Þeir sem klikkuðu

Við erum alltaf að dást að bílum. Reynsluakstur og greinar eru okkar ær og kýr hér á vefnum. Þegar nýjum bíl er reynsluekið í dag reiknum við með að framleiðandinn hafi unnið heimavinnuna og skafið af honum þá ókosti og mínusa sem reynslan hefur kennt.

Reynsluakstur byggir mikið á upplifun

Að því sögðu langar mig að skrifa nokkrar tengdar greinar um bíla sem hafa fengið slæma útreið í reynsluakstri hjá sérfræðingum sem gefa sig út fyrir að reynsluaka allskyns ökutækjum og fjalla síðan um þau.

Þeir bílar sem við fjöllum um í þessum greinum eru ekkert endilega þekktir á Íslandi, enda Ísland lítil eyja sem flytur ekki alla heimsins bíla inn á sinn litla markað.

Grein þessi fjallar um þá bíla sem segja má að hafi klikkað á einhvern hátt, fengið slæma útreið í umfjöllun og hvort það hafði einhver áhrif á kaupendahópinn.

Fljótfærni í framleiðslu

Fisker Karma og Karma Revero eru tiltölulega nýir bílar – komu fyrst á markað árið 2011 og Revero 2017. Ekki er hægt að segja að Henry Fisker sé einhver græningi í bílahönnun og framleiðslu því hann kom að hönnun BMW Z8, Aston Martin DB9 og Aston Martin V8 Vantage.

image

Fisker Karma.

Fisker Karma var plug-in hybrid lúxus bíll, fjögurra dyra og miðaður við efnaða kúnna. Bíllinn þótti ansi flottur en ýmislegt gekk samt ekki alveg upp. Hann þótti alls ekki hentugur sem lúxusbíll fyrir fimm farþega.

Bíllinn bilaði í reynsluakstri, rafhlöðu var illa fyrir komið og hann eyddi fáranlega miklu eldsneyti.

Fiskerinn var svo lágur að farþegar aftur í þurftu nánast að leggjast inn í hann. Eftir að bíllinn hafði verið innkallaður vegna hættu á íkveikju út frá rafhlöðu og dræmri sölu í kjölfarið var framleiðslu hætt á Fisker Karma og árið 2013 var fyrirtækið úrskurðað gjaldþrota.

image

Fisker Revero lítur ekki illa út.

Árið 2015 var síðan Karma Automotive stofnað á rústum Fisker Automotive.

Þaðan kemur svo bíllinn Karma Revero. Bloomberg fréttaveitan gagnrýndi fyrirtækið harðlega fyrir svikin loforð og að Revero væri bíll sem vantaði mikið upp á að vera sá sem lofað væri.

Sum verkefni ganga bara ekki upp

Mitsubishi Space Star er lítill og þekkilegur bíll sem við ættum að muna eftir hér á landi. Reyndar er hafði Mitsubishi áður verið með stærri Space Star bíl, en sá litli er til umfjöllunar hér. Mitsubishi hafði lagt talsverða vinnu í að gera þennan bíl léttari og skemmtilegri í útliti ásamt því að gera hann meira staumlínulagaðan. Bílnum var hins vegar illa tekið án þess að of djúpt sé í árinni tekið.

image

Mitsubishi Space Star.

Margir helstu bílafjölmiðlar í Evrópu gáfu bílnum falleinkunn, hann var að fá þrjár stjörnur af tíu hjá þeim mörgum. Mitsubishi Space Star árgerð 2013 var talinn einn af tíu verstu bílum ársins. Bíllinn var sagður óþjáll og stífur og  innanrýmið var eins og í bíl frá því um 1980.

Bílamógúllinn Doug DeMuro sagði einfaldlega: „Versti nýi bíllinn á markaðnum í dag.”

Held að það sé rétt munað að þessi fákur sást fyrst á Íslandi árið 1999 og var þá auglýstur sem góður kostur við hlið VW Golf og fleiri bíla.

Fallega ljótur en gríðarlega vinsæll

Nissan Juke var næst söluhæsti bíll Nissan á eftir Nissan Qashqai í Bretlandi árið 2015. Þrátt fyrir velgengni bílsins fékk hann á sig talsverða gagnrýni, meðal annars fyrir bilanatíðni, notagildi og útlit.

image

Hann leynir á sér Juke-inn.

Fyrsta kynslóð Juke bilaði talsvert á ýmsa vegu og sumt var jafnvel dýrt að gera við. Þær í dýrari kantinum voru bilanir í CVT gírkassa, túrbínu, leki á eldsneyti og bilaðir súrefnisskynjarar. Einnig voru vandræði með rafgeyma og tímakeðjur.

Aðrir sögðu hann vera ljótasta bíl sem nokkurn tíma hefði komið á markað.

image

Maður hefur séð það minna, sérstaklega í nýrri rafbílum.

Juke fékk einnig á sig gagnrýni fyrir lítið pláss og lélega nýtingu á því rými sem var í boði þrátt fyrir að bíllinn væri ekkert endilega lítill.

Heycar tímaritið sagði: „Gamli greifinn frá Nissan selst í skipsförmum þrátt fyrir að líta þannig út, að aðeins móðir slíks afkvæmis gæti þótt hann fallegur.” Sérstaka athygli fékk þó lítið skottpláss, lélegt höfuðrými aftur í og afstaða stýris gagnvart ökumanni.

image

Ekkert að þessu mælaborði.

Því miður hefur Juke fengið slæmar umsagnir í gegnum árin. Richard Hammond hefur verið sérlegur sendiherra þeirra sem líkar bíllinn alls ekki en hann segir að allar götur síðan þessi bíll kom á markað hafi hann verið verðugur fulltrúi ljótustu bíla sem framleiddir hafa verið.

Myndir: Wikipedia og fleiri.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is