Maður skyldi nú ætla að næsta ómögulegt væri að tveir bílar væru fyrir tilviljun með sama bílnúmerið. Hvað þá fjórir bílar með  sama bílnúmerið! Í dag eru slík mistök við skráningu svo gott sem ómöguleg, en þetta gerðist nú endrum og sinnum hér áður fyrr.  

Fyrirsögnin var kjörin til að fæla talnaringlaða frá, eða bara inn í blaðið, því þar sagði: Tvisvar tveir bílar á sama númerinu!

image

Og reiknaðu nú!

Þegar upp var staðið reyndist reikningsdæmið alls ekki svo flókið en þarna höfðu orðið mistök einfaldlega af því að í Reykjavík „voru slegnar nýjar númeraplötur á tvo bíla og sömu númer slegin og höfðu verið í notkun í fleiri ár fyrir austan“ sagði í blaðinu.

Það er alveg ljóst að bíleigendurnir „áttu“ þessi númer, rétt eins og símanúmerið eða húsnúmerið heima hjá þeim.

Víkur nú sögunni að nýju bílunum: „Óku hinir nýju U-755 og U-878 austur á Hérað, en brá heldur en ekki í brún, er þeir mættu „nöfnum“ sínum á götunni. Snaraðist þá lögreglan í málið og skipti um númer á þeim sem að sunnan komu, og hafa þeir nú númer, sem enginn annar bíll hefur – að því er bezt er vitað.“

„Ég á þetta númer“

Gömlu númerin, sem framleidd voru af Steðja, fóru á síðustu bílana í árslok 1988. Þá tóku við tveggja bókstafa og þriggja tölustafa númer. Bókstöfunum fjölgaði í þrjá og tölustöfunum fækkaði í tvo sumarið 2007, eins og flestum er kunnugt um.

Tveimur mönnum sem hittust þar brá heldur í brún þegar þeir sáu að bílar þeirra voru ekki bara með svipuð númer heldur nákvæmlega sama númerið: K-3005.

Segir svo frá í Degi þann 22. mars 1988: „Eigandi annars bílsins er Sólberg Steindórsson bóndi í Birkihlíð í Staðarhreppi. Númerið fékk hann fyrir einu og hálfu ári þegar hann keypti bílinn nýjan.“

image

Þá er það hinn maðurinn og hinn bíllin, en sama númerið: „Þorsteinn Birgisson fékk svo þetta sama númer afhent fyrir mánuði og var því búinn að aka í mánuð með númerið þegar mistakanna varð vart,“ sagði í blaðinu fyrir tæpum 33 árum síðan.

Skemmst er frá því að segja að hinum síðarnefnda, Þorsteini, var umsvifalaust gert að skipta um númer. Hann var ekki sáttur til að byrja með.

„Þetta er alveg djöfullegt og á auðvitað ekki að geta gerst. Og ég sem var farinn að kunna svo virkilega vel við þetta númer,“ sagði Þorsteinn rétt áður en hann skilaði númeraplötunum.  

Það skipti marga nefnilega verulegu máli að hafa „fallegt“ númer á þessum árum. Í myndatexta sem birtist í blaðinu er eftirfarandi haft eftir Þorsteini: „Ég á þetta númer.“

Mennirnir tveir virðast þó ekki hafa látið þessa uppákomu á sig fá því á myndinni er ljóst að vel fór á með þeim og eflaust hafa þeir séð húmorinn í þessari vitleysu.

Sama númer, sama tegund og sama nafn

Margt sérkennilegt kom upp á þessum árum „gömlu númeranna“ og má þar sem dæmi nefna þegar tveir bílar, sömu gerðar, reyndust bera nákvæmlega sama númer. Það var fleira í þessu tilviki en bara bílnúmerið sem var eins, en það voru nöfn eigenda bílanna. Vísir sagði frá þessu í lok aprílmánaðar árið 1973.

„Það var nú einn vinnufélagi minn búinn að segja mér frá því, að hann teldi sig hafa séð aðra bifreið með sama númeri og mín hefur, en ég hélt, að þetta væri einhver vitleysa. En svo sást hún aftur í hádeginu í gær, og þá fór ég að svipast um eftir henni,“ sagði Ari Jónsson, bíleigandi í Kópavogi.

image

Nafnarnir: Annar sonur Karls en hinn sonur Jóns. Myndin birtist í Vísi í apríl 1973.

Þannig vildi til að sömu skráningarnúmer voru sett á tvo bíla sömu gerðar. Eigendurnir báru sama nafn; en annar sonur Karls og hinn Jóns. Þetta var vissulega óvenjuleg staða en leyst var úr málum þannig að Ari Jónsson fékk númerið Y-1786 í stað Y-1768.

Á annan mánuð með sama númer

Það er við hæfi að ljúka þessari umfjöllun með elsta dæminu sem undirrituð fann af tveimur bílum með sama númer hér á landi. Þann 23. september 1966 birtist í blaðinu Vesturland örlítil klausa með mynd en undir myndinni segir:

Ole N. Olsen forstjóri hér í bæ keypti sér Bronco-bifreið í sumar og fékk númer Í-721 á hana í Reykjavík.

Baldur Sigurbaldursson skipstjóri fékk Opel-bifreið og númer á hana hér fyrir vestan, einnig Í-721. Voru báðir bílarnir tryggðir og teknir í notkun og voru þessi númer á báðum nokkuð á annan mánuð, en loksins hefur rætzt úr þessum vanda og bílarnir hafa fengið hvor sitt númer,“ sagði um það mál í Vestfirðingi, fyrir rúmum 55 árum síðan.

image

Niðursuðuverksmiðja O.N. Olsen var reist í kringum 1950 við enda Sundstrætis á Ísafirði. Hér eru þeir Í-721 og Í-721 þar fyrir utan, ólíkir mjög að einu atriði undanskildu: Númerið er það sama á báðum bílum.

Greinar af svipuðum toga sem þér gæti þótt áhugaverðar: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Lumir þú á sögu sem gæti átt heima á síðunni okkar þá eru allar ábendingar vel þegnar. Netfangið er malin@bilablogg.is.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is