarbókar): Kort af svæðinu og gamli góði áttavitinn.

image

Hér reynir ekki á það hver ekur hraðast allra, heldur reynir á hæfni keppenda á hinum ýmsu sviðum. Til dæmis hæfnina að meta fjarlægðir og ferðatíma út frá korti, ökutæki og veðri.

Jú og svo er það nú að rata um blessaða eyðimörkina!

Í ár kepptu fimmtíu lið (ökumaður og aðstoðarökumaður skipa hvert lið) og er það besta þátttaka frá upphafi, en fyrst var keppt í Rebelle Rally árið 2015.

image

Keppt er á jeppum, pallbílum og crossover-bílum í þessari keppni. Keppni sem er víst býsna erfið. Í ár hófst hún þann 7. október við Hoover-stífluna og lauk keppni 16. október í Imperial Sand Dunes (Glamis Dunes) í Kaliforníu.

Gaman er að greina frá því að þar hafa fjölmargar kvikmyndir verið teknar upp. Má þar einna helst nefna Lawrence of Arabia og Pit Stop. En það er nú önnur saga.

Engar sumarbúðir

Þetta rall, Rebelle Rally, er ekki neitt spaug. Síður en svo! Hér reynir á styrk, útsjónarsemi, samvinnu og seiglu keppenda. Ætli megi ekki líka segja að rallið sé ágætt mat á þeim ökutækjum sem því ljúka. Það reynir nefnilega verulega á ökutækið; getu þess og útbúnað. Áskoranirnar eru út um allt í landslaginu - og það í heila átta keppnisdaga.

Nú, þetta er ekki neitt slökunar- eða rólegheitarall. Þvert á móti: Hver keppnisdagur hefst klukkan fimm og þá er morgunverður framreiddur í tjaldbúðunum (meira um þær eftir andartak). Undirbúningsfundur hefst klukkan sex og fyrsti bíll ræsir klukkan sjö.

image

Á milli klukkan fimm og sjö síðdegis ljúka keppendur akstri hvern keppnisdag. Klukkan sjö um kvöldið er kvöldverður borinn fram og eftir klukkan tíu skal algjör þögn ríkja í tjaldbúðunum. Þá er líka næsta víst að konurnar hundrað eru steinsofnaðar.

Skilst manni að maturinn sem er innifalinn í keppnisgjaldinu sé ekki af verri endanum, en matreiðslumeistarinn er víst MIichelinstjörnukokkur að nafni Drew Deckman.

Sigur rafmagnsins

Jæja, nóg um umgjörð rallsins í bili. Vindum okkur í mál málanna: Bílana og sigurvegara keppninnar 2021!

Þær Nena Barlow og Teralin Petereit sem skipa liðið 4xEventure #129 , sigruðu rallið á Jeep Wrangler 4xe tengitvinnbíll. Bíllinn sá varð fyrsti rafbíllinn (tvinnbíllinn) til að ljúka og sigra Rebelle Rally og ekkert lið hefur í sögu keppninnar skorað jafn hátt og 4xEventure.

Ekki nóg með að sigurvegararnir hafi ekið Jeep Wrangler 4xe, því í öðru sæti var lið mæðgnanna Christine og Emily Benzie, Team Jeep Thrills, og hvernig bíl kepptu þær á? Jú, mikið rétt! Jeep Wrangler 4xe.

Annar Wrangler (ekki 4xe) skipaði þriðja sætið og þegar upp var staðið reyndist Jeep vera farkostur fimm liða af tíu efstu í þessari sjöttu keppni í eyðimörkinni.

image

„Þetta árið voru leiðirnar erfiðari en nokkru sinni, en  Wrangler 4xe gerði aksturinn auðveldan,“ sagði Nena Barlow hjá Team 4xEventure, sem sést hér vera að athuga aðstæður í keppninni. „Við brunuðum upp á sandöldur og um grjót í fjallahlíðum með auðveldum og skilvirkum hætti. Svo ekki sé minnst á að aldrei skorti bílinn afl eða drægni."

Vildu sýna nýjan Wrangler 4xe í erfiðustu aðstæðum

„Jeep hefur stutt Rebelle rallið frá upphafi. Í ár þótti okkur spennandi að sýna nýjan Wrangler 4xe við erfiðustu torfæruaðstæður,“ sagði Jim Morrison, varaforseti Jeep. „Það segir allt sem segja þarf um lið okkar í keppninni og verkfræðiteymið að í ár sópaði Jeep Wrangler að sér verðlaunum.

image

Wrangler 4xe jeppar voru í fyrsta og öðru sæti yfir heildina, og hlaut fjölda viðurkenninga í ýmsum flokkum. Þetta tókst okkur án nokkurra einustu vandræða út allt rallið. Til hamingju allir sem voru í rallinu í ár.“

Hefur sigrað í fimm keppnum af sex

Jeep hefur nú borið sigur úr býtum í fimm af sex keppnum Rebelle rallsins til þessa. Búast má við harðari samkeppni bílaframleiðenda í samræmi við sívaxandi markaðshlutdeild öflugra 4x4 jeppa.

image

Shelby Hall og Penny Dale voru í fjórða sæti á Ford Bronco Sport.

(M.a. byggt á fréttum af vef Rebelle Rally og Autoblog)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is