Árið 1905 var merkileg nýjung kynnt í blaðinu Reykjavík. Það var „reiðhjól með hreyfivél“ eða svokallað bifhjól.

Bara 19 mínútur milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar

„Hjól þessi þarf ekki að stíga: eru svo fljót í ferðum, að farið hefur verið á þeim á 19 mínútum milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar,“ sagði í auglýsingunni sem Þorkell Þ. Clementz ritaði sumarið 1905, eða fyrir rúmlega 116 árum síðan.

image

Þetta sagði þó ekki alla söguna, enda fátt annað að miða við á þessum tíma en fákinn fjórfætta. Þess vegna var nauðsynlegt að koma með dæmi til samanburðar:

„Til samanburðar skal þess getið, að bifreið Thomsens (mótorvagninn) fer á c.a. 2 klst. suður að Hraunsholti, ¾ leiðarinnar, og fær hún þó nú eftir vagnstjóraskiftin að njóta afls síns í fullum mæli: sbr. auglýsingu í 34. tbl. „Reykjavíkur“ bls. 134.“

image

Eins og segir þarna þá var orðið allt annað að ferðast með vagninum;

„Afl hans kemur nú að fullum notum, en vagnstjórinn, sem var í fyrra, kunni ekki með hann að fara.“

Forsíðumyndin er af einni af fyrstu bifreiðunum í eigu Hafnfirðinga. Var hún af gerðinni Overland. Myndin birtist í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1966 og er myndatextinn eftirfarandi: „Magnús Magnússon í Skuld er við stýrið. Við hlið hans er Böðvar Böðvarsson, bakari. Aftur í eru börn Böðvars, Elísabet kaupkona og Jónas skipstjóri, en í miðið Ingibjörg Ögmundsdóttir, símstjóri. Myndin er tekin í Hafnarfirði.“

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is